Línusending Birgit Engl reynir hér sendingu á Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur inn á línuna í leik Stjörnunnar og Vals þar sem Stjarnan fór með sigur.
Línusending Birgit Engl reynir hér sendingu á Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur inn á línuna í leik Stjörnunnar og Vals þar sem Stjarnan fór með sigur. — Morgunblaðið/Golli
STJÖRNUKONUR hafa átt fullt í fangi með að landa sigri gegn sterkum andstæðingum sínum í fyrstu tveimur leikjum sínum í N1-deild kvenna í handknattleik.

STJÖRNUKONUR hafa átt fullt í fangi með að landa sigri gegn sterkum andstæðingum sínum í fyrstu tveimur leikjum sínum í N1-deild kvenna í handknattleik. Um helgina hafði Stjarnan 22:19-sigur á Val eftir að Valur hafði haft yfirhöndina stærstan hluta leiksins. Þurfti Stjarnan því heldur betur að hafa fyrir sigrinum.

Eftir Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson

thorkell@mbl.is

Valur skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins og hélt góðu forskoti á Íslandsmeistarana allan fyrri hálfleikinn. Minnsti munurinn á liðunum fyrir hlé var eitt mark, en aðeins tvisvar sinnum. Eftir þrumandi hálfleiksræðu Ragnars Hermannssonar þjálfara Stjörnunnar yfir sínu liði og með tilkomu Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í liðið í seinni hálfleik áttu Valskonur í töluverðum erfiðleikum með að komast í gegnum góða vörn Stjörnunnar. Þær bláklæddu í Garðabænum náðu því að jafna metin þegar vel var liðið á síðari hálfleik og sigu svo fram úr síðustu mínúturnar.

„Mér fannst við gera okkur erfiðara fyrir en við þurftum í þessum leik. Vörnin sofnaði aðeins á verðinum í nokkur í skipti í fyrri hálfleik sem varð til þess að Valur skoraði oft á síðustu stundu gegn okkur í nokkrum sóknum,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir línumaður Stjörnunnar við Morgunblaðið.

„Mætti brjáluð til leiks“

„Auðvitað fannst mér súrt að fá ekkert að spila í fyrri hálfleik og það má vera að það hafi verið einhver taktík hjá Ragnari Hermannssyni þjálfara til að fá mig brjálaða til leiks í seinni hálfleik. Ég mætti því mjög ákveðinn til leiks þá og tók vel á því í vörninni. Það er mjög gaman að vera komin í Stjörnuna og ég held að það hafi verið skref í rétta átt fyrir minn feril að fara í liðið sem hefur verið einna best síðustu árin í deildinni,“ sagði Anna Úrsúla sem gekk til liðs við Stjörnuna frá Gróttu í sumar.

„Við spiluðum þennan leik mjög vel, fannst mér. Seinni hálfleikurinn hjá okkur var reyndar ekki alveg nógu góður og okkur gekk ekki vel að ráða við vörn Stjörnunnar. Við skoruðum ekki nógu mörg mörk fyrir utan og þegar það gerist verður þetta erfitt,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Vals.

Stjarnan sem af mörgum er talin hafa besta liðið í deildinni hefur þurft að hafa fyrir sigrum sínum í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni og lent undir strax í byrjun leikja. Ragnar Hermannsson þjálfari liðsins vill meina að lið sitt sé ofmetið. „Ég er með gríðarlega gott lið í höndunum, en ég held samt að fjölmiðlar og aðrir ofmeti okkur.“