Spennan í íslensku efnahagslífi vex jafnt og þétt. Í Morgunblaðinu á laugardag kemur fram að í stéttarfélögum gæti nú vaxandi óþreyju vegna kjaramála og verðhækkana undanfarnar vikur.

Spennan í íslensku efnahagslífi vex jafnt og þétt. Í Morgunblaðinu á laugardag kemur fram að í stéttarfélögum gæti nú vaxandi óþreyju vegna kjaramála og verðhækkana undanfarnar vikur.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir í fréttinni að öll umræða um þjóðarsátt sé út í hött: „Bak við þessa umræðu er nákvæmlega ekki neitt.“ Hann segir engin áhrifaöfl í þjóðfélaginu verja stöðugleikann. Tal forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um að halda þurfi niðri verðlagi séu innantóm orð því hvorki einkafyrirtæki né opinber fari eftir því.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar-stéttarfélags, átti fyrir helgina fundi með félagsmönnum í Þingeyjarsýslum vegna viðræðna við sveitarfélögin um endurnýjun samninga. „Það er þungt hljóð í fólki og krafa um há laun og stuttan samning,“ segir hann.

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent frá sér frétt þar sem segir að ekki verði lengur horft upp á það hvernig farið er með verkafólk. Það ætlar að krefjast þess að laun verði hækkuð í samræmi við hækkanirnar í samningi ljósmæðra.

Á næstu vikum og mánuðum losnar fjöldi samninga. Það er skiljanlegt að urgur sé í launþegum. Ef nú verður farið fram með kröfur um gríðarlegar hækkanir á launum gæti það hins vegar hrint af stað skriðu víxlverkana, sem erfitt verður að stöðva. Afleiðingar hækkandi verðbólgu eru þegar farnar að koma harkalega niður á almenningi og allar launahækkanir yrðu fljótar að hverfa ef kynt yrði undir báli verðbólgu.

Gagnrýni Sigurðar Bessasonar á áhrifaöflin í þjóðfélaginu á hins vegar fullan rétt á sér. Hvernig stendur á hækkunum á gjaldskrá Orkuveitunnar? Iðnaðarráðherra staðfestir hana og borgarfulltrúar lyfta ekki fingri. Af hverju samþykkja stjórnmálamenn þessar hækkanir?

Undir hverju er Síminn að kynda með því að hækka gjaldskrá sína? Svo má ekki gleyma hækkunum á matvöru og svimandi háu eldsneytisverði.

Menn verða að átta sig á því að ýmislegt annað en launahækkanir veldur verðbólgu. Það er ekki hægt að tala um þjóðarsátt í sömu andránni og allt hækkar nema launin. Ef aðeins launþegar eiga að herða sultarólina verður engin þjóðarsátt.