Tjáningarþörf Erna beitir óspart öllum líkamshlutum sínum.
Tjáningarþörf Erna beitir óspart öllum líkamshlutum sínum.
Íslensk heimildarmynd. Leikstjóri: Ásthildur Kjartansdóttir. Fram koma Erna Ómarsdóttir, ofl. 55 mín. Ísland 2008.

„DANSARI, leikkona, söngkona, fullkominn listamaður“, á þessa leið eru ummæli frægs leikstjóra sem hefur unnið með Ernu Ómarsdóttir, viðfangsefni Ásthildar Kjartansdóttir í heimildarmynd sem er óvenjulega einlæg. Ástæðan er framar öðru frjálslegt fas og heilindi listamannsins, óhefðbundin sviðsframkoma þar sem hún beitir óspart öllum líkamshlutum og öllum þeim hæfileikum sem henni eru gefnir. Röddin er veigamikið tjáningarmeðal líkt og svipbrigðin, geiflur og geggjaðar hreyfingar sem iða af lífi og krafti. Á sviðinu stormar af henni eins og fellibyl þar sem allt getur gerst. Erna fann það fljótlega að hefðbundin dansspor og hreyfingar voru ekki það form sem hentaði henni sem listamanni. Þegar hún sá nútímadanssýningu á Listahátíð í Reykjavík, var leitinni lokið. Erna komst í skóla sem hefur mótað marga óvenju sjálfstæða listamenn í nútímadansi og fengið í framhaldinu að vinna með og verða einn af fremstu listamönnum á sínu sviði. Dansinn hefur leitt hana vítt um heiminn og fært henni frægð og frama. Erna segist vera bæði feimin og frökk og hún virkjar þessi öfl á sviðinu, þar sem hún flytur gjarnan eigin verk og texta. Sýningaranar endurspegla óhefta tjáningarþörf, gott ef hrollvekjan blundar ekki einhvers staðar undir niðri. Einhvern tíma hefði Erna verið kölluð kynlegur kvistur, sem hún er í jákvæðustu merkingu; í hugum margra hið besta hól á tímum þegar listamenn sem aðrir keppast við að falla sem best í kramið.

Sæbjörn Valdimarsson

Sýnd í Iðnó 29.09, 04.10.
Höf.: Sæbjörn Valdimarsson