Guðrún Jóna Jónsdóttir fæddist á Öndverðarnesi 13. febrúar 1925. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða 5. september síðastliðinn og var jarðsungin frá Akraneskirkju 15. september.

Elsku besta amma mín.

Þú hefur nú kvatt þennan jarðneska heim og fengið hvíldina þína sem þú áttir svo fyllilega skilið. Þín er sárt saknað um leið og ég fyllist gleði yfir því að nú sértu loksins komin á staðinn þar sem þú átt að geta fundið eiginmann þinn á ný. Það er rosalega erfitt að lýsa þér með orðum, orð sem eiga við þig og eru nógu sterk yfir þig eru einfaldlega ekki til. Þú varst kjarnakona í orðsins fyllstu merkingu, kona sem barðist í gegnum gríðarlega erfitt líf og þú barst ávallt höfuðið hátt þrátt fyrir alla erfiðleikana. Þú tókst mig upp á arma þína er ég var lítill drengur og ólst mig upp ásamt móður minni, betra uppeldi getur enginn maður hugsað sér.

Á Skarðsbrautinni var sko margt brallað og mér er einstaklega minnisstætt hvað „Brummi“ átti stóran þátt í lífi okkar. Lítill gulur bíll sem ég sat á og ýtti mér áfram, ekki verulega flókið leiktæki en það svínvirkaði. Þú skapaðir heilan heim fyrir mig með hugmyndum þínum, símastóllinn var bensínstöðin, eldhúsið var sjoppan og svo mætti lengi telja. Tímunum saman brunaði ég um íbúðina og alltaf tókst þú uppátækjum mínum með stóískri ró. Þú og þínar snilldarhugmyndir sköpuðu margar fallegar stundir hjá okkur.

Þegar ég hugsa til baka minnist ég þess einnig að eina dimma vetrarstund leiddist mér alveg óhóflega. Ég leitaði að sjálfsögðu til þín með það í huga að þú myndir finna verðugt verkefni fyrir mig; það hafðirðu svo sannarlega. Þú stakkst upp á því að ég myndi mála hvíta Lamborghini-bílinn sem ég átti. Bleikt naglalakk sem var að verða ónýtt var notuð sem málning og þarna sat ég við hliðina á þér við kringlótta sófaborðið í heilar tvær vikur upp á hvert einasta kveld og málaði eins og enginn væri morgundagurinn. Það heyrðist ekki múkk í mér í heilar tvær vikur, þvílík snilldarhugmynd hjá þér!

Þú varst gríðarlega hörð í horn að taka og ég man þegar ég átti við vörtuvandamál á hendinni að stríða. Það var búið að prófa ýmislegt, frystingar og alls kyns smyrsli en ekkert virkaði. Á endanum gafst þú upp, settist niður með mér og gafst mér tvo úrslitakosti. Annaðhvort myndir þú klippa móðurvörtuna af með skærum eða ég myndi bíta hana af. Ég finn enn fyrir hræðslunni við að bíta í vörtuna, en ég vildi það frekar en að láta klippa hana af. Ég gerði sem lagt var fyrir mig og beit vörtuna af og enn þann dag í dag er ég algerlega laus við vörtur.

Það sem ég á þér að þakka er endalaust og ég kem aldrei til með að geta borgað þér það til baka að fullu. Eitt skaltu samt muna elsku besta amma mín, ég elska þig af öllu hjarta. Ég veit að þú finnur það þarna uppi og ég veit einnig að þú munt passa mig það sem eftir lifir ævi minni. Með það í huga er ég algerlega óhræddur við að takast á við lífið, þú verður mér ávallt í hjarta og kemur alltaf til með að vaka yfir mér. Ég treysti á það.

Ragnar Mar Sigrúnarson.