Björg í bú Guðný á Einarsstöðum (t.h.) að svíða ásamt Önnu Valgeirsdóttur.
Björg í bú Guðný á Einarsstöðum (t.h.) að svíða ásamt Önnu Valgeirsdóttur. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Eftir Atla Vigfússon Reykjahverfi | „Það er mikill munur að geta sviðið með kósangasi og mér finnst alltaf gaman að svíða á haustin. Áður voru notuð kol í smiðju og físibelgur til þess að blása í eldinn.

Eftir Atla Vigfússon

Reykjahverfi | „Það er mikill munur að geta sviðið með kósangasi og mér finnst alltaf gaman að svíða á haustin. Áður voru notuð kol í smiðju og físibelgur til þess að blása í eldinn. Þetta var mikið verk enda var þá sviðið miklu meira magn en í dag.“ Þetta segir Guðný J. Buch á Einarsstöðum í Reykjahverfi sem er byrjuð í haustmatnum og var að svíða hausa og lappir í vikunni.

Hún segist hafa vanist því frá barnæsku að nýta sem best allt það sem kemur af kindunum en nú séu breyttir tímar og eftir að hún varð ein í heimili hafi hún ekki eins mikil not fyrir allt það sem til fellur.

Áður fyrr var margt í heimili á Einarsstöðum og búið stórt en nú býr Guðný með nokkrar kindur og er dugleg að nýta það sem til fellur. Hún segir að sviðalappir séu góður matur sem var oft á borðum fyrr á árum á heimilinu. Reikna þurfti með 4–5 löppum á mann í hverja máltíð. Sviðalappir voru borðaðar heitar með kartöflum og rófum en síðan kaldar ef eitthvað varð afgangs. Þá voru þær súrsaðar og borðaðar með graut og einnig var gerð úr þeim svokölluð sviðasulta sem mörgum þykir góð. Það var brytjað í sviðasultuna en á Einarsstöðum var einnig gerður sviðaostur úr löppum og hausum en þá var skorið af beinunum og allt hakkað saman og sett í bakka með svolitlu soði og síðan skorið í bita og súrsað. Sviðalappirnar voru einnig súrsaðar heilar en þá var leggurinn tekinn en ekki hin beinin.

Magálar af geldám og hrútum

Guðný segist auðvitað ekki nota mikið sjálf af sviðalöppum í dag en hún segist hafa ánægju af því að gefa vinum sínum í matinn því margt fólk sækist eftir þessum mat sem fæst óvíða í stórmörkuðum. Frá flestum sláturhúsunum má ekki taka lappir heim vegna sjúkdómavarna og líklega er Fjallalamb á Kópaskeri eina sláturhúsið sem sendir sviðafætur á markað.

Hausana sem hún svíður nýtir hún sjálf að mestu og geymir til vetrarins, m.a. til þess að hafa með sér á þorrablót sveitarinnar. Og nú er hún að undirbúa reykhúsið en hún reykir bóga, læri og magála, auk þess sem hún brytjar hálsæðar og þindar í sperðla. Magálana vill hún hafa af geldám og hrútum því þá eru slögin nægilega feit svo að magálarnir verða matarmeiri.

„Auðvitað er ég oft að brasa í þessu ein en það er ljómandi gott þegar einhver kemur eins og vinkona mín á Húsavík, hún Anna Valgeirsdóttir, sem er öllu vön, en hún aðstoðar mig stundum við að svíða og hefur bara gaman af því.“ Þetta segir Guðný J. Buch á Einarsstöðum og henni finnst lömbin vera væn í haust enda sumarið mjög veðragott.

Í hnotskurn
» Allraheilagramessa heitir líka öðru nafni, þ.e. sviðamessa, og var þá almennur siður að minnsta kosti á Norður- og Vesturlandi að hafa svið til miðdegismatar og þótti myndarlegra að skammta vel. Jafnan voru þau soðin daginn áður og skömmtuð köld.
» Sviðalappir má borða heitar með kartöflum og rófum. Líka er hægt að súrsa þær og borða með graut.