Ólafur Als
Ólafur Als
Eftir Ólaf Als: "Eru bjargráð Bandaríkjastjórnar birtingarmynd pilsfaldakapítalisma eða eðlileg og sjálfsögð viðbrögð? Er hugmyndafræðin að þvælast fyrir stjórnvöldum?"

NÚ ERU blikur á lofti í fjármálaheimi, sem sumir líkja við aðdraganda kreppunnar miklu. Enn er vart hægt að tala um kreppu, heldur miklu fremur ótta við kreppu – sem einnig getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Samræmdar aðgerðir stjórnvalda víða um heim gætu komið í veg fyrir slíkt, ólíkt því sem var fyrir rúmum mannsaldri. En hvernig er best að ráða bót á vandanum og hvaða afleiðingar af aðgerðum þeirra, eða jafnvel aðgerðaleysi, eru ásættanlegar?

Aðgerðasjóðir ekki nýir af nálinni

Viðbragðaáætlun Bandaríkjastjórnar er að nokkru hægt að bera saman við aðgerðirnar í Svíþjóð árið 1993. Svíar áttu við fjármálakreppu að stríða og settu á stofn digran sjóð, fjármagnaðan af skattfé, til þess að bjarga fjármálageiranum. Aðgerðirnar voru umdeildar en að lokum skiluðu þær sér að margra mati. Skattborgararnir fengu tvo þriðju fjárins aftur og komu sér undan fjármálakreppu sem hefði getað valdið miklum búsifjum. Lykillinn að árangri þessarar aðgerðar var sá rammi sem settur var um starfsemi sjóðsins og hve vel tókst að halda stjórnmálamönnum frá honum.

Hvort sem rekja má lánsfjárvandann nú til gjaldfellingar gjaldmiðla af hálfu seðlabanka heimsins, misbresta í reglugerðarverkinu og slæmrar efnahagsstjórnar eða einfaldlega ofurgræðgi fjármálastofnana og þeirra stjórnenda, þá er víst að til þess að stýra okkur út úr vandanum þarf færa stjórnendur með góð ráð í höndum. Stjórnmálamönnum er ætlað að setja rammann (hin góðu ráð) en láta eftir sérfræðingum að framkvæma þau. Þannig leystu menn málin í Svíþjóð árið 1993 og reyndist um margt vel.

Bjargráð Bandaríkjastjórnar

Á Bandaríkjaþingi liggur fyrir bjargráðaáætlun upp á um 700 milljarða Bandaríkjadala. Þessum fjármunum er m.a. ætlað að létta á fjármálastofnunum sem sitja uppi með slæm húsnæðislán. Lærdómsríkt er að rekja sögu s.k. lánapakka, sem eftir kúnstarinnar nýju reglum áttu að vera nánast án allrar áhættu. Þeir voru mikil mistök. Þessir lánapakkar hafa margir ekki reynst innihaldsríkari en nýju fötin keisarans; lán voru veitt til fólks sem ekki var borgunarmenn fyrir lánunum og veðin byggð á verðbólu á fasteignamarkaði.

Bankar og fjármálastofnanir, sem alla jafna byggja starf sitt á tilhlýðilegri íhaldssemi, misstu sig í ofgnótt af lánsfé og blindri hagnaðarvon. Hvað sem líður gráðugum stjórnendum á Wall Street virtust flestir reiðubúnir til þess að taka þátt í gleðinni, hér heima sem annars staðar.

Bandaríkjaþing hefur nú hafnað tillögum Bush-stjórnarinnar, alla vega að óbreyttu. Stjórnin bendir á, að án skjótra viðbragða geti verr farið en ef ekkert er að gert. Menn eru ekki sammála um forsendur eða leiðir. Einnig er fléttað inn í þetta ofurlaun stjórnenda í fjármálaheiminum, sem mörgum svíður, en eins og fyrri daginn er mörgum í mun að finna sökudólga.

Frá vinstri er bent á, að aðgerðir af þessu tagi eigi að rétta hag þeirra sem verst standa og óttast er að forstjórarnir muni sleppa of vel. Frá hægri kemur gagnrýni af öðru tagi. Þar á bæ velta menn fyrir sér hvort fyrirtæki eigi ekki að fara á hausinn, það sé affærasælast til lengri tíma; slíkt ryðji úr vegi illa reknum fyrirtækjum, að ekki sé nú talað um slæma stjórnendur. Með því móti muni markaðurinn rétta sjálfur úr sér, þó svo að það gæti tekið tímann sinn og falið í sér sárauka. Inn í þetta fléttast og hagfræðiumræða sem tekst á við að hve miklu leyti markaðir geti leitað jafnvægis af sjálfum sér en sumir efast um slíkt.

Hugmyndafræðileg átök

Stjórnvöld eru ekki hrifin af sársauka, það er ekki gott þegar kemur að kjördegi. Sumir benda á að betra sé að fá yfir sig storminn í stuttan tíma, láta veikbyggðu húsin fjúka en byggja á þeim sem standa af sér óveðrið. Hljómar ekki illa. Hins vegar eru margir hræddir við áhrifin sem þetta gæti haft á þær fjölskyldur sem standa illa og vilja fremur að stormurinn verði mildari en vari þeim mun lengur. Hættan við slíkt er að húsin muni jú standa en halda áfram að soga til sín fjármagn og valda efnahagslegum þrengingum um langt skeið.

Einnig er spurt, að hve miklu leyti einstaka fjármálastofnunum leyfist að hafa á sinni hendi stóran hluta húsnæðislána? Því stærri hlutdeild, þeim mun alvarlegri afleiðingar ef stór aðili fer yfir um – ekki ósvipað og nú hefur gerst í tilfellum fjármálastofnana, sem Bandaríkjastjórn hefur tekið yfir. Þær aðgerðir, auk yfirtöku banka og núverandi tillagna um hinn digra bjargráðasjóð, nema upphæð sem ekki er undir þúsund milljörðum dala.

Sumir kalla þetta pilsfaldakapítalisma en fyrir venjulega borgara skiptir mestu að ekki fari verr og varðar lítið um nafngiftir. Eigi markaðshagkerfið áfram að færa björg í bú er okkur sama þó svo að því sé rétt hjálparhönd öðru hvoru. Markaðshagkerfið er í raun mannanna smíð, sem hvílir á mörgum stoðum. Hið opinbera gegnir þar hlutverki, sem ekki verður horft framhjá, og skyldu allir hafa það í huga, hverju sem menn annars bugta fyrir í stjórnmálum.

Höfundur er viðskiptafræðingur.