FIMM verslanir opna dyr sínar fyrir viðskiptavinum í verslunarmiðstöðinni Korputorgi við Vesturlandsveg um næstu helgi.

FIMM verslanir opna dyr sínar fyrir viðskiptavinum í verslunarmiðstöðinni Korputorgi við Vesturlandsveg um næstu helgi. Nota þessi fyrirtæki liðlega helming húsnæðisins en fleiri fyrirtæki opna síðar þar sem búið er að leigja alls um þrjá fjórðu húsnæðisins.

Fasteignafélagið SMI byggir verslunarmiðstöðina Korputorg í Stekkjarbrekkum við Vesturlandsveg. Húsnæðið er alls um 38 þúsund fermetrar að gólfflatarmáli. Fyrstu verslanirnar verða opnaðar um helgina. Það eru Rúmfatalagerinn, leikfangaverslunin Toys'R'Us, húsgagnaverslunin Ilva, Europris og húsgagnaverslunin Pier. Af þessu tilefni verður hátíð á Korputorgi um helgina og verslanirnar með opnunartilboð.

Davíð Freyr Albertsson, framkvæmdastjóri SMI, segir að þessar fimm verslanir leigi liðlega helming verslunarplássins í Korputorgi. Fleiri verslanir bætist við fyrir jól enda sé búið að leigja út um 75% af húsnæðinu. Þá verður N1 með bensínstöð á svæðinu.

„Þetta er góð byrjun, öflugir aðilar sem opna núna. Þeir selja ódýrari vörur sem henta vel á markaðinn eins og hann er núna,“ segir Davíð Freys spurður um áhrif samdráttar í efnahagslífinu á uppbygginguna.

Á Íslandi og við Eystrasalt

SMI er fasteignafélag með sömu eigendur og Rúmfatalagerinn þar sem Jakup Jakobsen fer fremstur í flokki. Auk Korputorgs á félagið verslunarmiðstöðina Smáratorg í Kópavogi og skrifstofuturninn við Smáratorg, verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri og verslunarhúsnæði við Skeifuna í Reykjavík. Þá á fyrirtækið húsnæði í Lettlandi og Litháen. Heildarflatarmál fasteigna félagsins er um 230 þúsund ferm., að sögn Davíðs. helgi@mbl.is