Flugferð Leikmenn og aðstandendur FH-liðsins tolleruðu að sjálfsögðu þjálfara sinn, Heimi Guðjónsson, þegar Íslandsmeistaratitillinn var í höfn.
Flugferð Leikmenn og aðstandendur FH-liðsins tolleruðu að sjálfsögðu þjálfara sinn, Heimi Guðjónsson, þegar Íslandsmeistaratitillinn var í höfn. — Morgunblaðið/hag
HEIMIR Guðjónsson getur svo sannarlega verið stoltur af verkum sínum en á fyrsta ári sem þjálfari FH-liðsins tókst honum stýra liðinu til sigurs í Landsbankadeildinni á dramatískan hátt.

HEIMIR Guðjónsson getur svo sannarlega verið stoltur af verkum sínum en á fyrsta ári sem þjálfari FH-liðsins tókst honum stýra liðinu til sigurs í Landsbankadeildinni á dramatískan hátt. Heimir tók við þjálfun FH-inga af Ólafi Jóhannessyni eftir síðustu leiktíð en Heimir var aðstoðarmaður Ólafs eftir að hann hætti að leika með Hafnarfjarðarliðinu eftir að það varð Íslandsmeistari árið 2005.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

Heimir var sallarólegur þegar undirritaður settist niður með honum í búningsklefa FH-inga eftir sigur liðsins á Fylkismönnum í Árbænum þar sem FH-ingar voru krýndir Íslandsmeistarar í fjórða sinn og tókst þar með hefna rækilega fyrir ófarirnar árið 1989 þegar Fylkismenn komu í veg fyrir Íslandsmeistaratitil Hafnarfjarðarliðsins.

,,Þetta leit þannig út fyrir mér að þegar við töpuðum á móti Fram þá var leikurinn við Keflavík upp á stoltið og að láta Keflvíkingana ekki koma í Krikann og fagna titlinum. Það besta sem kom fyrir í þeim leik var að við skyldum vinna 3:2 og skora sigurmarkið á lokamínútunum. Eftir þann leik komust menn á bragðið og eftir sigurinn á Breiðabliki áttuðu menn sig á því að það var góður möguleiki á að vinna titilinn og sérstaklega í ljósi þess að Framararnir voru á góðu skriði og við vissum að þeir gátu strítt Keflavík eins og kom á daginn,“ sagði Heimir Guðjónsson.

Úrslit ráðast í september

„Úrslit Íslandsmóta ráðast í september og við töluðum um það að við myndum halda áfram og telja svo stigin að loknu móti. Liðið sýndi það í dag og í síðustu þremur leikjunum hvað mikið er spunnið í það og hversu gríðarlegur karakter er í strákunum. Við óðum í færum í þessum leik en mörkin létu á sér standa. Við ræddum um það í hálfleiknum að vera þolinmóðir. Ég sagði við þá að mörkin myndu koma, það gekk eftir og það fór vel á því að Gummi Sævars skoraði seinna markið því hann hefur verið frábær í síðustu leikjum. Eftir seinna markið stigum við á bremsuna og héldum bara boltanum. FH er verðugir meistarar. Það skiptir máli að toppa á réttum og ég get fullyrt það hér og nú að það er ekkert lið í betra formi en FH-liðið,“ sagði Heimir.

Hvernig varð þér við þegar þú heyrðir að Keflavík var komið yfir á móti Fram?

,,Við vorum ekkert að spá í hvað var gerast suður með sjó. Auðvitað heyrði maður af þessu og innst inni hugsaði maður að Keflavík væri kannski að hafa þetta en við svöruðum strax með því að skora og fljótlega á eftir heyrði maður af jöfnunarmarkinu. Þar með var ekkert annað fyrir okkur að gera en að bæta bara í og það gerðum við svo sannarlega. Þó svo ég að vissi að Fram var komið yfir þá lagði ég áherslu á að skora annað mark af því maður átti alveg eins von á að Keflavík jafnaði metin.“

Þú hefur væntanlega heyrt af því að það voru flestir búnir að afskrifa FH í titilbaráttunni?

,,Hún gat ekki verið betri við okkur sú umræða sem var í gangi um Keflavíkurliðið. Það vildu allir nema FH-ingar að þeir yrðu meistarar og því var mjög auðvelt fyrir mig að undirbúa mína menn. Vissulega er Keflavík með frábært lið og hefur spilað vel í sumar en við stöndum uppi sem sigurvegarar og erum því bestir. Mér fannst Keflvíkingar gefa höggstað á sér með því blása út þessa pizzuveislu sem þeir voru með þegar við spiluðum við Breiðablik og eitt og annað í kringum það.“

Sterkur hópur og góð blanda

Nú hefur FH unnið fjóra titla á síðustu fimm árum. Verður áframhald á þessari velgengni hjá liðinu?

,,Leikmannahópur FH er mjög sterkur. Í honum er góð blanda. Það eru reynsluboltar í því og ungir strákar sem eru að koma inn og FH er ekkert að fara að gefa eftir. Við settum okkur bara eitt markmið fyrir mótið og það var að verða Íslandsmeistarar. Það tókst og nú hefjum við æfingar aftur í nóvember, byrjum að undirbúa næsta tímabil þar sem við ætlum okkur stóra hluti. Flestir þeir leikmenn sem voru með okkur í sumar verða örugglega áfram. Það hljóta allir að vilja vera í besta liðinu. Allir leikmenn mínir eiga heiður skilinn og margir hafa spilað gríðarlega vel. Fótbolti er liðsíþrótt og liðsheildin er mögnuð en ef ég á nefna einn leikmann umfram annan þá verð ég að nefna Tommy Nielsen. Hann er besti leikmaðurinn sem hefur spilað hér á landi og hann verður með okkur áfram,“ sagði Heimir.