„Yee-Ha“ Allir voru samtaka og enginn dró af sér í hrópinu fyrir Ben Kinsley.
„Yee-Ha“ Allir voru samtaka og enginn dró af sér í hrópinu fyrir Ben Kinsley. — Morgunblaðið/Ólafur Bernódusson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ólafur Bernódusson Skagaströnd | Níu listamenn hafa dvalist í Nes-listamiðstöðinni nú í september. Allir eru þeir erlendir og koma frá Frakklandi, Bandaríkjunum og Rússlandi.

Eftir Ólafur Bernódusson

Skagaströnd | Níu listamenn hafa dvalist í Nes-listamiðstöðinni nú í september. Allir eru þeir erlendir og koma frá Frakklandi, Bandaríkjunum og Rússlandi. Á opnum degi sýndu listamennirnir hluta af afrakstri dvalar sinnar á Skagaströnd. Ben Kinsley frá Bandaríkjunum fékk síðan Skagstrendinga í lið með sér með því að taka þátt í margmiðlunarverkefni sem hann er að gera. Hlutverk Skagstrendinga og annarra gesta, sem komu á opinn dag listamiðstöðvarinnar, var að koma saman og hrópa í kór, eins hátt og unnt var, hið þekkta hróp „Yee-Haw“ (JÍÍ- HA). Ben tók hrópið upp á myndband sem hann mun síðan tengja við Skagaströnd á Google–Earth forritinu. Eftir að hrópið hafði verið filmað í bak og fyrir var boðið upp á upplestur í Kántrýbæ. Þar las rússneski rithöfundurinn Ivetta Gerasimchuk úr verkum sínum á ensku. Meðal annars las hún upp texta, The Liquid Island, sem birtist eftir hana í nýjasta tölublaði tímaritsins Grapewine. Sagði Ivetta og að þetta væri óður sinn til Skagastrandar og Íslands enda hefði hún skrifað þetta á Skagaströnd. Einnig las Ivetta úr verðlaunaverki sínu: „Dictionary of Winds“ og sýndi myndir á meðan hún las. Almenn ánægja er á Skagaströnd með starfsemi listamiðstöðvarinnar og eru áhrif hennar á menningarlíf staðarins ótvíræð. Þá er gaman að segja frá því að allir þeir listamenn sem dvalið hafa í listamiðstöðinni eru ánægðir með dvölina og margir þeirra hyggjast koma aftur í náinni framtíð.