Ekki þarf að dvelja lengi í Ríga í Lettlandi til að átta sig á að þjóðin glímir enn við arfleifð Sovéttímans.

Ekki þarf að dvelja lengi í Ríga í Lettlandi til að átta sig á að þjóðin glímir enn við arfleifð Sovéttímans.

Hernámssafn í miðri borginni rekur sögu hersetinnar þjóðar, fyrst undir Sovétmönnum og nasistum í seinna stríði og síðan sem leppríkis Sovétríkjanna austan járntjalds. Þar er ekki dregin upp falleg mynd af Sovétmönnum. Staðsetning og vægi safnsins í miðborginni er pólitísk yfirlýsing í sjálfu sér. Ekki síst þegar horft er til þess að tæpur þriðjungur íbúa Lettlands á uppruna sinn í öðrum fyrrum Sovétríkjum. Margir þeirra eru án vegabréfs og tala jafnvel ekki lettnesku – og mega ekki ferðast frá Lettlandi, ekki einu sinni austur fyrir. Það er eins og tvær þjóðir búi í sama landi. Og kannski þarf ekki að koma á óvart að tvær stúlkur, sem eru Lettar af rússneskum uppruna, hafi aldrei komið á hernámssafnið. „Ha, hvaða safn,“ segir önnur og bætir við. „Það var aldrei neitt hernám.“ Nú er mikil spenna í samskiptum Eystrasaltsríkjanna og Rússlands vegna innrásar Rússa í Georgíu. Skiljanlega bregðast smáríkin Eistland, Lettland og Litháen við af hörku þegar stórveldið kemur fram á þennan hátt gagnvart nágrannaríkjum sínum.

Þau gætu orðið næst. Þess vegna er rætt um það að sniðganga Eurovision-söngvakeppnina í Moskvu árið 2009 og jafnvel vetrarólympíuleikana í Sotsí árið 2014, sem verða rétt við landamærin að Georgíu. Menntamálaráðherra Eistlands vill sniðganga Eurovision og nýtur það stuðnings meirihluta þjóðarinnar, ef marka má skoðanakönnun dagblaðsins Postimees.

En ekki eru allir á einu máli um framkomu Rússa í Georgíu. Þegar Lettar lögðu blóm við georgíska sendiráðið, þá lögðu Lettar af rússneskum uppruna blóm við rússneska sendiráðið. Og sumir þeirra vilja gjarnan aftur undir rússnesk yfirráð. Dmítrí Medvedev, forseti Rússlands, kynti undir bálið með því að lýsa yfir að hann ætli að greiða fyrir ferðalögum fólks af rússneskum uppruna til heimalandsins, jafnvel þó að það hafi ekki vegabréf. Hann vill styrkja böndin við minnihlutahópa í nágrannaríkjunum. Hvað vakir fyrir honum, spyrja sumir, með slíku inngripi.

Það kraumar undir mikil togstreita í Lettlandi eftir styrjaldir og hernám síðustu aldar. Ekkert ríki fór verr út úr heimsstyrjöldinni fyrri, þar sem 40% þjóðarinnar missti lífið. Og Lettland var grátt leikið í heimsstyrjöldinni síðari, gekk frá henni með samviskubit gagnvart gyðingum, þar sem Lettar tóku þátt í hreinsunum. Svo tók við Sovétttíminn, þar sem Lettar léku líka hlutverk. Það er greinilegt að þjóðin á eftir að gera upp við fortíðina. Og ekki bætir ógnin úr austri ástandið.

Þetta eru viðsjárverðir tímar. p.blondal@gmail.com

Pétur Blöndal

Höf.: Pétur Blöndal