Kristjana Þorsteinsdóttir fæddist í Meiri-Hattadal 8. apríl 1912. Hún andaðist á heimili sínu, Hrafnistu í Hafnarfirði, föstudaginn 19. september. Kristjana var dóttir hjónanna Þorsteins Mikaels Ásgeirssonar frá Tröð í Álftafirði, f. 1877, d. 1951 og Rebekku Bjarnadóttur frá Nesi í Grunnavík, f. 1885, d. 1981. Kristjana átti 11 systkini, þau voru: Bjarney, f. 1907, d. 1907, Ásgeir Ragnar, f. 1908, d. 1998, Pálína Salóme, f. 1909, d. 1993, Guðrún, f. 1913, d. 2008, óskírð, f. 1914, d. 1914, Lárus Sigurvin, f. 1916, d. 1978, Bjarni, f. 1918, d. 2006, Guðjón Kristinn, f. 1921, Þórir Sveinn, f. 1923, Höskuldur Andrés, f. 1925, d. 1966 og Sigurður, f. 1929, d. 2008.

Í bernsku ólst Kristjana upp á Ísafirði og bjó þar ásamt foreldrum sínum og systkinum. Hún hafði almenna grunnmenntun en lauk síðar námi frá Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Fjölskylda Kristjönu fluttist til Hafnarfjarðar árið 1931.

Kristjana kynntist Ólafi Sigurðsyni, sjómanni og síðar verkstjóra, f. 3. febrúar 1914, d. 19. janúar 1989. Hann var sonur Sigríðar Bjarnadóttur, en tekinn í fóstur til Þorgerðar og Eyjólfs að Hausastöðum í Garðahverfi þriggja vikna gamall. Kristjana og Ólafur ganga í hjónaband 6. október 1934 og bjuggu þau fyrstu hjúskaparár sín með stórfjölskyldu Kristjönu í Hafnarfirðinum. Nokkrum árum síðar fluttust þau til Reykjavíkur og bjó stórfjölskyldan saman á Njarðargötu 29. Kristjana og Ólafur eignuðust fjögur börn, þau er: 1) Gerður Ólafía, f. 7. júlí 1934, gift Ragnari Bjarnasyni, f. 22. september 1934, þau skildu. Börn hennar eru a) Bjarni Ómar Ragnarsson, f. 1954, kvæntur Rögnu Kristínu Marinósdóttur, f. 1955. Börn þeirra eru Ragnar, Sævar (látinn) og Hrönn. b) Kristjana Ragnarsdóttir, f. 1955 gift Erni Inga Ingvarssyni, f. 1957. Börn þeirra eru Þorgerður Anna, Ingvar, Kolbrún, Hjördís og Örn. Þau eiga sex barnabörn. c) Höskuldur Sverrir Friðriksson, f. 1965. Dóttir hans er Alexandra Ósk. 2) Rebekka, f. 7. október 1937, d. 31. janúar 2004, gift Árna Gunnarsyni, þau skildu. Seinni eiginmaður er Valdimar W. Sveinsson, f. 19. október 1941. Börn hennar eru a) Gunnar Þór Árnason, f. 1955. Dætur hans eru Harpa Mjöll og Olga Jenný. Hann á fjögur barnabörn. b) Elín Birna Árnadóttir, f. 1956, gift Ómari Valgeirssyni, f. 1957. Börn þeirra eru Valgeir Árni og Aníta. Þau eiga tvö barnabörn. c) Ólafur Logi Árnason, f. 1959. Börn hans eru Rebekka, Björn Sævar, Rakel, Einar Andri, Arnar Logi og Máni Snær. Hann á þrjú barnabörn. d) Hildur Lind Árnadóttir, f. 1960 gift Eiði Erni Árnasyni. Synir þeirra eru Einir Logi, Valdimar Ernir, Hjörvar Freyr, Máni Fannar og Bjarmi Steinn. e) Arnoddur Magnús Danks, f. 1970. Sonur hans er Onni Aulis Mikael. f) Svanhildur S. Valdimarsdóttir, f. 1972 í sambúð með Dagbjarti Ingvari Árelíussyni, f. 1980. Börn þeirra eru Kristjana Björg, Árelíus Valdimar, Arnoddur William og Magnús Dreki. 3) Björn Sævar, f. 24. desember 1939, d. 22. janúar 1967. 4) Sigríður, f. 18. mars 1946, gift Bjarna Þ. Bjarnasyni, f. 7. október 1942. Börn þeirra eru: a) Sigurður, f. 1965, kvæntur Ágústu Árnadóttur, f. 1971. Börn hans eru Tinna, Daði Hrafn, Auðunn, Bjarni Maron, Ólafur Valur og Sigurður Fannar. b) Gísli Jón, f. 1972, í sambúð með Birnu Kjartansdóttur, f. 1972. Börn hans eru Gísli Jón (látinn), Áslaug Margrét og Guðmundur Skarphéðinn. c) Margrét Ína, f. 1975 í sambúð með Martin Baden, f. 1970. Börn þeirra eru Michael Thor og Freyja Björk. d) Kristjana Ruth, f. 1979, í sambúð með Þorgils Þorgilssyni, f. 1980. Synir þeirra eru Þorgils og Birnir Valur. e) Birna Sif, f. 1981, í sambúð með Bjarka Þórarinssyni, f. 1983.

Kristjana og Ólafur fluttust með fjölskyldu sína, ásamt móður og bróður Kristjönu að Laugarteig 26 árið 1946. Þar var griðastaður stórfjölskyldunnar. Kristjana gekk í Kvenfélag Laugarneskirkju og var þar virkur þátttakandi ásamt því að sitja í stjórn félagsins um tíma. Hún vann lengst af sem forstöðukona þvottahúss og saumastofu Hrafnistu í Reykjvík eða í 27 ár, þar til hún var 72 ára gömul. Þegar Rebekka, móðir Kristjönu, fór á Hrafnistu í Reykjavík, fluttust Kristjana og Ólafur ásamt yngstu dóttur þeirra að Brúnavegi 12. Bjuggu þau hjónin þar í 20 ár og átti stórfjölskyldan þar góðan samastað. Árið 1986 fluttust þau á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Kristjönu fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Hið göfugasta' í lífi okkar er,

ást, er móðir ber til sinna barna.

Hún fórnar, gefur helft af sjálfri sér

og sækir styrk til lífsins dýpstu kjarna.

Hún veitir ljós, sem ljómi bjartra stjarna.

Hún veitir ljós og leysir hverja þraut,

hún lífið unga styður fyrstu sporin,

er fræðari á framvindunnar braut

og fyrirmynd, sem yljar best á vorin

hinn unga stofn, sem er til þroska borinn.

Er stofninn ungi erfir hennar sið,

ást og virðing geymir sér í hjarta,

við munum eiga gnótt af yndi' og frið

að efla' og styðja gleði lífsins bjarta.

Þá hefði enginn yfir neinu' að kvarta.

Ef móðurástin mótaði' okkar spor

og mildi hennar gjörðum okkar réði,

þá yrði lífið eins og fagurt vor,

sem okkur færði hamingju og gleði.

Þá lifðum við sem blóm í fögru beði.

Þá kærleikur og tryggðin tækju völd

og trú á lífið veitti sanna gleði.

Þá ríkti fegurð lífsins fram á kvöld,

því fagurt mannlíf stýrði voru geði,

að forsjá hans, er fyrst oss hingað réði.

Já, – móðurást – er yndi sérhvers manns

og allra besta stoð á vegi hálum,

hinn dýrmætasti kjarni kærleikans,

sem kallar fram hið besta' í vorum sálum.

Hún ætti að ráða' í öllum okkar málum.

(Ágúst Böðvarsson)

Elsku mamma mín, guð geymi þig og varðveiti.

Takk fyrir allt, þín

Gerður.

Á kveðjustund sem þessari fer hugurinn að reika þegar við systkinin setjumst niður og horfum til baka. Amma Kriss eins og við kölluðum hana þegar við höfðum náð r-inu (annars amma Kiss) var amman með stóru A-i. Amma Kriss hefði eflaust getað verið ömmufyrirmynd í góðri sögu, því hún bjó yfir þvílíkri þolinmæði gagnvart okkur, æðruleysi og umhyggju.

Þegar amma og afi bjuggu á Brúnó (Brúnaveginum) fengum við krakkarnir að leika okkur í öllum krókum og kimum. Ekkert var heilagt ef gengið var um hlutina af virðingu. Það var svo í boði að handfjatla og máta alla skartgripina í skríninu, máta skó og kjóla eða bara bardúsa í kjallaranum, í feluleik, búðaleik, hollinskollinn. Amma var mikill fagurkeri og átti marga muni sem glöddu barnsaugu. Steinasafnið var mikill fjársjóður og efniviður skemmtilegra leikja og hafði amma safnað þeim víðsvegar að. Amma var líka mikil listakona, málaði, saumaði og skapaði heil ósköp af fallegum munum sem hún færði okkur og skipa í dag ákveðinn sess á okkar heimilum. Og þrátt fyrir háan aldur gátu stelpurnar fengið lánuð betri föt til að fara á dansleiki ef svo bar undir. Enda var amma Kriss alltaf vel til höfð og fallega til fara. Henni þótti mikilvægt að við værum hrein og snyrtileg, enda féllu rifnu gallabuxurnar henni ekki í geð.

Amma var ávallt höfðingi heim að sækja, þegar við komum í heimsókn var allt til; reiðinnar ósköp af góðgæti, m.a. pönnukökur og konfekt. Maður var varla kominn inn um dyrnar þegar búið var að draga fram baukinn góða. Amma hélt áfram að baka pönnukökur eftir að hún og afi fluttu t.d. á Hrafnistu. Ömmu þótti samt einstaklega gott ef henni var færður veglegur bragðarefur og skroppið á Kentucky.

Það var alltaf nóg pláss fyrir okkur krakkana hjá ömmu, hvort sem það var á Brúnó, Hrafnistu eða í bústaðnum. Í bústaðnum var oftar en ekki tekið í spil, skroppið niður að Höskuldarlæk, kúrt í ömmu holu, hlustað á útvarpið eða hreinlega bara spjallað um lífið og tilveruna. Amma hafði skoðanir á dægurmálum og fylgdist vel með líðandi stundu, var vel lesin og upplýst. Það er svo kostulegt með hana ömmu að þrátt fyrir að eiga 75 afkomendur fylgdist hún vel með okkur öllum. Hún gladdist yfir góðum áföngum og sigrum í lífinu, huggaði ef eitthvað bjátaði á, leiðbeindi og kenndi. Amma er fyrirmynd okkar allra og í raun stór partur af því sem við erum í dag enda ávallt verið til staðar fyrir okkur. Það eru forréttindi að hafa fengið að eiga allan þennan tíma með þér elsku amma og fá að finna fyrir elskunni þinni og hlýju. Við vitum að nú ertu komin til afa Óla og þið brosið eflaust til okkar, afi með pípuna og þú með nælu í barminum, sameinuð að nýju. Við eigum fjársjóð, minningar sem við getum yljað okkur við og deilt með okkar afkomendum. Guð geymi þig gullið okkar og takk fyrir allt.

Þorgerður Anna, Ingvar,

Kolbrún, Hjördís og Örn Arnarbörn.

Elsku besta amma mín.

Nú ert þú komin þangað sem þú hefur lengi viljað fara, til afa, barnanna þinna, systkina og foreldra.

Það er búið að vera sárt að horfa á þig þína síðustu daga og mánuði en ennþá erfiðara að leyfa þér að fara.

Ég hef einhvern veginn alltaf haldið að þú værir eilíf. Að þú yrðir alltaf hjá mér.

Þú ert amman mín.

Ég vonaði svo innilega að þú myndir ná að sjá litla ófædda barnið mitt, það er svo stutt í það. En ég veit að þú munt fylgjast með okkur og barnið mitt mun alltaf vita hver þú ert. Þú ert amma, engill sem er kominn til himna.

Ég er einstaklega þakklát fyrir síðustu orð þín til mín. Þú horfðir til mín og straukst hendinni að andliti mínu og sagðir „elsku hjartans stelpan mín“ og tókst mig að þér, kysstir mig á kinnina, straukst yfir magann minn og sagðir „litla mín“.

Ég er óendanlega þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og mun ég geyma þær minningar í hjarta mínu.

Ég elska þig og sakna þín gífurlega mikið elsku amma mín.

Þín stelpa,

Birna Sif Bjarnadóttir.

Elsku amma mín, svo kom dagurinn sem þú lést. Mikið hef ég kviðið þeim degi sem þú færir.

Með kvíða og mikilli eigingirni vildi ég ekki horfast í augu við að þú værir orðin 96 ára. Þú varst alltaf svo stórglæsileg og dugleg.

Ég óskaði þess að hafa þig lengur, hafa þig alltaf. Þú og þitt bros, þinn hlátur, hvernig þú hafðir alltaf húmor fyrir sjálfri þér. Það er aðeins ein amma eins og þú.

Það er með miklum söknuði sem ég sit hérna og skrifa, allar minningarnar koma yfir mig og ég veit alls ekki hvar ég á að byrja. Þú áttir þinn stað í hjarta mínu og sá staður verður alltaf þinn.

Ég mun sakna þín elsku amma mín.

Þín

Margrét.

Nú er svo komið að hún amma mín hélt áfram sína leið. Þó tár mín fylgi henni þá eru það ekki sorgartár heldur er hvert tár tákn um hverja góða minningu sem ég á um hana ömmu. Ég þekki fáa sem höfðu jafn mikla ást og umhyggju að geyma og hún amma, hlýjan sem hún gaf frá sér umvafði mann á erfiðum tímum svo maður gleymdi daglegu amstri. Amma mín sýndi mér, eins og öllum, ávallt mikinn áhuga. Hún tók þátt í öllu sem maður tók sér fyrir hendur hvort sem það var smávægilegt eða mikilvægt. Amma sýndi líka öllum mikla umhyggju og mátti ekkert aumt sjá, hún skipti aldrei skapi og var mjög sanngjörn kona. Ég og yngri systir mín eyddum miklum tíma með henni ömmu, hún spilaði mikið við okkur og spiluðum við oft tímunum saman, mikið var hlegið og ég er þess viss að henni hafi þótt það jafnskemmtilegt og okkur, sér í lagi þegar litið er til þess að hún var ofsalega heppinn og vann okkur mjög oft.

Þegar ég lít til baka þá finn ég hvað ég var heppinn að hafa átt hana að. Allt sem hún gerði fyrir mig, hversu falleg hún var og það að ég fann hvað hún elskaði mig hverja einustu stund sem ég eyddi með henni. Ég bara bið og vona að hún hafi ávallt vitað hversu mikið ég elskaði hana og fundið hversu mikils virði hún var mér. Ég man þegar ég sagði við hana að ég elskaði hana, í fyrsta sinn á efri árum, það grætti hana. Ég vildi bara óska að ég hefði sagt það oftar. Tíminn læknar öll sár og minningin lifir, ömmu minni og því sem hún gaf mér á lífsleiðinni mun ég aldrei gleyma. Ég get ekki annað en beðið þess að börnin mín fái að upplifa það sama og ég gerði og ég vona að ég muni geta veitt þeim sem mér þykir vænt um það sama og amma veitti mér.

Ég elska þig, amma, og ég mun sakna þín en ég er þess fullviss að ég mun sjá þig aftur og mun geta vafið örmum mínum utan um þig og hvíslað í eyrað þitt að ég elski þig.

Tár þessir taumlausu dropar.

Tignarlegir í útliti og sýn.

Minning sem hver dropi geymir.

Gimsteinn sem úr augunum skín.

Ég geymi þig í huga. Ég geymi þig í hjarta.

Þín

Kristjana Ruth Bjarnadóttir.

Elsku amma.

Stærsta og fallegasta Perlan okkar, amma Kriss, var alltaf reiðubúin til að hjálpa og ráðleggja okkur, hlý og staðföst sama á hverju gekk. Amma var svo falleg og nett, alltaf glöð og mikil dama. Það eru ómetanleg forréttindi að eiga ömmu sína í meira en hálfa öld og hreint ekki sjálfsagt. Heimilið hjá ömmu og afa var fallegasta heimili í heimi með öllum listaverkunum hennar ömmu og alltaf voru allir velkomnir þangað.

Fyrsta vinnan mín var í þvottahúsinu á Hrafnistu undir stjórn ömmu sem var forstöðukona þvottahússins. Þar lærði ég að vinna því amma leið manni ekkert slór né hálfkák í vinnubrögðum. Hún kenndi mér að gera hlutina vel og af vandvirkni.

Amma hafði ótrúlega þolinmæði við að kenna mér að sauma sem kom sér oft mjög vel fyrir mig. Amma taldi ekki eftir sér að vinna allan daginn og koma svo heim og passa tvö elstu börnin okkar fram á kvöld, hún var bara glöð með barnavagninn í hjónaherberginu og leikgrindina í stofunni. Vinir ömmu og afa gerðu létt grín að þessu og spurðu hvort þau væru byrjuð á barneignum að nýju.

Við gætum fyllt Morgunblaðið mörgum sinnum af minningum um þig, elsku amma, en við erum svo lánsöm að eiga minningarnar hjá okkur sjálfum og munum njóta þeirra um ókomna tíð. Nú sjáum við fyrir okkur ömmu og afa sigla burt, á fallegasta bátnum, út fjörðinn á spegilsléttum sjónum í haustsólinni, sæl að vera sameinuð að nýju. Við vitum að núna er amma komin í hóp þeirra sem vaka yfir okkur, fallegasta Perlan.

Takk fyrir allt, elsku amma Kriss okkar, Guð geymi þig.

Kristjana og Örn.

Það er mikill söknuður að sjá á eftir henni ömmu Kriss, en ég veit að hún var tilbúin að hitta afa Óla aftur eftir langan aðskilnað og mikið held ég að hann verði ánægður að fá hana ömmu til sín. Afi og amma voru alltaf svo náin, maður upplifði þau nánast sem eina heild. Þannig fóru þau líka saman í gegnum lífið sem ekki var alltaf dans á rósum.

Amma var mikil sómakona, hugljúf og næm. Hún var skemmtileg, húmoristi sem gat hlegið og oft hló hún mikið og innilega. Hún var líka leiðtogi. Allir gátu leitað til hennar því hún gaf svo mikið af sér. Allt sem hún gerði var svo myndarlegt, hún var svo dugleg og rausnarleg. Og margir fengu að njóta þessara hæfileika hennar.

Fyrir mér voru amma Kriss og afi Óli alltaf sem afar nánir vinir og heimili þeirra var alltaf sem mitt annað heimili. Ég var fyrsta barnabarn þeirra og fæddist reyndar í húsi þeirra á Laugateigi 26. Fyrstu minningarnar um ömmu tengjast líka Laugateignum en foreldrar mínir bjuggu þar í kjallaranum fyrstu árin í sínum búskap. Það var frábært að geta skotist upp til ömmu og afa og fengið að njóta hlýju þeirra og umhyggju. Og ekki var lakara að hitta þar líka langömmu Rebekku og fá hjá henni eitthvað gott í gogginn eða fá hana til að lesa fyrir sig góða sögu.

Afi og amma voru í raun svo mikill og eðlilegur þáttur í mínu lífi að ég var svo sem ekkert að velta því fyrir mér. Þau bara voru þarna, tilbúin að leyfa manni að njóta nærveru sinnar eða til að hjálpa manni og styrkja. Margir þættir koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Ég man til dæmis að þegar ég var að lesa undir landsprófið á sínum tíma þá flutti ég til þeirra á Brúnaveginn og var þar í marga daga til að njóta þar næðis og hvatningar. Það var líka gaman að koma í þvottahúsið á Hrafnistu og sjá hvernig amma stjórnaði þessum stóra vinnustað af röggsemi og naut jafnframt virðingar bæði starfsmanna og stjórnenda. Það bjó líka mikill listamaður í henni ömmu enda bar fallega heimilið þeirra þess ávallt merki. Þau eru ófá listaverkin sem liggja eftir hana ömmu. Þá var líka frábært að heimsækja afa og ömmu í sumarbústaðinn í Grímsnesinu en þar áttu þau margar dýrðarstundir, í þægilegri nálægð við Siggu og Banna.

Ég man líka að það þótti sérstakt þegar afi og amma fluttu á Hrafnistu í Hafnarfirði, þá bæði aðeins liðlega sjötug. En þarna kom skipulag og innsæi ömmu berlega í ljós því þetta reyndist bæði skynsamleg og ánægjuleg ráðstöfun. Þau áttu þarna fallegt heimili með góðu útsýni yfir sjóinn sem var mjög mikilvægt fyrir afa. Eins nutu þau góðrar þjónustu og liðsinnis starfsfólksins þar.

Ég vil kveðja elsku ömmu með þessum orðum og þakka henni fyrir að hafa fengið að njóta nærveru hennar í gegnum lífið.

Bjarni Ómar Ragnarsson.

Ég átti tregafull spor er ég kom og kvaddi þig, amma mín, þegar símtal hafði borist um að komið væri að leiðarlokum. Kallið er komið og langri lífsgöngu lokið hjá þér, elsku

amma mín. Anítu minni þótti líka leitt að þú værir orðin of heilsulítil til að geta komið í brúðkaupið þeirra Ödda, sem var þann 8. ágúst sl.

Í huga mér streyma fram yndislegar minningar, því vart var hægt að hugsa sér meiri höfðingja heim að sækja. Heimili ykkar Óla afa, hvort sem var á Laugateignum eða á Brúnavegi stóð okkur alltaf opið og samgangur mikill innan fjölskyldunnar. Ófáar veislurnar voru haldnar hjá ykkur og margir samankomnir flesta tyllidaga því sterk voru fjölskyldutengslin, sbr. jólaböll ættarinnar í slysavarnahúsinu ofl.

Þið áttuð einstaklega fallegt heimili og þegar ég var lítil hugsaði ég oft að svona fallegt vildi ég að mitt heimili yrði seinna meir.

Þau gerðust ekki flottari jólaboðin, þorraveislurnar eða hvaða viðburður sem til stóð hjá ykkur, enda hlaðborð af krásum og höfðinglega tekið á móti öllum sem litu inn.

Amma var líka svo mikill fagurkeri. Sama hvort það var innan veggja heimilisins, í garðinum, bústaðnum eða í einstakri handlagni við listsköpun. Bera því vitni mörg falleg verk sem hún hefur m.a. saumað út eða málað.

Þið afi fluttuð svo að Hrafnistu í Hafnarfirði árið 1986, þar sem þið bjugguð jafn fallega um ykkur á 5. hæðinni, með útsýni út á sjóinn og í átt að Garðahverfinu. Afa

hefur nú þótt vænt um það, því hann gat næstum séð út að Hausastöðum til æskuheimilis síns og Ólu og Valla fóstursystkina sinna. Afi lést svo árið 1989

sem var ömmu mjög þungbært. En sama hvar var, þá skapaði hún sér alltaf einstaklega fallegt og hlýtt umhverfi, sem notalegt var heim að sækja.

Um tíma naut ég þess að fá að búa hjá afa og ömmu í kjallaranum á Brúnavegi, og verður ekki með orðum lýst öllum hugljúfu minningunum sem streyma fram í hugann.

Amma var alltaf fín og vel til höfð hvar sem hún var eða fór. Hún stappaði stálinu í 17 ára unglinginn, sagði mér að hugsa einhvern tímann um sjálfa mig, kaupa mér kápu eða eitthvað í stað þess að hugsa alltaf um aðra fyrst.

Með einskærri virðingu og söknuði vil ég og fjölskylda mín þakka þér allar yndislegu stundirnar sem við höfum átt með þér. Við vitum að afi, Bjössi frændi og mamma og allir Guðs englar taka vel á móti þér. Minning þín mun alltaf lifa í hjörtum okkar. Að lokum litla ljóðið mitt til þín úr ljóðabókinni minni Ég man þig.

Í örmum afa og ömmu,

var gott að vera til.

Í heimahögum mömmu,

fann umhyggju og yl.

Það er svo margt að þakka,

þó orðin skorti þá.

Í þessum litla pakka,

vil reyna ef ég má.

Með einlægum samúðarkveðjum til ykkar, elsku Sigga, Gerður og

fjölskyldan öll. Elsku amma, góða ferð, og takk fyrir allt

Þín.

Elín Birna, Ómar og Valgeir.

Aníta, Örnólfur, Bjarki Dagur og Ómar Örn.

Elsku besta amma mín var alltaf falleg innst sem yst. Ég minnist hennar með stolti, virðingu og hlýju. Var hún mikill forkur, var stjórnandi á stórum vinnustað. Vann ég nokkur sumur undir hennar leiðsögn. Hafði hún einstaklega gott lag á að virkja alla á jákvæðan hátt. Það var alltaf jafn skemmtilegt og gaman að koma til afa og ömmu; ekki fáar minningar. Þau bjuggu sér einstaklega fallegt heimili með miklum myndarskap. þar var aldrei í kot vísað þó marga munna væri að seðja. Er þau fluttu á Hrafnistu varð engin breyting á, alltaf vorum við jafn velkomin og tekið frábærlega á móti mér og minni fjölskyldu. Vil ég að lokum kveðja góða konu með ljóðum úr gamalli ljóðabók sem hún gaf mér.

Blessuð sé þín góða minning, elsku amma mín.

Öll mín liðin ævistig

eru í veður fokin.

Sá er hingað sendi mig,

sér um ferðalokin

(Eggert Norðdahl frá Hólmi.)

Lífið er ekki leikur,

lífið er alvörumál.

Lundin og viljinn er veikur,

viðkvæm og hverflynd er sál.

Lífið er sumar og söngur

og sólskin á æskunnar stund.

Sá vegur er vandfarinn, þröngur,

sem veitir oss himneska grund.

Lífið er upphaf, þess endir

í óljósri dagsbirtu sést.

Lofðung sá, lífið oss sendir,

leiðir og stjórnar oss best.

Lífsandi mannanna lifir,

þótt líkaminn falli í gröf.

Lífið það undrar sig yfir

eilífri kærleikans gjöf.

(Guðlaug Ásmundsson frá Lyngum.)

Hildur Lind Árnadóttir.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Nei! – Dáin ert þú ekki,

þótt okkur horfin sért,

þú frá oss burtu flogin

til fegri heima ert.

Þig sjálfa heyri' ég segja:

„Nú samgleðjist mér öll,

því ég hefi fengið frelsið

og fluttst í bjarta höll“.

(Ágúst Böðvarsson)

Þín langalangömmubörn,

Ísak, Máni, Einar Örn,

Aþena Sif, Arna Kara og Hera Sjöfn.