Páll Harðarson
Páll Harðarson
Eftir Alfons Finnsson Ólafsvík | Byggingarfyrirtækið Nesbyggð ehf. var stofnað 2002 og hefur byggt margar íbúðir síðan í Reykjanesbæ, Grundarfirði og í Ólafsvík.

Eftir Alfons Finnsson

Ólafsvík | Byggingarfyrirtækið Nesbyggð ehf. var stofnað 2002 og hefur byggt margar íbúðir síðan í Reykjanesbæ, Grundarfirði og í Ólafsvík. Páll Harðarson, eigandi Nesbyggðar, segir að stefnan hafi verið að byggja sem svarar einni fullbúinni íbúð á viku eða 50 íbúðir á ári. Sú sé einnig raunin á þessu ári og gott betur því sjötíu íbúðir verði fullkláraðar. Lykillinn á bak við gott gengi telur Páll ekki síst gamaldags aðferðir í eignarhaldi tækja og góðan aðbúnað starfsmanna.

Auglýsing sem birtist í bæjarblaðinu Jökli í Snæfellsbæ vakti mikla athygli lesenda en þar stóð: „ Í byrjun október sýnum við fullbúnar íbúðir að Fossabrekku 21 í Ólafsvík. Í óveðrinu síðustu daga reyndi mikið á gæði hússins. Í stuttu máli stóðst byggingin álagið með sóma og hvergi komst vatn inn. Þetta er hægt að fá staðfest hjá byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar.“

Það var fyrirtækið Nesbyggð ehf. sem svo auglýsti. Páll Harðarson er eigandi fyrirtækisins. Hann var spurður út í þessa óvenjulegu auglýsingu en fyrirtækið hefur verið að leggja lokahönd á 10 íbúðir í Ólafsvík. „Það hefur verið mikið um það að nýjar íbúðir hafi lekið. Með þessari auglýsingu vildum við sýna fram á vandaðan frágang okkar. Það kom ekki dropi inn hjá okkur, sama hvar á var litið. Þak, gluggar og hurðir, þetta stóðst sunnanrokið og rigninguna með glæsibrag. Á sama tíma vissi ég um fólk sem var að drukkna með flöt, míglek þök yfir höfðinu. Því bauð ég byggingafulltrúanum í heimsókn sem hann tók vel í.“

Hafa efni á flottum bílum

Nesbyggð ehf. var stofnað árið 2002 og hefur einkum verið með starfsemi í Reykjanesbæ og á Snæfellsnesi eins og nafn fyrirtækisins ber með sér. Í Ólafsvík er Nesbyggð að leggja lokahönd á 10 íbúðir, eins og áður segir, sem eru 70 til 105 fermetrar að stærð, auk þess eru fjórir bílskúrar í húsinu. Páll Harðarson segir að byrjað hafi verið á íbúðunum fyrir einu og hálfu ári en þær hafi ekki verið settar í forgang vegna anna í Reykjanesbæ. Aðspurður hvers vegna Nesbyggð hafi ákveðið að byggja í Ólafsvík segir Páll að þar hafi ekki verið byggt lengi. „Ólsarar hafa efni á að aka um á flottum bílum og því ættu þeir að eiga kost á að fá flottar íbúðir líka,“ svarar hann kíminn og bætir við að þeir hafi byggt svipaðar íbúðir í Grundarfirði og þær séu allar seldar. „Þar voru byggðar fjórar íbúðir auk frystihótels sem ber nafnið Snæfrost og núna erum við í viðræðum við björgunarsveitina Lífsbjörg í Snæfellsbæ um byggingu á nýju húsnæði fyrir sveitina í Rifi. Við höfum ekki selt neina íbúð enn í Ólafsvík en höfum ekki auglýst heldur. Fyrst og fremst vegna þess að við leggjum áherslu á að fullklára íbúðirnar áður en þær fara í sölu. Ég er bjartsýnn á að ná að selja 50% fyrir áramót og restina fyrir næsta vor en í Reykjanesbæ eru allar íbúðirnar seldar fyrirfram.“ Hann bætir jafnframt við að Íbúðalánasjóður láni 80% af söluverðmæti íbúðar og Nesbyggð láni 10% með 6% vöxtum sem þyki hagstætt í dag. Þetta sé mögulegt þar sem fyrirtækið standi vel fjárhagslega með töluvert eigið fé og góða lausafjárstöðu.

Vandaðar íbúðir seljast

Lykilinn að velgengninni telur vera í gamaldags stefnu í rekstri fyrirtækisins. „Mikil áhersla er lögð á að eiga öll tæki en leigja þau ekki. Því eru starfsmenn Nesbyggðar sjaldséðir á tækjaleigum og við fjármögnunarleigur hefur fyrirtækið aldrei skipt. Sú stefna þykir gamaldags, en hefur skilað góðum árangri. Lögð er áhersla á góðan tækjakost og fyrsta flokks aðbúnað starfsmanna. Engir undirverktakar vinna hjá fyrirtækinu heldur eru allir starfsmenn launþegar.“ Starfsmenn fyrirtækisins hafa verið um sjötíu undanfarið ár en fækkar nú um mánaðamótin um átta. Þar sem vel gengur að selja í Reykjanesbæ er ekki útlit fyrir meiri samdrátt, a.m.k. ekki næsta hálfa árið.

Margir í byggingargeiranum finna fyrir þrengingum í augnablikinu og Páll telur að svo verði næstu tvö árin en svo birti til á ný. „Ég tel hins vegar að vandaðar íbúðir komi alltaf til með að seljast og erum við að selja vel út á ánægða kaupendur. Gott orðspor skiptir miklu máli.“

Páll segir að bygging vatnsverksmiðjunnar á Rifi hafi ekki haft áhrif á ákvörðun um að ráðast í þessar framkvæmdir í Ólafsvík. „Ég held að það hljóti að hjálpa okkur að fá þessa vatnsverksmiðju. Verksmiðjan þarf á starfsfólki á að halda og ekki er mikið framboð á leiguhúnæði í Snæfellsbæ,“ segir Páll Harðarson að lokum.

Í hnotskurn
» Nesbyggð stefndi að því að byggja eina íbúð á viku eða 50 íbúðir á ári. Þær verða hins vegar sjötíu talsins.
» Eigandi rekur gott gengi til gamaldags aðferða í eignarhaldi tækja og góðs aðbúnaðar starfsmanna.