Sigurmark Daniel Cousin hjá Hull City fagnar hér marki sínu gegn Arsenal um helgina, sem reyndist sigurmarkið.
Sigurmark Daniel Cousin hjá Hull City fagnar hér marki sínu gegn Arsenal um helgina, sem reyndist sigurmarkið. — Reuters
LIVERPOOL og Chelsea halda prýðilegri byrjun sinni áfram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liverpool gerði vel um helgina og vann erkifjendur sína í Bítlaborginni, Everton. Fóru leikar 2:0 með mörkum frá markamaskínunni Fernando Torres.

LIVERPOOL og Chelsea halda prýðilegri byrjun sinni áfram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liverpool gerði vel um helgina og vann erkifjendur sína í Bítlaborginni, Everton. Fóru leikar 2:0 með mörkum frá markamaskínunni Fernando Torres. Chelsea vann góðan 2:0-útisigur á Stoke City og eru þá Liverpool og Chelsea efst og jöfn með 14 stig eftir 6 leiki og eru þau einu liðin sem eru taplaus enn sem komið er í deildinni. Arsenal fór hins vegar illa að ráði sínu og tapaði heima fyrir Hull, 1:2.

Eftir Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson

thorkell@mbl.is

„Liðsheildin var mjög góð í þessum leik og liðið spilaði mjög vel saman. Torres lék síðan ákaflega vel og skoraði tvö mjög góð mörk, auk þess að vera sífellt ógnandi fyrir framan mark andstæðinganna. Við bjuggumst við erfiðum leik þar sem líkamleg barátta yrði mikil og liðsmenn hefðu lítið svigrúm til að halda boltanum. Mínir menn náðu að valda þessu mjög vel og við lönduðum sigri,“ sagði Rafa Benitez knattspyrnustjóri Liverpool eftir 2:0-sigur síns liðs á Everton um helgina. Hann segist alls ekki hafa áhyggjur af því að Robbie Keane hafi enn ekki skorað mark fyrir félagið, því meðan lið hans sé á sigurbraut skipti það harla litlu máli.

Ekki lengi eitt á toppnum

Liverpool var eitt á toppi deildarinnar um stundarsakir á laugardag, en það varði ekki lengi, því Chelsea vann sinn leik gegn Stoke, 2:0 og jafnaði Liverpool að stigum. Voru það Jose Bosingwa og Nicolas Anelka sem sáu um markaskorun hjá Chelsea í þetta skiptið.

„Það er gjörsamlega ómögulegt að spila fallega knattspyrnu alltaf og það var virkilega erfitt gegn Stoke. Í hvert sinn sem við gerðum einhver mistök í leiknum mættu þeir í Stoke á vettvang og reyndu að koma boltanum inn á okkar vítateig. Við urðum að halda einbeitingu allan tímann til að ná fram þessum úrslitum og það var gott að landa þremur stigum,“ sagði hinn portúgalski þjálfari Chelsea, Luiz Felipe Scolari.

Arsenal komst ekki á toppinn

Arsene Wenger og hans menn í Arsenal fór illa að ráði sínu þegar liðið gat sest í toppsætið. Með sigri á Hull hefði Arsenal farið í 15 stig, einu stigi meira en Liverpool og Chelsea. Það varð hins vegar ekkert af því þar sem nýliðarnir úr fiskibænum Hull gerðu sér lítið fyrir og unnu 2:1 og það á heimavelli Arsenal. Heimamenn komust yfir með sjálfsmarki snemma í síðari hálfleik en þeir Geovanni og Daniel Cousin skoruðu sitt markið hvor fyrir Hull sem nægði til þess að hirða öll stigin þrjú úr viðureign liðanna. „Það er í raun og veru mikið sjokk að tapa þessum leik. Við vorum bara kærulausir í þessum leik og heilt á litið einfaldlega alls ekki nógu góðir,“ sagði Wenger að loknum ósigrinum. Arsenal hefur því 12 stig eftir leikinn en Hull er nú aðeins stigi á eftir með 11 stig.

Ronaldo og Rooney góðir

Manchester United átti ekki í teljandi vandræðum með Bolton og vann 2:0 með mörkum Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney. Aston Villa vann Sunderland, 2:1 og góð byrjun Gianfranco Zola með West Ham heldur áfram, því liðið vann 2:1-sigur á Fulham.

Þá vann WBA sigur á Middlesbrough, 1:0 og Blackburn vann Newcastle, 2:1. Tottenham heldur áfram að ganga illa. Liðið tapaði fyrir Portsmouth, 2:0. Að endingu vann Wigan 2:1-sigur á Manchester City.

Í hnotskurn
» Íslendingaliðið West Ham United hefur unnið báða leiki sína síðan Gianfranco Zola tók við liðinu.
» Nýliðar Hull City fara prýðilega af stað og hafa unnið helming leikja sinna.
» Á brattann er að sækja hjá Tottenham. Liðið hefur enn sem komið er aðeins 2 stig.