[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorri Björn Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir TMS Ringsted þegar liðið tapaði fyrir Skjern , 35:28, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Keppnistímabilið hefur ekki byrjað vel hjá Þorra og samherjum.
Þ orri Björn Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir TMS Ringsted þegar liðið tapaði fyrir Skjern , 35:28, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Keppnistímabilið hefur ekki byrjað vel hjá Þorra og samherjum. Þeir hafa tapað fjórum fyrstu leikjunum í deildinni og sitja þar af leiðandi í neðsta sæti deildarinnar án stiga.

Rakel Dögg Bragadóttir var ekki í leikmannahópi KIF Vejen þegar liðið vann GOG í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöldi. KIF er í öðru sæti deildarinnar með 8 stig að loknum fimm leikjum.

Skagamaðurinn Garðar Gunnlaugsson lék sinn fyrsta knattspyrnuleik fyrir CSKA Sofia í Búlgaríu um helgina í 2:2-jafntefli liðsins við Pirin Blagoevgrad á útivelli. Garðar kom inn á sem varamaður og lék síðustu 16 mínútur leiksins.

Skautafélag Reykjavíkur gerði góða ferð til Akureyrar um helgina þar sem liðið vann sigur á Skautafélagi Akureyrar , 5:3 á Íslandsmótinu í íshokký karla. SR skoraði síðasta mark sitt þegar ein sekúnda var til leiksloka en þá hafði SA tekið markmann sinn út af og sett í stað hans útileikmann á svellið til að freista þess að jafna metin.

Arnþór Bjarnason skoraði tvö mörk fyrir SR í leiknum en Egill Þormóðsson, Óskar Grönhólm og Andri Þór Guðlaugsson eitt mark hver. Hjá SA skoruðu þeir Stefán Hrafnsson, Björn Jakobsson og Jón B. Gíslason .

Dregið verður í 32-liða úrslit Eimskipsbikar karla í handknattleik í kvöld. Leikið verður 5. og 6. október. Eru það Valsmenn sem eiga titil að verja, en liðið hafði sigur á Fram í úrslitum keppninnar á síðustu leiktíð. Athyglisverðustu liðin sem skráð eru til leiks í 32-liða úrslitum eru KS og HKR.

Kvennasveit Keilis hafnaði í 8.–9. sæti í Evrópukeppni félagsliða sem lauk í Þýskalandi um helgina. Keilir lék hringina þrjá á 468 höggum en sveitina skipuðu Ásta Birna Magnúsdóttir , Ragna Björk Ólafsdóttir og Þórdís Geirsdóttir .