Opnun Efnt var til mikillar veislu þegar nýja átöppunarverksmiðjan var opnuð í Ölfusi.
Opnun Efnt var til mikillar veislu þegar nýja átöppunarverksmiðjan var opnuð í Ölfusi. — Morgunblaðið/Jón H. Sigmundsson
Eftir Jón H. Sigurmundsson Þorlákshöfn | Icelandic Water Holdings ehf. sem síðastliðin þrjú ár hefur starfrækt átöppunarverksmiðju fyrir Iceland Glacial-vatnið í Þorlákshöfn, gangsetti á föstudag nýja verksmiðju í landi Hlíðarenda í Ölfusi.

Eftir Jón H. Sigurmundsson

Þorlákshöfn | Icelandic Water Holdings ehf. sem síðastliðin þrjú ár hefur starfrækt átöppunarverksmiðju fyrir Iceland Glacial-vatnið í Þorlákshöfn, gangsetti á föstudag nýja verksmiðju í landi Hlíðarenda í Ölfusi. Verksmiðjan sem er 6.700 fermetrar að stærð mun í fyrri áfanga anna átöppun um 100 milljóna lítra á ári.

Icelandic Glacial-vatnið hefur fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir gæði sín og hreinleika. Jafnframt hafa umbúðir vatnsins vakið mikla athygli og hlotið ýmis verðlaun fyrir bæði útlit og gæði.

Mikið fjölmenni

Jón Ólafsson framkvæmdastjóri og aðaleigandi ávarpaði fjölmarga gesti sem sumir hverjir voru langt að komnir, svo sem starfsmenn og samstarfsaðilar í Bandaríkjunum, Anheuser Busch, erlendir jafnt sem innlendir blaðamenn, ráðherrar og þingmenn. Jón kom víða við í ræðu sinni sem hann flutti á ensku. Hann sagði að á þeim fjórum árum sem verkefnið hefði staðið væri búið að eyða um 5 milljörðum íslenskra króna í þróunarstarf, markaðskynningu og aðra uppbyggingu og gera mætti ráð fyrir að áfram yrði að festa fé í starfseminni áður en hún færi að skila hagnaði. Hann sagði einnig: „Talið er að um 200 ný vörumerki af átöppuðu vatni líti dagsins ljós í heiminum á ári hverju. Af þeim er talið að aðeins fjögur nái að lifa meira en eitt ár og ennþá færri en tvö ár. Íslendingar hafa vissulega fengið sinn skerf af mótvindi í vatnsútflutningi og það er rétt að hafa í huga að þótt góður árangur hafi náðst í markaðsfærslu Icelandic Glacial til þessa er langur vegur frá því að sigur sé í höfn.“

Einstakt vatnsból

„Við höfum aðgang að einstöku vatnsbóli. Átöppunarferlið og um leið gæði vatnsins eru eins og best verður á kosið, eins og fjölmargar viðurkenningar og rannsóknir bera glöggt vitni um. Umbúðirnar eru margverðlaunaðar og vekja hvarvetna athygli. Viðtökur markaðarins í þeim löndum sem vatnið hefur verið selt til hafa verið ákaflega góðar. Síðast en ekki síst höfum við fengið langstærsta dreifingaraðila á bandarískum drykkjavörumarkaði, Anheuser Busch, til liðs við okkur, bæði sem dreifingaraðila og 20% hluthafa í félaginu,“ sagði Jón.

Flutt til þurfandi

Jón sagði frá því að stjórn Icelandic Water Holdings hefði ákveðið að stofna The Icelandic Glacial Water For Life Foundation. Sjóðnum er ætlað að beita sér fyrir víðtæku samstarfi um flutning vatns til þurfandi fólks í heiminum, til dæmis í kjölfar þurrka, náttúruhamfara eða vatnsskorts vegna til dæmis skemmdarverka, styrjalda eða annarra mannanna verka. Grunnurinn að þessari hugmynd er að víða um heim eru gömul risastór olíuskip sem eru það sem kallað er einbotna og því ekki lengur heimilt að flytja olíu eða önnur mengandi efni um heimsins höfn en mega flytja vatn.

Ráðherra aðstoðaði

Iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson, aðstoðaði stofnendur Icelandic Glacial, Jón Ólafsson og Kristján Ólafsson, við að gangsetja framleiðslulínu verksmiðjunnar. Össur sagði í ræðu sem hann flutti að hann væri stoltur af því að vera iðnaðarráðherra og fá að taka þátt í þessu verkefni, einnig sem fyrrverandi umhverfisráðherra og sem umhverfissinni. Hann flutti hamingjuóskir frá ríkisstjórn Íslands.

Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri sagði að í hvert sinn sem hann klifi hæstu tinda jarðar eins og í Afríku, Evrópu og innan tíðar Suðurameríku, tæki hann með sér flösku af Ölfusvatni og nú fyndist honum að hann stæði á einum sínum hæsta tindi sem bæjarstjóri.

Í hnotskurn
» Verksmiðjan er búin sérstöku orkustjórnunarkerfi til að halda áhrifum á náttúru og umhverfi í lágmarki.
» Vatnsból verksmiðjunnar sem er beint undir henni myndaðist í miklum eldsumbrotum fyrir um 4500 árum. Hraunveggir umlykja vatnið á þrjá vegu en til suðurs streymir það óbeislað til sjávar í magni sem myndi anna tvöfaldri heimsneyslu vatns á flöskum, sem um þessar mundir er 200 milljarðar lítra á ári.
» Full afköst verksmiðjunnar verða um 200 milljónir lítra á ári eða einn þúsundasti af heimsframleiðslunni.