[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnar Óskarsson lék í gær sinn fyrsta leik með Dunkerque í frönsku 1. deildinni í handknattleik á þessu keppnistímabili. Hann gekk til liðs við félagið á ný í sumar eftir að hafa leikið með Ivry og Nimes um nokkurt skeið við góðan orðstír.
R agnar Óskarsson lék í gær sinn fyrsta leik með Dunkerque í frönsku 1. deildinni í handknattleik á þessu keppnistímabili. Hann gekk til liðs við félagið á ný í sumar eftir að hafa leikið með Ivry og Nimes um nokkurt skeið við góðan orðstír. Ragnar hefur nú loks jafnað sig eftir að hafa slitið krossband í hné snemma árs. Hann skoraði þrjú mörk þegar Dunkerque vann Aurillac , 35:26, á útivelli. Dunkerque er í sjötta sæti af 14 liðum.

Bjarni Fritzson og félagar hans í St Raphael töpuðu í gær fyrir Tremblay í frönsku 1. deildinni í handknattleik. St Raphael hefur farið illa af stað í deildinni og er á meðal neðstu liða með einn sigur í fjórum leikjum.

Kristinn Björgúlfsson skoraði sex mörk og var einu sinni rekinn af leikvelli þegar lið hans Runar vann Sandefjord í uppgjöri liðanna frá Sandefjord í 1. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Runar vann öruggan sigur, 32:24. Kristinn gekk á ný til liðs við Runar í sumar eftir misheppnaða dvöl í Grikklandi í fyrravetur.

Noregsmeistarar Elverum fóru ágætlega af stað í gær þegar þeir unnu Nærbø , 25:23, á útivelli. Sigurður Ari Stefánsson skoraði þrjú mörk fyrir meistaraliðið.

V ladimir Maximov , hinn litríki landsliðsþjálfari Rússa í handknattleik karla, hefur ákveðið að hætta þjálfun þess. Hans lokaverkefni með liðið var þátttaka í Ólympíuleikunum í Peking þar sem rússneska landsliðið varð í 6. sæti. Maximov, sem er 62 ára, hefur verið landsliðsþjálfari Rússa nær óslitið frá 1992 að undanskildum fáeinum mánuðum á árunum 2004 og 2005 þegar hann komst upp á kant við íþróttamálaráðherra Rússlands .

Eþíópíumaðurinn Haile Gebrselassie varð fyrstur manna til þess að hlaupa maraþon á skemmri tíma en 2 klukkustundum og 4 mínútum þegar hann vann í gær sigur í Berlínarmaraþoninu, þriðja árið í röð. Hinn brosmildi Gebrselassie kom langfyrstur í mark í hlaupinu á 2 stundum, 3 mínútum og 49 sekúndum og bætti besta tíma sögunnar um 59 sekúndur. Þann tíma átti hann einnig.