Þegar illa gengur og snögg áföll ríða yfir reynir Víkverji oft að finna sökudólga. Hann sér enga ástæðu til að tileinka sér sanngirni þegar þannig stendur á.

Þegar illa gengur og snögg áföll ríða yfir reynir Víkverji oft að finna sökudólga. Hann sér enga ástæðu til að tileinka sér sanngirni þegar þannig stendur á.

Þess vegna nýtur hann þess í botn þegar ráðist er harkalega á Seðlabankann fyrir að grípa ekki til réttra ráðstafana. Þessir menn eiga skilyrðislaust að stöðva strax fall krónunnar sem virðist ætla að gera meirihluta okkar að öreigum. Víkverji skilur ekki þessa menn. Þeir fá endalaust ráð um það hvað beri að gera en virðast ekki hlusta og eru á góðu kaupi við þetta sinnuleysi.

Að vísu ber ráðgjöfunum, klárum hagfræðingum úti í bæ og úti í heimi, alls ekki saman, frekar en sérfræðingum yfirleitt. Stundum eru þeir gersamlega á öndverðum meiði. Einn vill fara í vestur, annar í austur, sá þriðji vill ekki fara nokkurn skapaðan hlut.

En það er ekki Víkverja að kenna að lífið er flókið. Hann veit hins vegar að það skortir illa fagmenn í Seðlabankann, ekki bara einhverja fagmenn heldur fagmenn með rétta skoðun. Þó ekki skoðun Víkverja sem breytist dag frá degi eins og lesendur vita; Víkverji er vindhani. En þar sem fagmenn ráða, t.d. í Seðlabanka Bandaríkjanna, er allt í góðu gengi. Það sjá allir.

Annars er Víkverji í alvöru á því að best sé núna að temja sér nokkurt kæruleysi. Ef hann á ekki lengur fyrir afborgunum af skuldum við bankann er það auðvitað slæmt. En gjaldþrot er ekki heimsendir. Nú er mjög í tísku að segja fólki að taka til í fjármálunum, minnka útgjöldin og greiða niður skuldir. Þetta er allt gott og blessað en hæfilegt kæruleysi er líka ómissandi.

Auðvitað verður að tryggja að allir fái nóg að borða og húsaskjól á Íslandi. En við hljótum mörg að geta hert sultarólina þegar kemur að ýmsu sem einhvern tíma hefði verið kallað ótrúlegur munaður.