Fjölskyldukona Palin ásamt yngsta syni sínum, tveimur dætrum og kærasta elstu dótturinnar, en unga parið er á tvítugsaldri og á von á barni.
Fjölskyldukona Palin ásamt yngsta syni sínum, tveimur dætrum og kærasta elstu dótturinnar, en unga parið er á tvítugsaldri og á von á barni. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is Jay, ég er femínisti, en ég verð því miður að segja, að þessi kona er biluð. Hún er í senn snarklikkuð og ógnvekjandi.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

elva@mbl.is

Jay, ég er femínisti, en ég verð því miður að segja, að þessi kona er biluð. Hún er í senn snarklikkuð og ógnvekjandi.“ Svona svaraði bandaríski grínistinn Wanda Sykes þáttastjórnandanum Jay Leno í vikunni, þegar Leno spurði hana kankvíslega hvort hún væri ekki ánægð með varaforsetaefni repúblikana, Söruh Palin, sem nú á möguleika á að verða fyrsti kvenvaraforseti Bandaríkjanna.

Eftir að tilkynnt var um útnefningu Palin sem varaforsetaefnis repúblikana hefur mikið verið rætt í bandarískum fjölmiðlum um hvernig hún falli í kramið hjá kvenkyns kjósendum. Í gegnum tíðina hafa varaforsetaefni venjulega ekki gegnt lykilhlutverki þegar Bandaríkjamenn gera upp hug sinn í kjörklefanum. Barátta Hillary Clinton fyrir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins hleypti hins vegar eldmóði í konur og vakti vonir. Það sveið sárt undan tapi Clintons gegn Barack Obama. Því má spyrja hvort konur finni huggun í því að greiða Palin og Repúblikanaflokknum atkvæði sitt í nóvember? Ef marka má fyrrnefnda Sykes, virðist það ekki líklegt. Í spjalli sínu við Jay Leno minnti hún á stuðning Palin við byssueign og þá staðreynd að Palin væri lítt sigld, hún hefði ekki sótt um vegabréf fyrr en í fyrra. Palin er jafnframt andsnúin fóstureyðingum og hefur horn í síðu kynfræðslu, svo dæmi séu tekin.

Aftur til 19. aldar?

Það er ekki furða að margar bandarískar konar eigi í ákveðinni innri baráttu þessa dagana. Þær vilja konu í Hvíta húsið en hins vegar eru viðhorf Söruh Palin í algerri andstöðu við framsæknar hugmyndir ýmissa femínista.

Fyrr í vikunni velti rithöfundurinn Marianne Schnall þessum staðreyndum fyrir sér á vefnum Huffington Post. Hún spurði valinkunnar konur um afstöðu þeirra til Palin. Meðal þeirra sem svöruðu voru rithöfundarnir Isabel Allende og Eve Ensler. „Sarah Palin stendur ekki vörð um hagsmuni nútímakvenna. Viljum við snúa aftur til 19. aldarinnar? Eða jafnvel miðalda? Ég vona að engin hugsandi kona, hvorki gömul né ung, falli í kynjagildruna. Það kann að vera að Palin sé kona, en hún hegðar sér svo sannarlega eins og Rambó og hugsar eins og Cheney,“ sagði Allende m.a.

Ensler sagði í svari til Schnall að sér líkaði ekki að skammast út í konur. „Ég er femínisti og hef allt mitt líf unnið að því að byggja upp samfélag kvenna, efla konur og koma í veg fyrir ofbeldi gegn þeim,“ segir Ensler. Hún segir að þeir sem hafi ákveðið að tefla Palin fram virðist hafa treyst á góðvilja og samstöðu femínista. „Þau viðhorf sem Sarah Palin aðhyllist og sú stefna sem hún fylgir virðist mér hins vegar vera í algjörri andstöðu við femínisma.“

Það er ólíklegt að frjálslyndar konur vestanhafs flykkist að kjörborðinu í nóvember til þess að greiða Söruh Palin atkvæði sitt. Þó er hugsanlegt að framboð Palin höfði til ýmissa annarra kvenna í Bandaríkjunum. Palin er ung kona og móðir. Sú ímynd forseta- og varaforsetaframbjóðanda er óneitanlega ný í bandarískum stjórnmálum. Þá er Palin „smábæjarkona“. Í slíkum byggðarlögum nýtur hún vinsælda. Á dögunum hafði AP-fréttastofan það eftir Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta, að hann skildi vinsældir hennar á þessum slóðum. „Ég er sjálfur frá Arkansas. Ég næ því alveg hvers vegna hún er svona vinsæl í þessum bæjum,“ sagði Clinton.

Ferraro og Palin

Sarah Palin er ekki fyrsta konan sem er útnefnd varaforsetaefni annars stóru flokkanna í Bandaríkjunum. Það hefur áður gerst, árið 1984, en þá var lögmaðurinn Geraldine Ferraro varaforsetaefni Walters Mondale. Þau biðu lægri hlut fyrir Ronald Reagan og George H.W. Bush.

Í samtali sem Ferraro átti við breska blaðið Times fyrr í þessum mánuði, sakaði hún fjölmiðla um að ráðast að Palin vegna kynferðis hennar.

Ferraro sagði umfjöllun um Palin minna á þá meðferð sem hún hefði á sínum tíma fengið. „Fólk vissi ekki hvernig það átti að bregðast við framboði mínu, sú leið var farin að horfa til bakgrunns míns ... menn eltust við eiginmann minn og fjölskyldu.“

Ferraro sagðist telja að væri Palin karlmaður hefði enginn spurt hana spurninga um nýfætt barn hennar eða hvernig hún hygðist takast á við þá staðreynd að unglingsdóttir hennar er barnshafandi.