Villti tarfurinn „Skondin sýn inn í menningarheim, gjörólíkan okkar...“
Villti tarfurinn „Skondin sýn inn í menningarheim, gjörólíkan okkar...“
Leikstjóri: Umesh Vinayak Kulkarni. Aðalleikarar: Atul Kulkan, Bharati Achrekar, Mohan Agashe. 120 mín. Indland 2008.

INDVERJAR framleiða kynstur af kvikmyndum, léttar dans- og söngvamyndir þeirra eru víðfrægar, kenndar við „Bollywood“, og hefur rekið á fjörur hátíðagesta í gegnum árin. Valu er hinsvegar gamanmynd um dýraeftirlitsmann sem er beðinn að koma böndum á tuddann Valu sem gert hefur óskunda í þorpinu Kusavde. Eftirlitsmaðurinn mætir á svæðið ásamt syni sínum sem er áhuga-kvikmyndagerðamaður og ætlar að festa viðureignina á filmu. Það virðist mikið fásinni ríkja í sveitaþorpinu, allt fer á annan endann þegar fréttist að til standi að taka kvikmynd í bænum. Allir vilja vera með, punta sig upp og reyna að vera gáfulegir. Tuddinn er hinsvegar hið mesta gæðablóð og ekki gott að sjá hvað það er sem hefur gert hann svona válegan í augum þorpsbúa.

Skondin sýn inn í menningarheim, gjörólíkan okkar, þar sem reynt er að leiða fram í dagsljósið einkenni indverskra sveitamanna, daglegt líf þeirra, ástir, amstur og gleðistundir. Sem gluggi til að gægjast í gegnum um stund á framandi mannlíf og siði, er Valu forvitnileg tilbreyting.

Sæbjörn Valdimarsson

Sýnd í Norræna húsinu í dag kl. 17.30 og 2.10. kl. 15 og í Iðnó á morgun kl. 13.30.