Bergsveinn Guðmundsson
Bergsveinn Guðmundsson
Bergsveinn Guðmundsson skrifar um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og byggingu sjúkrahúss: "Þegar búið er að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll mundu á að giska 750 þúsund vinnustundir fara í súginn árlega"

MIKIÐ hefur verið rætt um framtíð Reykjavíkurflugvallar að undanförnu. Það má alveg segja það hreint út að frammistaða Ólafs F. Magnússonar hefur verið til fyrirmyndar.

En mitt í nýjasta reiðuleysisrugli er aftur komin upp sú staða hjá þeim, sem minnst skilja um hvað málið snýst, að ryðja flugvellinum á burt.

Flugvöllurinn er aðalsamgönguæð hálfrar milljónar manna á hverju ári. Flugvöllurinn er ekki bara Reykjavíkurmál, þetta er mál allra þeirra sem utan Reykjavíkur búa.

Það hlýtur að vera verkefni ríkisstjórnar að ganga þannig frá þessu máli að framtíð flugvallarins verði tryggð á þeim stað sem hann er núna. Frá upphafi hefur verið hrúgað upp í Reykjavík alls konar þjónustu fyrir alla landsmenn sem fólk neyðist til að sækja til Reykjavíkur utan af landi. Það er komið að því, að koma því kirfilega til skila til ráðamanna borgarinnar að ef fólk utan Reykjavíkur á að sækja þangað þjónustu þá þarf sú þjónusta að vera aðgengileg. Ef þetta mál er látið druslast áfram í þekkingarleysi kjörinna borgarfulltrúa hlýtur að verða krafa allrar landsbyggðarinnar að ef reisa á nýtt stórsjúkrahús þá verði það reist á þeim stað sem geri það aðgengilegt að komast þangað. Það er alveg óhæft að hrúga upp alls konar þjónustu á einn stað og hindra svo fólk í því að sækja þá þjónustu sem er í mörgum tilfellum spurning um líf eða dauða.

Ef Keflavíkurvöllurinn yrði gerður að innanlandsflugvelli fyrir Reykjavík er kominn tími til að safna saman þjónustu ríkisins í Keflavík. Nýtt stórsjúkrahús yrði þá reist í Reykjanesbæ. Það er ekki neitt erfiðara fyrir Reykvíkinga að sækja þjónustu til Reykjanesbæjar heldur fyrir Reykjanesbæjarbúa að sækja þjónustu til Reykjavíkur. Það er alltaf verið jagast á því hvað hægt væri að selja lóðirnar á sem nú eru undir flugvellinum. Þegar búið er að eyðileggja

Reykjavíkurflugvöll mundu á að giska 750 þúsund vinnustundir fara í súginn árlega og fara vaxandi með hverju ári. Það yrði því bara einfalt reikningsdæmi hvað það tæki mörg ár að gera hagnaðinn af lóðaríinu hjá borgarstjórn Reykjavíkur að engu.

Sú hugmynd að fara að setja upp járnbraut milli Keflavíkur og Reykjavíkur er þvílík foráttuheimska að það er varla hægt að eyða orðum að þeirri vitleysu. Járnbrautir hafa alla tíð verið einhver leiðinlegasti ferðamáti sem til er og eru alveg gífurlegur slysavaldur. Það mundi allur lóðaríispeningurinn

fara í slíka heimskuframkvæmd og í viðbót tíminn sem fer í að skrölta á milli staða og þau mannslíf sem mundu tapast í sambandi við þá framkvæmd. Það tekur um það bil 5 til 8 kílómetra að stöðva lest sem er á fullri ferð og þau hryllilegu járnbrautarslys sem orðið hafa alveg nýlega í Bandaríkjunum og Þýskalandi gætu gerst hér hvenær sem er og oft á ári. En þegar menn eru farnir að taka dæmi af flugslysum erlendis og reyna að hrekja burt flugvöllinn með því staðsetja þau á öðrum stöðum í nágrenni við Reykjavíkurflugvöllinn þá tekur fyrst alveg steininn úr.

Að lokum þetta: Ódýrast yrði að flytja alla þjónustu sem safnað hefur verið saman í Reykjavík til Reykjanesbæjar og þá getur Reykjavík verið bara fyrir sjálfa sig! Ég er viss um að Reykjanesbær tæki því fegins hendi.

Höfundur er á ellilaunum.

Höf.: Bergsveinn Guðmundsson