Morgunblaðinu barst í gær eftirfarandi fréttatilkynning frá Rafmagnsveitum ríkisins: „Í Morgunblaðinu [á laugardag] er fréttaskýring undir fyrirsögninni Misheppnuð markaðsvæðing?

Morgunblaðinu barst í gær eftirfarandi fréttatilkynning frá Rafmagnsveitum ríkisins:

„Í Morgunblaðinu [á laugardag] er fréttaskýring undir fyrirsögninni Misheppnuð markaðsvæðing? Þar er fjallað um hve lítil raunveruleg samkeppni hefur komist á hér á landi á raforkumarkaði og hve lítinn ávinning almennir raforkunotendur hafa af því að skipta um raforkusala. Vitnað er í samanburð frá verðlagseftirliti ASÍ á gjaldskrám orkufyrirtækjanna, bæði í samkeppnishlutanum og einkaleyfisstarfseminni. Því miður eru enn viðhöfð óvönduð vinnubrögð hjá verðlagseftirliti ASÍ í samanburði á gjaldskrám orkufyrirtækjanna milli ára.

ASÍ hefur tekið saman kostnað fyrir heimili sem notar 4000 kWst og ber saman breytingar á milli ára. Varðandi RARIK og Orkusöluna er samanburðurinn rangur. Rétt er farið með kostnað skv. gjaldskrá í ágúst 2008. Hins vegar lítur út fyrir að þær tölur sem ASÍ notar í samanburði sínum og sagðar eru frá ágúst 2007 séu fengnar úr gjaldskrám sem tóku gildi meira en ári fyrr, en giltu fram til janúar 2007. Það lítur út fyrir að ASÍ noti gjaldskrá RARIK sem gilti fyrir flutning og dreifingu frá maí 2006 til og með janúar 2007. Þá virðist ASÍ nota tölur úr verðskrá Orkusölunnar frá mars 2006, en ekki frá ágúst 2007.

Í samanburði ASÍ á raforkukostnaði heimila 2007 og 2008 kemur fram sú staðhæfing að á tímabilinu ágúst 2007 til ágúst 2008 hafi hækkun á raforkukostnaði heimilis með 4000 kWst notkun (flutningur, dreifing og sala) hjá RARIK og dótturfélagi þess Orkusölunni verið 15,8% í þéttbýli og 23% í dreifbýli. Hið rétta er að á þessu tímabili hefur raforkukostnaður þessa heimilis hækkað um 12,3% í þéttbýli og 12,4% í dreifbýli.

Gjaldskrá RARIK vegna flutnings og dreifingar hefur hækkað frá ágúst 2007 til ágúst 2008 um 16,4% í þéttbýli og 15,7% í dreifbýli. Verðskrá Orkusölunnar fyrir söluhlutann hefur hækkað um 6% frá ágúst 2007 til ágúst 2008 en ekki 14,8% eins og fram kemur í greininni.

Gjaldskrár RARIK frá maí 2006 til dagsins í dag má finna á heimasíðu RARIK www.rarik.is,“ segir í fréttaskýringunni.