Verðlaunahafinn Johannessen.
Verðlaunahafinn Johannessen. — Morgunblaðið/Valdís Thor
NORSKI danshöfundurinn Ina Christel Johannessen hlaut á fimmtudaginn norsku gagnrýnendaverðlaunin fyrir verk sitt Ambra . Ina samdi verkið fyrir Íslenska dansflokkinn og Carte Blanche í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík og Listahátíðina í Bergen.

NORSKI danshöfundurinn Ina Christel Johannessen hlaut á fimmtudaginn norsku gagnrýnendaverðlaunin fyrir verk sitt Ambra . Ina samdi verkið fyrir Íslenska dansflokkinn og Carte Blanche í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík og Listahátíðina í Bergen.

Ambra er eitt stærsta verkefni sem Íslenski dansflokkurinn hefur ráðist í, en í því sameinuðust tveir helstu nútímadansflokkar Norðurlanda. Verkið var frumsýnt á Listahátíð í Reykjavík í maí, sýnt á Listahátíðinni í Bergen í júní og svo nú síðast í september í Bærum Kulturhus í Ósló. Johannessen fékk til liðs við sig þær Kiru Kiru og Hildi Ingveldardóttur Guðnadóttur sem sömdu tónlistina fyrir verkið ásamt þýskum samverkamanni sínum, Dirk Desselhaus.

Eftirfarandi kemur fram um verkið á vefsíðu norsku gagnrýnendaverðlaunanna:

„Það sem gerir þetta verk einstakt er stærðin á því. Formbundnar en á sama tíma tilfinningaríkar hreyfingar dansaranna skapa sinfónískt verk sem mun lifa lengi. Með því að ljá Inu Christel Johannessen tuttugu dansara var henni gefið einstakt tækifæri til að skapa stórsýningu. Að sjá sýninguna aftur fyrir aðeins nokkrum dögum í Bærum Kulturhus staðfesti þá trú okkar að Ambra er tímamótaverk fyrir dans-, tónlistar- og sjónræna sköpun.“

„Ina og samstarfsfólk hennar sem og dansarar flokkanna beggja eru vel að þessum verðlaunum komin og erum við stolt af þessu vel heppnaða norræna samstarfi,“ segir Katrín Hall, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins.