Sverrir Leósson
Sverrir Leósson
Sverrir Leósson skrifar um kjarasamning fjármálaráðherra við ljósmæður: "Læknar eru næstir og þeir virðast ekki tilbúnir til að gefa neitt eftir, nema síður sé, því þeir hækkuðu launakröfur sínar eftir að samningur við ljósmæður lá fyrir."

LJÓSMÆÐUR og fjármálaráðherra hafa samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara um nýjan kjarasamning þessara aðila. Samkvæmt því hækka grunnlaun ljósmæðra um allt að 22,6 prósent, sem þýðir að mánaðarlaun þeirra hækka að jafnaði um 70-90 þúsund krónur. Það er vel í lagt á sama tíma og stór hluti þjóðarinnar berst í bökkum vegna verðbólgu, sem sífellt virðist færast í aukana. Verð á matarkörfunni hækkar jafnt og þétt, en launaumslagið þyngist lítið. Þetta segir til sín í hækkandi vísitölu, sem hækkar skuldir heimilanna með ógnarhraða, því flest lánin eru verðtryggð miðað við vísitölu eða gengi. Fæðingarhríðir óðaverðbólgu eru komnar af stað.

Nú er ég ekki að gera lítið úr ljósmæðrum, þær eiga allt gott skilið. En ég óttast að þeirra kjarasamningur hafi sett af stað launaskrið, sem ekki sér fyrir endann á. Læknar eru næstir og þeir virðast ekki tilbúnir til að gefa neitt eftir, nema síður sé, því þeir hækkuðu launakröfur sínar eftir að samningur við ljósmæður lá fyrir. Þessar stéttir eru vissulega mikilvægar og það nýta þær sér til kjarabóta. Kjarabarátta þeirra hefur fengið stuðning frá þjóðinni, ekki síst vegna þess að öll fjölmiðlaumræða hefur verið þeim í hag. Vissulega þarf að greiða þessu fólki góð laun, en það þarf að vera innistæða fyrir þeim launum. Það er ekkert gagn að kjarabótum, sem brenna á báli verðbólgu á fáum dögum.

Samkvæmt upplýsingum sáttasemjara eru tugir stéttarfélaga með lausa kjarasamninga og stóru stéttarfélögin innan ASÍ eru í uppnámi í byrjun næsta árs. Talsmenn atvinnurekenda segja svigrún fyrir hækkun upp á 3-4% á almennum launamarkaði, en á sama tíma gengur ríkið að kjarasamningi upp á yfir 20% hækkun. Þetta gengur ekki upp. Það er að skapast sama ástand í þjóðfélaginu og var á síðustu áratugum síðustu aldar, þegar verðbólgan nálgaðist þriggja stafa tölu, gott ef hún náði ekki því marki um tíma. Þá var aftur og aftur samið um kjarabætur, sem brunnu jafnharðan í verðbólgubálinu. Þjóðin var við það ár eftir ár að elta skottið á sjálfri sér. Hún náði því aldrei, en núna stefnir hraðbyri í sama leikinn. Læra menn aldrei af reynslunni?

Það ríkir mikil óvissa í samfélaginu vegna fjármálakreppu, sem ríkir um allan heim. Ég þarf ekki að tíunda það. Þess vegna er það ábyrgðarhluti af ríkisstjórn að ganga að miklum kjarabótum til ljósmæðra. Þær kjarabætur eru teknar af skattpeningum þjóðar, sem er í kreppu. Skatttekjur ríkissjóðs koma til með að dragast saman á næstu mánuðum og árum og því lítið svigrúm til mikilla launahækkana. Nú er ég ekki að halda því fram, að kjarabætur ljósmæðra setji þjóðfélagið á hausinn. Síður en svo, en ég veit að allir hinir koma á eftir. Fyrsti steinninn hefur verið tekinn úr stíflunni. Það er kominn í hana brestur. Verði ekki spyrnt við fótum fer illa fyrir þjóðinni.

Það hefur ríkt góðæri meðal okkar Íslendinga á undanförnum árum, en að hluta til var þetta góðæri byggt á sandi. Það hefur verið að koma í ljós á undanförnum vikum. En menn voru blindir og margir hafa eytt langt um efni fram. Lánsfé var borið í unga sem aldna. Sú var tíðin, að ungt fólk sætti sig við að hefja búskap í kjallaranum hjá pabba og mömmu með innbú frá afa og ömmu. En á undanförnum árum hefur þessum ágætu gildum verið kastað fyrir róða. Unga fólkið hefur búskap í nýjum íbúðum, þar sem lán fæst til kaupanna. Þegar það er frágengið er dregið upp kreditkortið og keypt nýtt innbú á raðgreiðslum. Að lokum er svo bætt við nýjum bíl á erlendu láni. Þetta gat venjulegt launafólk leyft sér, en þeir „nýríku“ gerðu enn betur. Þeir vildu helst ekki kaupa neitt nema það kostaði verulegar fjárhæðir. Það var ekki innistæða fyrir þessu „fjárfestingafylliríi“ og „timburmennirnir“ eru ógurlegir. Margir eiga ekki fyrir afborgunum og lánin hækka og hækka vegna verðtryggingar í gengi eða vísitölu. Þess vegna yrðu margir enn í skuld, þótt þeir seldu allt sem keypt var.

Skuldir þjóðarinnar eru ógnvænlegar og fjöldi heimila rambar á barmi gjaldþrots. Ungt fólk á hlut að máli í mörgum tilvika; býr við brostnar vonir í upphafi búskapar. Sambönd þeirra og heimili þola ekki álagið og leysast upp. Það er kallað eftir aðgerðum stjórnvalda, en ríkisstjórnin gerir ekki neitt. Jú, hún samþykkir kjarabætur til ljósmæðra, sem gætu ýtt af stað launaskriði og óðaverðbólgu. Talsmenn launþega og atvinnurekenda kalla eftir þjóðarsátt, líkt og þeirri sem kvað niður verðbólguna í lok síðustu aldar. Þrátt fyrir það heyrist ekkert um aðgerðir stjórnvalda til að koma þeim viðræðum í gang. Það þarf einhverja „gulrót“ í upphafi til að slík „þjóðarsátt“ geti orðið að veruleika. Ef ekkert er að gert fer illa fyrir íslensku þjóðinni. Þeir einir fiska, sem róa. Þess vegna skora ég á ríkisstjórnina að setjast undir árar – og róa lífróður. Þá er ég viss um að þjóðin verður tilbúin til að leggjast á árarnar líka. Þannig gæti náðst „þjóðarsátt“ til að lágmarka þann skaða sem þegar er orðinn.

Höfundur er útgerðarmaður á Akureyri.

Höf.: Sverrir Leósson