Ástráður Haraldsson
Ástráður Haraldsson
Ástráður Haraldsson svarar Staksteinum: "Þegar horft er yfir niðurstöður Kærunefndar á síðustu árum varðandi ráðningarmál virðist þessi undantekning á góðri leið með að verða aðalregla."

ÞAÐ gladdi mig ósegjanlega þegar ég opnaði Moggann á laugardaginn og sá að ritstjórinn hafði séð ástæðu til að leggja sjálfa Staksteina undir umfjöllun um málefni sem ég hafði þá daginn áður leyft mér að vekja máls á, á opinberum vettvangi. Loksins, loksins, hugsaði ég, er maður orðinn maður með mönnum. Það er sannarlega ekki á hverjum degi sem smákallar eins og ég njóta slíkrar upphefðar. Ég færi blaðinu hugheilar árnaðaróskir og þakka auðmjúklega fyrir þennan heiður.

Það sem ég hafði leyft mér að nefna er þetta. Í lögum á Íslandi og raunar hvarvetna á Vesturlöndum er regla sem bannar að fólki sé mismunað vegna kynferðis. Þetta á t.d. við um það þegar atvinnurekendur ráða sér fólk til starfa. Þeim er þá óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Í lögunum er jafnframt sett regla sem varðar sönnun slíkra brota. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Með öðrum orðum; ef atvik máls hlutrænt séð benda til þess að um mismunun á grundvelli kynferðis sé að ræða er það lagt á atvinnurekandann að sýna fram á að aðrar málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðun hans. Sönnunarbyrðin færist yfir á atvinnurekandann. Allt er þetta ágætt.

Í jafnréttislögum er kveðið á um tilvist og hlutverk nefndar sem þeir sem telja á sér brotið geta leitað til. Það er Kærunefnd jafnréttismála. Eftir breytingar sem gerðar voru á lögunum fyrr á þessu ári hefur hlutverk nefndarinnar meira að segja fengið aukið vægi. Nú er unnt að fylgja eftir niðurstöðum hennar sem eru endanlegar á stjórnsýslustigi t.d. með dagsektum á hendur þeim sem gerast brotlegir.

Við mat á því hvort brotið hafi verið gegn reglunni um bann við mismunun á grundvelli kynferðis er fyrst og fremst litið til þátta einsog samanburðar á menntun og starfsreynslu umsækjenda. Á síðari árum hefur hins vegar borið æ meir á því, einkanlega í málum sem varða ráðningar að litið hafi verið til annarra þátta. Kærunefnd hefur einsog hún sjálf orðar það, litið svo á með vísan til dómaframkvæmdar að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, svo og við mat á öðrum þáttum sem máli er talið skipta og málefnalegt að líta til í viðkomandi tilviki. Hvað þýðir þetta? Jú, í einstöku tilvikum kann aðstaðan að vera sú að réttmætt sé með vísan til séreðlis starfs eða sérstæðra atvika sem varða menntun eða starfsreynslu umsækjenda að taka þann framyfir sem minni menntun eða starfsreynslu hefur. Þetta getur verið löglegt en er auðvitað algjör undantekning frá meginreglunni.

Þegar horft er yfir niðurstöður Kærunefndar á síðustu árum varðandi ráðningarmál virðist þessi undantekning á góðri leið með að verða aðalregla. Kærunefndin hefur hvað eftir annað komist að því að tilvik sem hlutrænt séð virðast vera brot séu það ekki, með vísan til svona sjónarmiða.

Ef svigrúm atvinnurekandans við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, og við mat á öðrum þáttum sem máli skipta er eins rúmt og Kærunefnd jafnréttismála virðist álíta styttist í það að aðalreglan um bann við mismunun verði haldlaus. Þá er illa farið. Þarna sýnist mér að Kærunefnd jafnréttismála sé á villigötum.

Ég er sammála Staksteinum um að aðalatriði málsins er ekki að Kærunefndin telji alltaf að um brot sé að ræða heldur að hún komist að réttum niðurstöðum. Ég óttast hins vegar að með þessari aðferðafræði verði það oft ekki raunin.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og dósent við Háskólann á Bifröst.