— Morgunblaðið/Golli
TURNINN hái við Höfðatorg rís nú á ógnarhraða til himins en í góðri tíð tekst að steypa eina hæð á um sex dögum, samkvæmt upplýsingum frá fasteignafélaginu Höfðatorgi.

TURNINN hái við Höfðatorg rís nú á ógnarhraða til himins en í góðri tíð tekst að steypa eina hæð á um sex dögum, samkvæmt upplýsingum frá fasteignafélaginu Höfðatorgi. Þegar vindurinn blæs af krafti gengur hægar, eins og við er að búast þegar unnið er í svo mikilli hæð og suma vindsama daga hefur ekkert verið hægt að steypa.

Alls verður turninn 19 hæðir og ríflega 70 metrar. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að steypa gólfplötu 19. hæðarinnar um miðjan nóvember. Ofan á þá hæð kemur síðan lítil bygging fyrir lyftuhús og fleira.

Háhýsastefna enn í mótun

Töluverð umræða varð um turnbyggingar í fyrra, m.a. eftir að áform um Höfðatorgsturninn voru kynnt. Í viðtali við Morgunblaðið í maí 2007 sagði Ólöf Örvarsdóttir, þá aðstoðarskipulagsstjóri en nú skipulagsstjóri, að verið væri að móta háhýsastefnu í tengslum við nýtt aðalskipulag Reykjavíkur. Hún gerði þá ráð fyrir að þeirri vinnu lyki í ársbyrjun 2008. Í samtali við Morgunblaðið í liðinni viku sagði Ólöf að ekki væri lokið við að móta háhýsastefnu en verið væri að vinna í málinu. Unnið væri að stefnumótuninni í tengslum við aðalskipulag Reykjavíkur og hún vonaði að bæði stefnan og tillaga að skipulagi yrði kynnt um mitt næsta ár. Byrjað hefði verið að tala um þörf á háhýsastefnu fyrir nokkrum árum en kraftur hefði verið settur í starfið í fyrra. Við þetta starf væri m.a. litið til reynslunnar í Kaupmannahöfn en þar hefði t.d. verið ákveðið að innan tiltekins svæðis mætti ekki reisa hús sem væru hærri en fimm hæðir.

Aðspurð sagði Ólöf að enginn hefði nýlega sótt um leyfi til að reisa háhýsi í Reykjavík. „En hluti af stefnunni er að skilgreina hvað sé háhýsi. Er það átta hæða bygging, tíu hæða eða tólf?“ runarp@mbl.is