[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íbúðalán bankanna 483 milljónir í ágúst Til samans gáfu innlánsstofnanir út 43 íbúðalán í ágúst sem jafngildir um tveimur lánveitingum á dag þá tuttugu viðskiptadaga sem voru í mánuðinum.

Íbúðalán bankanna 483 milljónir í ágúst

Til samans gáfu innlánsstofnanir út 43 íbúðalán í ágúst sem jafngildir um tveimur lánveitingum á dag þá tuttugu viðskiptadaga sem voru í mánuðinum. Heildarupphæðin var 483 milljónir eða tæpur einn tíundi af útlánum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) í sama mánuði samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Samkvæmt skýrslu ÍLS voru almenn útlán 4,3 milljarðar króna og meðalútlán 10,9 milljónir króna sem benda til að lánveitingar hafi verið í kringum 400. Íbúðalán innlánsstofnana hafa dregist jafn og þétt saman á þessu ári og hafa síðustu þrjá mánuði verið á svipuðu róli í kringum 45 lán á mánuði. Meðallánsupphæð hækkaði hins vegar nú í ágúst frá júlí og var 11,2 milljónir króna, að því er segir í Hálffimmfréttum Kaupþings.

Gæti bjargað fjölskyldum frá gjaldþroti

Félagsmálaráðherra skoðar nú hvort heimila eigi Íbúðalánasjóði að endurfjármagna íbúðalán sem tekin voru hjá bönkunum á sínum tíma. Slíkt myndi bjarga mörgum heimilum frá gjaldþroti en Íbúðalánasjóður leyfir viðskiptavinum sínum að frysta lán í allt að þrjú ár vegna greiðsluerfiðleika.

Þeir sem tók níutíu prósenta lán hjá bönkunum fyrir tveimur árum til að kaupa húsnæði horfa margir hverjir fram á það að höfuðstóll lánsins er orðinn hærri en verðmæti húsnæðisins. Það sem verra er, þverrandi kaupmáttur gerir það að verkum að fólk hættir að geta staðið í skilum. Þótt Íbúðalánasjóðslánin séu verðtryggð ekki síður en bankalán er hægt að frysta þau í allt að þrjú ár í von um batnandi tíð.

Reynir tré septembermánaðar

Dómnefnd Skógræktarfélagsins taldi að ekki yrði horft framhjá hinum sígilda reynivið nú í september, svo áberandi og glæsilegur er hann í borginni. Tré mánaðarins er því reyniviður (Sorbus aucuparia) í garði við Vorsabæ 15 í Árbæjarhverfi. Þar stendur hann stakur framan við húsið og bregður svip á hverfið, farinn að nálgast miðjan aldur ef að líkum lætur, hlaðinn berjum og allur hinn kröftugasti.

Hann er 9,55 metrar á hæð og ummálið í eins metra hæð frá jörðu er 1,17 m. Þvermál krónu er um 6 m. Auður Sjöfn Tryggvadóttir og Pétur Vilhjálmsson byggðu Vorsabæ 15 árið 1967 og gróðursettu reyniviðinn líklega 1969 og var hann keyptur í Fossvogsstöðinni. Núverandi eigendur eru Ásta Guðmundsdóttir og Jan Inge Lekve. Ekki er vitað til að Vorsabæjarreynirinn hafi fengið sérstaka meðhöndlun utan venjulegrar umhirðu, hann er einfaldlega rétt tré á réttum stað, að því er segir í umsögn dómnefndar.