Singing Bee Skrýtinn þáttur.
Singing Bee Skrýtinn þáttur.
Kastljós sýndi á dögunum syngjandi fólk á Abba-sýningu. Fólk stóð upp úr sætunum, baðaði út höndunum og söng af innlifun Mamma mia og önnur lög.

Kastljós sýndi á dögunum syngjandi fólk á Abba-sýningu. Fólk stóð upp úr sætunum, baðaði út höndunum og söng af innlifun Mamma mia og önnur lög.

Einhver myndi kannski segja að þarna hefði Kastljós opinberað af miskunnarleysi kúltúrlausan almúgann sem finnur sér ekkert annað til skemmtunar en að sameinast öðrum hópsálum í aðdáun á dæmigerðri Hollywood-lágmenningarmynd.

Þannig hugsaði ég samt ekki enda einlægur Hollywoodaðdáandi. Mig langaði dálítið mikið til að vera þarna en vissi um leið að það væri ekki hægt. Ég er alltof bæld. Þannig að ég ákvað að kaupa mér bara DVD-útgáfuna þegar hún kemur út og syngja með heima.

Svo kom laugardagur og Singing Bee birtist á Skjá einum. Það fannst mér einhvern veginn ekki ná neinum Abba-hæðum. Þetta var mjög sérkennilegur þáttur aðallega vegna þess að fæstir sem þar komu fram kunnu textana. Þess vegna ráku þeir yfirleitt upp smágól og þögnuðu svo. Mig minnir að þetta hafi gengið fyrir sig í um það bil klukkutíma eða svo. Þá var ég orðin nokkuð tóm í höfðinu.

Singing Bee er einhver furðulegasti þáttur sem ég hef séð. Eiginlega nóg að sjá hann bara einu sinni.

Kolbrún Bergþórsdóttir