BJÖRGVIN Magnússon, fyrrverandi skólastjóri heimavistarskólans á Jaðri við Heiðmörk, fagnar stórafmæli í dag er hann verður 85 ára.

BJÖRGVIN Magnússon, fyrrverandi skólastjóri heimavistarskólans á Jaðri við Heiðmörk, fagnar stórafmæli í dag er hann verður 85 ára. Í samtali við Morgunblaðið segist hann lítið gera með það afmæli og tekur fram að sér finnist í raun miklu meira um vert að í ár fagni hann 70 ára skátaafmæli. „Það er svo gott að vera innan um unga fólkið Það er bæði gefandi og skemmtilegt og á örugglega stóran þátt í því að halda mér svona unglegum,“ segir Björgvin, sem sjálfur hóf skátastarfið þegar hann var aðeins fjórtán ára.

Björgvin var um áratugaskeið staðarhaldari, skjólastjóri og stjórnandi margra foringjanámskeiða að Úlfljótsvatni. Hann var lengi vel einn helsti forsvarsmaður Gilwell-þjálfunar á Íslandi sem er alþjóðlegt þjálfarakerfi sem Baden Powell stofnaði til strax á upphafsárum skátahreyfingarinnar á síðustu öld.

Spurður um eftirminnileg afmæli nefnir Björgvin strax ferðalag til Spánar þegar hann fagnaði 50 ára afmælinu. „Hins vegar finnst mér aðalafmælið hafa verið þegar ég varð áttræður, því þá kom allt fólkið mitt heim til mín og hélt upp á daginn með mér.“

Spurður hvað hann ætli að gera á sjálfan afmælisdaginn segist Björgvin ekki hafa áformað neitt sérstakt í dag, en tekur jafnharðan fram að í raun hafi hann tekið smá forskot á sæluna því í gær héldu skátar Björgvini kaffisamsæti á Úlfljótsvatni. silja@mbl.is