Spáð í spilin Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, t.h., og Óskar Ármannsson bera saman bækur sínar. Þeir hafa farið vel af stað með Haukaliðið.
Spáð í spilin Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, t.h., og Óskar Ármannsson bera saman bækur sínar. Þeir hafa farið vel af stað með Haukaliðið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
HAUKAR tóku á móti Akureyri í leik sem í raun varð aldrei spennandi. Haukar tóku strax forystuna og létu hana aldrei af hendi, og það má segja að mjög slæm byrjun Akureyringa hafi orðið þeim að falli.

HAUKAR tóku á móti Akureyri í leik sem í raun varð aldrei spennandi. Haukar tóku strax forystuna og létu hana aldrei af hendi, og það má segja að mjög slæm byrjun Akureyringa hafi orðið þeim að falli. Varnarleikur þeirra gekk ekki upp og þar með var markvarslan heldur ekki góð. Loktölur, 37:28, fyrir Hauka sem voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13.

Eftir Kára Sigurðsson

sport@mbl.is

Eftir fyrstu 20 mínúturnar var staðan orðinn 14:8 Haukum í vil, en þessi leikkafli einkenndist eins og fyrr segir af slæmum varnarleik og miklu af sóknarmistökum hjá Akureyri. Hornamenn Hauka, Einar Örn Jónsson og Freyr Brynjarsson, voru fremstir í flokki á þessum tímapunkti og skoruðu fjögur mörk hvor, þar af nokkur úr vel útfærðum hraðaupphlaupum.

Í hálfleik var staðan 18:13 og sannarlega á brattann að sækja fyrir norðanmenn sem gáfust þó aldrei upp. Fyrstu mínúturnar af seinni hálfleik gáfu einmitt til kynna að Akureyri væri að komast inn í leikinn, vörnin orðin mun beittari og sóknarleikurinn orðinn skilvirkari. Þar fór Árni Þór Sigtryggsson fyrir sínum mönnum og raðaði inn mörkum fyrir utan.

Þegar 10 mínútur voru eftir var staðan 28:22 Haukum í vil. Akureyri voru allan seinni hálfleikinn að elta og náðu stundum að minnka muninn niður í fjögur eða fimm mörk en það má segja að Sigurbergur Sveinsson og Arnar Jón Agnarsson hafi skotið þá niður, en Arnar Jón er nýkominn til baka úr meiðslum. Sigurbergur raðaði inn mörkum fyrstu mínútur seinni hálfleiks og síðan tók Arnar Jón við og setti fjögur góð mörk í lokin. Gaman var að sjá hann koma með svona sterka innkomu. Það mun reynast Haukum dýrmætt í vetur að fá þessa örvhentu skyttu í gang aftur.

Leikurinn endaði 37:28 og sigur Hauka orðinn staðreynd, og ekki annað hægt að segja en þeir hafi verið afar vel að honum komnir að þessu sinni. Gísli Jón Guðmundsson stóð vaktina vel í marki Hauka og varði 19 skot, og hann og Sigurbergur og Einar Örn voru sterkastir í annars jöfnu liði Hauka. Hjá Akureyri varð það Árni Þór sem stóð upp úr með 10 mörk.

Aron Kristjánsson var að vonum sáttur í leikslok enda hafa Haukar hafið leiktíðina af miklum krafti og unnið sannfærandi sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum.

Virkilega ánægður

„Ég er mjög ánægður með liðið og hvað það hefur sýnt mikið sjálfstraust. Ég er líka virkilega ánægður með innkomuna hjá Arnari Jóni Agnarssyni í þessum leik, og eins Einar Örn og Gísla í markinu. Þó að þetta hafi endað með níu marka sigri var þetta erfiður leikur því þeir virtust alltaf vera að komast inn í leikinn, þannig að ég er mjög sáttur með þessa niðurstöðu,“ sagði Aron.

Kollegi hans hjá Akureyrarliðinu, Rúnar Sigtryggsson, skoraði tvö mörk í leiknum en var vonsvikinn í leikslok, enda hafa Akureyringar nú tapað báðum fyrstu leikjum sínum gegn Hafnarfjarðarliðunum tveimur.

„Þetta gekk ekki upp eins og við lögðum upp með, að spila ákveðna vörn frá byrjun. Við gerðum líka allt of mikið af mistökum í sókninni og sumir leikmannanna voru bara ekki tilbúnir. Við þurfum bara lengri tíma til að komast í gang því það er stutt síðan liðið kom allt saman til æfinga og undirbúningstímabilið hefur því verið styttra en hjá öðrum liðum,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar.

Haukar – Akureyri 37:28

Ásvellir, úrvalsdeild karla, N1-deildin laugardaginn 27. september 2008.

Gangur leiksins : 3:1, 6:3, 10:3, 14:8, 17:11, 18:13 , 19:15, 24:17, 28:22, 34:25, 37:28 .

Mörk Hauka : Sigurbergur Sveinsson 8/4, Einar Örn Jónsson 6, Freyr Brynjarsson 4, Arnar Jón Agnarsson 4, Gísli Jón Þórisson 4, Gunnar Berg Viktorsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Hafsteinn Ingason 2, Andri Stefan 2, Tryggvi Haraldsson 1.

Varin skot : Gísli Guðmundsson 19 (þar af 5 til mótherja), Birkir Ívar Guðmundsson 1/1.

Utan vallar : 10 mínútur.

Mörk Akureyrar : Árni Þór Sigtryggsson 10/2, Andri Snær Stefánsson 6/1, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Jónatan Þór Magnússon 3/2, Heiðar Þór Aðalsteinsson 2, Rúnar Sigtryggsson 2, Hreinn Hauksson 1, Þorvaldur Þorvaldsson 1.

Varin skot : Hafþór Einarsson 7 (þar af 4 til mótherja), Jesper Sjögren 5.

Utan vallar : 14 mínútur.

Dómarar : Gunnar Jarl Jónsson og Hörður Aðalsteinsson.

Áhorfendur : 391.

Í hnotskurn
» Næsti leikur Íslandsmeistara Hauka verður við HK í íþróttahúsi Digraness á miðvikudagskvöldið. Þessum liðum er spáð tveimur efstu sætum deildarinnar.
» Arnar Jón Agnarsson var á ný með Haukum eftir langvarandi meiðsli.
» Lið Akureyrar handboltafélags fær Stjörnuna í heimsókn í íþróttahöllina á Akureyri á fimmtudagskvöldið.