Skjól Heimaalningurinn gerði sig heimakominn við dyrnar í leit að skjóli.
Skjól Heimaalningurinn gerði sig heimakominn við dyrnar í leit að skjóli. — Ljósmynd/Birna G. Konráðsdóttir
Eftir Birnu G. Konráðsdóttur Borgarfjörður | Í rigningunni sem dunið hefur yfir menn og málleysingja undanfarna daga eru kannski missjafnlega mörg úrræði til að koma sér undan vætunni.

Eftir Birnu G. Konráðsdóttur

Borgarfjörður | Í rigningunni sem dunið hefur yfir menn og málleysingja undanfarna daga eru kannski missjafnlega mörg úrræði til að koma sér undan vætunni. Þessi heimaalningur, sem varð á vegi blaðamanns, var ekkert í vandræðum með hlutina. Hann tók sig út úr kindahópnum og tók sér stöðu uppi á tröppum á bænum, undir þakskegginu. Þar rigndi ekki eins mikið og úti á víðáttunni. Ekki var fögnuður húsráðenda eins mikill enda sést að lambið hefur ekki haft fyrir því að hverfa afsíðis til að gera stykki sín. Bændur í sumum hlutum Borgarbyggðar neyddust til að fresta leitum um helgina vegna vatnsaga. Séð verður til hvernig veður skipast í lofti eftir viku.

Gífurlegar rigningar hafa verið í Borgarfirði, sem víðar á landinu, undanfarna daga. Mikið vatn er í öllum lækjum og ám og illfært yfir, bæði mönnum og skepnum. Gil eru yfirfull af vatni og getur beinlínis verið lífshættulegt að lenda þar ofan í. Þar sem svo háttar til að þarf að fara yfir ár eða gil til að koma fé til byggða er ekki fýsilegt að fara í leitir.