Bjarni Hannes Ásgrímsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 21. apríl 1935. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 2. september síðastliðinn og fór útför hans fram frá Akraneskirkju 11. september.

Elskulegur vinur okkar Bjarni Hannes er fallinn frá. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 2. september sl. Ekki hefðum við trúað því að hann ætti svona skammt eftir ólifað en enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Hanni Baddi eins og hann var alltaf kallaður var einstaklega skemmtilegur maður og góður vinur vina sinna. Dansmaður var Bjarni mikill og gaman var að horfa á þau hjónin Bjarna og Auði þeytast um dansgólfið á góðri stundu. Fyrir rúmum sjö mánuðum greindist vinur okkar með þann sjúkdóm sem lagði hann að velli. Í síðasta samtali okkar, sem var kvöldið áður en hann var lagður inn á spítala, sem hann átti ekki afturkvæmt af, var ekki á honum að heyra að hann væri eins mikið veikur og síðar kom í ljós. „Það sem helst er að plaga mig er máttleysið í fótunum,“ sagði hann en þetta voru með síðustu orðunum sem fóru á milli okkar.

Kynni okkar hjóna af Bjarna og Auði hafa staðið í á annan áratug og aldrei fallið skuggi á þau kynni. Bjarni byrjaði mjög ungur að stunda sjóinn eins og flestir ungir menn sem voru aldir upp í sjávarplássum á þessum tíma. Hugur hins unga manns stefndi til mannaforráða og nam Bjarni skipstjórnarfræði og að því loknu gerðist hann stýrimaður og skipstjóri á ýmsum fiskibátum og farnaðist mjög vel í starfi, enda maðurinn sérstaklega léttur og þar af leiðandi átti hann mjög gott með að hæna að sér fólkið sem hann vann með.

Elsku vinur, þín er sárt saknað en ég gat ekki fylgt þér síðasta spölinn vegna starfa minna í öðrum landshluta.

Bjarni var einstaklega hjálpsamur maður og þess er skemmst að minnast að þegar ég veiktist alvarlega árið 2005 má segja að Bjarni hafi átt stóran þátt í að ég komst á lappirnar aftur en hann kom vestur í þeim tilgangi að hjálpa mér og telja í mig kjark. Ég átti því láni að fagna að fara í skemmtiferð með vini okkar til Færeyja sl. sumar ásamt Bjössa vini okkar og félaga og var ákveðið að ekki yrði langt í næstu ferð, enda hafði Bjarni mikið dálæti á eyjunum. Kynni okkar hjónanna hófust er dóttir okkar hún Stella fór að vera með syni þeirra honum Benna. Stella og Benni eiga tvö börn, þau Dag 10 ára og hana Auði Líf átta ára, en Bjarni átti tvö önnur barnabörn, hann Anton hennar Önnu og nafna sinn hann Bjarna Inga hennar Sólrúnar. Þetta voru allt augasteinarnir hans afa síns enda er hans sárt saknað af barnabörnum og öðrum ættingjum.

Elsku vinur, ekki ætla ég að hafa þetta miklu lengra enda væri endalaust hægt að skrifa lofsyrði um mann eins og þig. Við hjónin og fjölskylda okkar þökkum þér samfylgdina og við vitum að þér líður vel í nýjum heimkynnum.

Elsku Auður, Anna, Sólrún, Benni og fjölskyldur megi guð styrkja ykkur í sorginni.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem)

Hjalti og Guðrún (Dúnna),

Ísafirði.