Hörður Már Magnússon
Hörður Már Magnússon
TVEGGJA ára veru HK í úrvalsdeild lauk með 2:1-sigri á hinu Kópavogsliðinu, Breiðabliki, í lokaumferðinni á laugardag. HK-ingar mættu grimmir til leiks og komust í 2:0 eftir 16 mínútna leik, með mörkum frá Herði Má Magnússyni og Aaroni Palomares.

TVEGGJA ára veru HK í úrvalsdeild lauk með 2:1-sigri á hinu Kópavogsliðinu, Breiðabliki, í lokaumferðinni á laugardag. HK-ingar mættu grimmir til leiks og komust í 2:0 eftir 16 mínútna leik, með mörkum frá Herði Má Magnússyni og Aaroni Palomares. Var þetta síðasti leikur Harðar Más fyrir HK, því hann leggur nú skóna á hilluna eftir 21 ár í meistaraflokki.

Eftir Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson

thorkell@mbl.is

Þessari sparktíð lauk með vonbrigðum hjá báðum Kópavogsliðunum. HK féll úr efstu deild og Breiðablik hafnaði í 8. sæti, en ætlaði sér alltaf að vera meðal þriggja efstu liðanna í deildinni. Það er þó bót í máli fyrir HK að vinna sigur á erkifjendum sínum, Breiðabliki, í lokaleiknum og Herði Má Magnússyni leiddist heldur ekki að enda sinn knattspyrnuferil á sigri og það á Blikum þar sem hann skoraði.

Það var gefið mál að þetta yrði lokaleikur Harðar Más en hinn 36 ára gamli fyrirliði Breiðabliks, Arnar Grétarsson, gat ekki svarað því hvort hann hefði leikið sinn síðasta leik. „Það er alveg líklegt að ég verði með á næstu leiktíð. Líkaminn er í furðu góðu standi og mig langar að halda áfram. Ég vil samt ekki vera með neinar yfirlýsingar núna sem ég gæti þurft að éta ofan í mig,“ sagði Arnar við Morgunblaðið.

Sem fyrr segir mættu liðsmenn HK dýrvitlausir í leikinn og gáfu ekki tommu eftir í byrjun fyrri hálfleiks. Þegar leið á hálfleikinn tókst Blikum þó að komast betur inn í leikinn og náði smám saman betri tökum á honum. Sóknarmenn liðsins voru sífellt ógnandi en náðu ekki að gera nóg til þess að skora fyrr en á 85. mínútu leiksins þegar Marel Baldvinsson lagaði stöðuna í 2:1.

„Á mikið í þessu liði“

„Það er fúlt að enda tímabilið á ósigrum. Þú ert alltaf dæmdur af síðasta leiknum sem þú spilar. Við vorum sofandi í byrjun leiks og það fór með þetta hjá okkur að þessu sinni,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. „Ég á mikið í þessu liði og hef notið þess að vera í Kópavoginum í tvö og hálft ár. Ég vil þó engu svara hvort ég haldi áfram með liðið. Núna sest ég niður með stjórninni og við förum yfir málin.“

Rúnar Páll Sigmundsson sagðist ekki viss hvort hann héldi áfram með HK. „Ég tók við liðinu um mitt tímabil og ætlaði mér að halda því uppi. Það mistókst. Það var samt margt gott í þessu hjá okkur í sumar og framtíðin er björt. Ég hef mikinn áhuga á að starfa hérna áfram, en veit ekkert hvernig það verður.“

HK 2 Breiðablik 1

Kópavogsvöllur, úrvalsdeild karla, Landsbankadeildin, laugardag 27. sept. 2008.

Mörk HK : Hörður Már Magnússon 5., Aaron Palomares 17.

Mörk Breiðabliks : Marel Baldvinsson 85.

Markskot

: HK 10 (5) – Breiðablik 15 (10).

Horn : HK 1 – Breiðablik 10.

Rangstöður : HK 2 – Breiðablik 2.

Skilyrði : Milt veður en völlurinn illa farinn, eitt moldarsvað að stórum hluta.

Lið HK : (4-4-2) Gunnleifur Gunnleifsson – Finnbogi Llorens, Ásgrímur Albertsson, Damir Muminovic, Hörður Árnason – Stefán Eggertsson (Iddi Alkhag 65.), Finnur Ólafsson (Almir Cosic 51.), Rúnar Már Sigurjónsson, Aaron Palomares – Hörður Magnússon, Hörður Már Magnússon (Hafsteinn Briem 63.).

Gul spjöld : Hörður Már 35. (brot),.

Lið Breiðabliks : (4-4-2) Vignir Jóhannesson – Arnór S. Aðalsteinsson, Guðmann Þórisson, Finnur Orri Margeirsson, Kristinn Jónsson (Steinþór Þorsteinsson 46.) – Nenad Zivanovic (Magnús Páll Gunnarsson 72.), Arnar Grétarsson, Guðmundur Kristjánsson, Jóhann Berg Guðmundsson – Marel Baldvinsson, Alfreð Finnbogason (Kristinn Steindórsson 46.).

Gul spjöld : Guðmann 2. (brot), Jóhann Berg 37. (brot), Kristinn S. 87. (brot).

Rauð spjöld : Guðmundur Kristjánsson 83. (óíþróttamannsleg hegðun).

Dómari : Eyjólfur M. Kristinsson, FH, 5.

Aðstoðardómarar : Jóhann Gunnarsson og Einar K. Guðmundsson.

Áhorfendur : Um 1.000.

1:0 5. Stefán Eggertsson átti sendingu frá hægri inn á vítateig Breiðabliks. Þar tók Hörður Már Magnússon við boltanum vinstra megin í teignum og renndi honum í hornið fjær.

2:0 17. Rúnar Már Sigurjónsson lék að vítateig Blika og sendi á Hörð Má, hann ýtti boltanum áfram á Aaron Palomares sem átti fast skot í vinstra markhornið af stuttu færi inni í teignum.

2:1 85. Boltinn barst til Marels Baldvinssonar inni á markteig HK og hann náði að pota honum inn af miklu harðfylgi með varnarmenn í bakinu.

HK

M

Gunnleifur Gunnleifsson

Finnur Ólafsson

Stefán Jóhann Eggertsson

Hörður Már Magnússon

Aaron Palomares

Rúnar Már Sigurjónsson

Breiðablik

M

Jóhann Berg Guðmundsson

Marel Jóhann Baldvinsson

Nenad Zivanovic