Ronaldinho
Ronaldinho
RONALDINHO er sjálfsagt einn allra vinsælasti maðurinn meðal stuðningsmanna AC Milan þessa stundina, eftir að Brasilíumaðurinn tryggði liðinu sigur gegn nágrannaliðinu, Inter Mílanó í gærkvöldi.

RONALDINHO er sjálfsagt einn allra vinsælasti maðurinn meðal stuðningsmanna AC Milan þessa stundina, eftir að Brasilíumaðurinn tryggði liðinu sigur gegn nágrannaliðinu, Inter Mílanó í gærkvöldi. Leiknum lauk með 1:0-sigri AC Milan og sem fyrr segir var það Ronaldinho sem skoraði markið.

Þó liðsmenn Inter hafi ekki uppskorið mark í leiknum uppskáru þeir þó nokkuð af spjöldum og meðal annars tvö sem voru rauð á lit. Fyrst var það Nicolas Burdisso sem fékk brottvísun í síðari hálfleik eftir tvö gul spjöld og svo nældi vandræðagemsinn Marco Materazzi sér í beint rautt spjald fyrir að mótmæla einhverjum dómi afar harkalega. Materazzi kom inn sem varamaður í liði Inter í leiknum og staldraði því aðeins stutt við inni á vellinum.

Þegar fimm umferðum er lokið í ítölsku A-deildinni hefur Inter 10 stig í 4. sæti en AC Milan er með 9 stig í 6. sæti. Efst er Lazio með 12 stig.

Reggina, lið Emils Hallfreðssonar er í næst neðsta sætinu með aðeins eitt stig. Emil lék í 54 mínútur með liði sínu sem tapaði fyrir Palermo, 1:0. thorkell@mbl.is