Einleikararnir Ari Þór Vilhjálmsson og Hallfríður Ólafsdóttir.
Einleikararnir Ari Þór Vilhjálmsson og Hallfríður Ólafsdóttir. — Morgunblaðið/G. Rúnar
Sinfóníuhljómsveit Íslands lék íslenska tónlist undir stjórn Petri Sakari. Einleikarar: Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og Ari Vilhjálmsson fiðluleikari. Föstudagur 26. september.

„UNAÐSLEGUR forleikur sem endar á háu nótunum“. Þannig hljómar auglýsing sem oft er að finna í tónleikaskrám Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Og það átti að nokkru við um tónleika Sinfóníunnar á föstudagskvöldið. Forleikurinn, fyrsta verkið, var unaðslegt. En ég veit ekki hvort háu nóturnar stóðust væntingar.

Í þessu tilviki voru háu nóturnar eftir Atla Heimi Sveinsson. Þær báru heitið Ísrapp og voru lokaatriði kvöldsins. Ég man þegar ég heyrði verkið fyrst, það sló svo sannarlega í gegn. Að heyra sinfóníuhljómsveit rappa á hljóðfæri sín og syngja vitleysu – „I love you and you love me“ – ekkert var fyndnara en það! Ég man líka eftir rappi Atla í útfærslu fyrir karlakór, fluttri af Fóstbræðrum. Undir lokin tóku kórfélagar nokkur dansspor, og maður hló og hló.

Því miður hefur Ísrapp ekki elst vel. Núna er það bara gamall brandari og er ekkert fyndið lengur. Og þar sem tónlistin sjálf er ekki sérlega merkileg er verkið bara svipur hjá sjón. Það er tómahljóð í hröðu, síendurteknu hendingunum og kraftmikil stígandin í tónlistinni er tilgangslaus. Ísrapp var vissulega frábær nýjung í tónlistarflóruna á sínum tíma, en verkið á varla heima á sinfóníutónleikum í dag (kannski mun það þó slá í gegn í Japan, en þangað er Sinfónían að fara).

Forleikurinn var hinsvegar frábær. Tónleikarnir hófust á dulúðugu verki eftir Áskel Másson sem ber heitið Rún. Það einkennist af löngum hljómum, ýmist kyrrum eða á hreyfingu, dökkum eða ljósum. Ofan á hefur Áskell lagt misstóra fleka allskyns tónbrigða, hendinga og stefja sem segja ótalmargt. Litríkur leikur hljómsveitarinnar kom þessum magnaða skáldskap fullkomlega til skila.

Ég veit hinsvegar ekki með Poemi eftir Hafliða Hallgrímsson. Jú, Ari Vilhjálmsson fiðluleikari lék einleik og gerði það meistaralega. En tónlistin, sem er fyrsta verk Hafliða eftir að hann gerðist tónsmiður fyrir alvöru, líður fyrir skort á andstæðum. Það vantar dramatískt mótvægi við flestar meginhugmyndirnar sem tónsmíðin byggist á; fyrir vikið er hún leiðinlega þráhyggjukennd og þreytandi áheyrnar. Hafliði hefur samið betri verk en þetta.

Annað á tónleikunum kom ágætlega út. Þrjú óhlutræn málverk eftir Jón Leifs voru verulega skemmtileg, þótt hornablásturinn í upphafi hafi ekki verið hreinn. Og hin frjálslega tónsmíð Þorkels Sigurbjörnssonar, Kólumbína, var frábærlega flutt af einleikaranum, Hallgerði Ólafsdóttur flautuleikara, en leið örlítið fyrir ónákvæman strengjaleik.

Ennfremur var gaman að heyra hina heillandi ballettónlist Jórunnar Viðar, Eld. Hún hefði samt getað verið enn áhrifameiri undir kröftugri hljómsveitarstjórn. Petri Sakari, sem stóð við stjórnvölinn, er fagmaður fram í fingurgóma, en hann mætti stundum alveg vera líflegri. Hvar var neistaflugið í tónlistinni? Nei, það var ekki mikill hiti í þessari tónlist. Og samt er músík Jórunnar svo falleg. En hún þarf að vera túlkuð af ástríðu.

Sakari má þó eiga það að verk Áskels og myndirnar eftir Jón Leifs voru magnaðar undir stjórn hans. Og sjálf hugmyndin að tónleikunum, að flytja nokkur öndvegisverk íslenskra tónbókmennta, er frábær. Auðvitað er ekki nóg að frumflytja íslenska tónlist og láta hana svo gleymast. Við eigum sígild verk, og þau eiga skilið að heyrast miklu oftar. Svona tónleikar mættu vel vera fleiri.

Jónas Sen

Höf.: Jónas Sen