Deilur á milli stjórnenda Strætó bs annars vegar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hins vegar hafa nú verið til lykta leiddar með samkomulagi á milli aðila.

Deilur á milli stjórnenda Strætó bs annars vegar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hins vegar hafa nú verið til lykta leiddar með samkomulagi á milli aðila. Að okkar mati höfðu stjórnendur farið offari hvað varðar áminningu sem starfsfólki hafði verið veitt vegna meintra brota í starfi, brottvikningu úr starfi, auk þess sem stjórnendur höfðu neitað að virða niðurstöður Starfsmannafélagsins um hverjir skyldu gegna stöðu trúnaðarmanna.

Öll þessi mál voru komin í farveg dómstóla og vitnaleiðsla fyrirhuguð í vikunni í einu málanna. Hlutaðeigandi aðilar náðu hins vegar samkomulagi um að deilumál þessi yrðu látin niður falla að fullu. Trúnaðarmaður okkar, sem vikið hafði verið úr starfi ólöglega að okkar mati, óskaði eftir því að við beittum okkur fyrir samkomulagi til að tryggja hagsmuni hans, sem við og gerðum með ásættanlegri niðurstöðu. Það er meira en lítið misvísandi að forstjóri Strætó bs. láti hafa eftir sér, eftir gerð samkomulagsins, að það sem standi eftir sé áminning og uppsögn. Þetta er ekki rétt eins og hér hefur verið rakið.

Við óskum Strætó bs velfarnaðar og öllum þeim sem þar starfa. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og BSRB munu leggja sitt af mörkum til að efla Strætó bs í hvívetna. Nýgert samkomulag er liður í markvissu átaki til að beina samskiptum stjórnenda og annarra starfsmanna inn í uppbyggilegri farveg en hann hefur verið í um skeið.

Garðar er formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Ögmundur er formaður BSRB.