Einar J. Egilsson fæddist á Norður-Flankastöðum í Sandgerði 17. janúar 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 14. september síðastliðinn og fór útför hans fram frá Kópavogskirkju 22. september.

Þegar ég hugsa til baka um hann pabba minn, þá kemur upp í hugann maður sem var réttsýnn, fylginn sér, hafsjór af fróðleik og alltaf með fullt af verkefnum, t.d. að fara á fundi, ráðstefnur, gönguferðir, sjóferðir, skoðunarferðir eða að grúska í bókum.

Hann fór ekki troðnar slóðir eða lét almenningsálitð breyta sínum hugsunum. Hann hugsaði mikið um náttúruna og framtíð hennar og vildi lifa í sátt við hana. Heiðarleiki og hugsunin um að láta gott af sér leiða, mikla sig ekki af eigin verkum er það sem ég man í hans fari.

Þótt hann hafi ekki verið að trana sér fram tóku margir eftir hans mörgu góðu verkum sem leiddi m.a. til viðurkenningar (riddarakross fálkaorðunnar) ásamt fleiru. Þessar viðurkenningar fékk hann fyrir störf unnin í sjálfboðavinnu og að eigin frumkvæði.

Ég vil þakka honum fyrir yndisleg ár sem ég átti með honum, öll ferðalögin og alla þá hlýju sem hann sýndi mér og öllum í kringum mig.

Minningarnar um hann eru allar tengdar góðum og skemmtilegum hlutum og enginn skuggi fellur þar á.

Elsku pabbi minn, þú skilur eftir þig frábært ævistarf og son sem minnist þín með stolti.

Egill.

Hávaxinn, sterklega byggður, ljós yfirlitum, glaðlegur og hvers manns hugljúfi sem honum kynntist.

Við Útivistarfélagar vorum heppnir þegar hann gekk til liðs við okkur. Hann var orðinn aðalfararstjóri okkar í dagsferðum áður en við vissum af – og ómissandi. Hann var ekki bara fararstjóri og leiðsögumaður, hann var einstaklega frjór og tillögugóður um ferðir; hvert ætti að halda og hvað ætti að leggja áherslu á. Einar var einnig góður skipuleggjandi, alltaf vel undirbúinn og fær um að svara þeim óteljandi spurningum sem upp komu í slíkum ferðum. Hann kom á svokölluðum raðferðum, sem voru nýlunda, en urðu skemmtilegar og fræðandi – og vel sóttar, því enginn sem byrjaði í þeim vildi missa úr ferð. Hæst og ógleymanlegust stendur ferðin þar sem við fetuðum í fótspor Sigvalda Sæmundssonar, fyrsta ríkisráðna landpóstsins. Var þá gengið frá Reykjavík að Móeiðarhvoli, með viðkomu í Skálholti. Fyrir þær göngur fékk hann mikið lof frá póststjórninni – og þátttakendur fengu númeruð spjöld með frímerki og póststimpli dagsins, sem urðu safngripir.

En Einar fór aldrei nema í dagsferðir. Það var engin leið að fá hann til að koma inn í Bása til að sjá það sem félagið var búið að afreka þar, því ferðir okkar þangað voru alltaf helgarferðir. En á 35 ára afmæli félagsins drifum við hann inneftir og hann var harla ánægður með allt sem hann sá og tók þátt í gleði okkar og borðhaldi og við sáum til þess að hann kæmist heim fyrir nóttina. Annað sem einkenndi Einar var að hann gekk alltaf í gúmmístígvélum. Hvernig sem viðraði og hver sem árstíðin var, hann var alltaf í grænum gúmmístígvélum með hvítri rönd að ofan.

Einar átti stóran þátt í því að móta Útivist og þá sérstaklega dagsferðirnar og eigum við honum mikla þökk að gjalda. Hann var mikill vinur okkar og virtur af öllum. Hans góða kona, Ásgerður, tók ekki þátt í ferðum, en gaf honum alveg lausan tauminn hvað þetta varðaði.

Ég átti mörg skemmtileg símtöl við Ásgerði ef svo stóð á að Einar var ekki heima þegar ég hringdi og við tókum þá oft tal saman. Hún var alltaf glaðleg og létt í tali og vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka henni fyrir hvað hún tók mér alltaf vel, og hvað hún sætti sig við að Einar væri aldrei heima á sunnudögum. Það hlýtur oft að hafa verið erfitt.

Kæra Ásgerður, ég sendi þér og þínu fólki mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið ykkur öllum guðs blessunar um ókomin ár.

Þökk sé Einari Egilssyni. Nú gengur hann á guðs vegum og ég efast ekki um að honum gangi vel þar. Þökk okkar sem þekktum hann mun fylgja honum á þeirri vegferð.

Nanna Kaaber.