Albert Jensen
Albert Jensen
Albert Jensen skrifar um umhverfismál: "Fórnum ekki landinu fyrir skammvinn gæði."

UNDANFARNAR vikur hefur skammsýnt fólk ráðist að Björk Guðmundsdóttur fyrir einlæga ást hennar á landi sínu og umhverfi og skynsamlegum rökum gegn eyðingu þess. Himinn og haf skilja að hugsjónir og eigin hagsmuni. Það sama gildir um Björk og Árna Johnsen í umhverfismálum. Í þætti þar sem Árna og Elísabetu Jökulsdóttur greindi á í umhverfismálum var með ólíkindum hvað Árna tókst að tipla á flokkslínunni. Í hans málflutningi var hvergi minnst á skaðlegar afleiðingar vatnsaflsvirkjana á lífríkið við strendur landsins. Hann var fyrst spurður og fékk frið til að ljúka máli sínu. Elísabet var hins vegar stöðvuð með framígripi stjórnmálamannsins sem gætti þess að hún gæti ekki lokið máli sínu, né komið sínum skoðunum á framfæri. Árni hefur marga hildi háð og glímt við vandamál sem venjulegum manni væri ógerlegt að sigrast á og halda reisn á eftir. Eða hvað það allt saman er nú kallað. Ekki veit ég hvort ég á að undrast eða dást að trú Árna á sjálfum sér. Enn eitt er víst, hann er einstakur afreksmaður á því sviði. Slíkur maður leyfir ekki hugsjónakonu að standa í vegi fyrir málstað þeirra sem sjá fossa landsins með dollaraaugum. Þrátt fyrir einlitan og sorglegan málflutning þessa þrælduglega manns lá við að ég skellti upp úr þegar hann sagðist vera umhverfissinni. Að væna Björk Guðmundsdóttur um barnaskap í umhverfismálum þó hún sjái lengra en hann, mælir vart með honum sem umhverfissinna.

Erna Indriðadóttir, sem er framkvæmdastjóri samfélags- og upplýsingamála hjá Alcoa, er líkt og Árni, ósátt við rök Bjarkar. Ólíkt Árna er hægt að skilja hennar sjónarmið. Hún er að verja vel launað starf sitt og lætur Alcoa njóta góðs af. Því miður er það fyrirtæki frægt fyrir umhverfisspjöll og slæma framkomu við fátæk ríki og starfsmenn sína. Það geta menn séð á netinu. Hún áttar sig ekki á hve þjóðin er orðin vel meðvituð um þýðingu hreins umhverfis og lofts og farin að gera sér ljósar afleiðingar kæruleysis og græðgi í umhverfismálum. Ég hefði getað ímyndað mér að slík ágætis manneskja sem Erna kemur mér fyrir sjónir, væri undir niðri sammála Björk ef ekki kæmi meðal annars þessi setning í grein hennar: Ísland er réttilega í margra augum land hinnar hreinu orku og hvernig álfyrirtæki geta eyðilagt þá ímynd er greinarhöfundi hulin ráðgáta: Hví ertu svo blind, ágæta Erna?

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar um hentistefnu og „Fagra Ísland“ og sér bara kosti þess að fórna náttúruperlum fyrir meiri lífsgæði. Margfalt fleiri ókostina minnist hún ekki á. Hún gerir lúmskt grín að Össuri Skarphéðinssyni og Björgvini Sigurðssyni þegar þeir með undirskrift og skóflustungu veittu áframhaldandi álvæðingu og mengun brautargengi og vonar að þeir hafi gert þetta af heilum hug. Kolbrún er betri gagnrýnandi á bækur en þá sem reyna að vernda umhverfið. Hún virðist hreinlega ekki hafa hugmynd um hvað málið snýst um. Kolbrún gerir sér ekki ljóst að mengandi stóriðja og virkjanir eru hugsjónir skammsýnna auðhyggjumanna. Það er ekki verið að hugsa um almenning enda svokallað góðæri farið þar hjá garði eins og nú er óðum að koma í ljós. Afrakstur eyðileggingar náttúrunnar varð nær allur eftir í auðmanna pyngjum. Auður og völd fara hér saman sem annars staðar, án fylgdar skynsemi og framsýni. Það má segja Össuri til málsbóta að hann skammaðist sín svo mikið fyrir að skrifa undir yfirlýsingu um álver á Bakka að hann vildi ekki myndatöku. En hvað gera menn ekki fyrir völd og áhrif? Össur er góður drengur sem vill vel án þess að vita hvernig á að gera. Ágætu landar! Fórnum ekki landinu fyrir skammvinn gæði. Hættum að bruðla og eyðileggja. Hækkum laun okkar með skynsamlegum sparnaði og fyrirhyggju án þess að það komi niður á lífsgæðum. Það gæti verið á við álver á landsvísu.

Höfundur er trésmíðameistari.

Höf.: Albert Jensen