Sigríður Ingibjörg Kristinsdóttir fæddist á Hofi í Vatnsdal 24. apríl 1925. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Grund 17. september síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fossvogskirkju 24. september.

Okkur langar að minnast elskulegrar ömmu okkar, hennar ömmu Siggu, sem andaðist 17. september sl. Þó svo að okkur hafi verið ljóst hvert stefndi þá er erfitt að horfast í augu við það að amma sé nú horfin yfir móðuna miklu.

Amma Sigga var einstök kona. Hún var nákvæm, eftirtektarsöm, hjartahlý, listræn, frásagnarglöð og mikill húmoristi. Þegar við systkinin vorum yngri var fátt eins skemmtilegt og að fara í heimsókn til ömmu Siggu í Reykjavík. Við fengum þá að kíkja með henni í vinnuna, fengum kók og hraunbita, sem hún átti ætíð til, og síðast en ekki síst fengum við að heyra ævintýrið um Smjörbítil og Gullintanna sem hún sagði okkur í óteljandi skipti, og við fengum aldrei nóg af. Í seinni tíð eru það listaverkin hennar, frásagnir af fortíðinni og skiptibókamarkaður hennar og okkar systranna á bókum úr Rauðu seríunni sem standa upp úr, ásamt þeim góðu og skemmtilegu stundum sem við áttum svo oft með henni á Minna-Mosfelli.

Amma Sigga hafði mikinn áhuga á ljóðum eins og ríkt er í ættinni og gerði sjálf fallegar vísur sem hún sendi okkur oft í afmælis- og jólakortum. Okkur finnst nú eiga vel við lokaerindið úr ljóði sem föðuramma hennar og nafna, Sigríður Hjálmarsdóttir frá Haugsnesi, orti til sonar síns fyrir 100 árum:

Ljúfust höndin lausnarans

líkni öndu þinni,

leystri af böndum líkamans

lífsins strönd svo finni.

Minning ömmu Siggu mun alltaf lifa í hjörtum okkar og við kveðjum hana með þakklæti og söknuði.

Hanna Lilja, Sigríður Þóra og Sigurður Már.

Þegar Valur frændi minn hringdi til mín um hádegið á þriðjudaginn og tilkynnti mér andlát móður sinnar, brá mér mjög, ég hafði einhvern veginn ekki gert mér í hugarlund að komið væri að leiðarlokum hjá henni Siggu móðursystur. Hún var alltaf svo kát og lifandi, þó heilsan hefði verið æði misjöfn í marga áratugi.

Mínar fyrstu minningar um Siggu eru úr pínulitlu húsi á Sogabletti 19 í Sogamýri sem síðar varð Rauðagerði og nú er númer 79. Þau Þorvaldur höfðu keypt þetta litla hús og komu sér fyrir með tvö smábörn, byggðu síðan eitt herbergi við þetta litla hús, eignuðust þriðja barnið en svo barði ógæfan að dyrum og Eyjólfur, miðbarnið lést. Þau hófu svo að byggja nýtt og stórt hús á lóðinni sem fylgdi húsinu og fluttust í það og með árunum fæddust þeim tvö börn til viðbótar.

Er komið var að því að yngsti sonurinn fermdist, lést Valdi (Þorvaldur) úr krabbameini og því var drengurinn fermdur viku síðar en upphaflega var ákveðið. Sigga var ákaflega myndarleg húsmóðir og ævinlega er gesti bar að garði var eins og hún væri göldrótt, alls kyns kræsingar voru á borð bornar, eins og fyrir galdra. Hún var ekki síður myndarleg við alls konar saumaskap, sama hvort það var fatasaumur eða fínasti útsaumur, allt lék í höndunum á henni.

Það var alltaf mjög gott að koma til Siggu ef mann vantaði góð ráð við saumaskap, kökubakstur eða eldamennsku. Ég minnist þess er móðir mín lést að Sigga hringdi til mín og spurði, hvort ekki ætti að vera kaffi eftir útförina, bauðst svo til að hjálpa mér við að útbúa meðlæti, bæði kökur og smurt brauð. Ég þáði auðvitað aðstoðina með þökkum og einnig er haldið var upp á áttræðisafmæli föður míns. Sigga dró ekki af sér við að hjálpa mér í því og er ég viss um að fáir hafa haft jafnyndislegan, mér liggur við að segja kennara og ég hafði við það.

Aldrei mátti tala um að gera eitthvað fyrir hana í staðinn, við systurnar Eva og ég fengum þó að bjóða henni út í bæ í mat og nutum við þeirra samvista og kaffisins heima á Kópavogsbraut hjá mér í botn. Fyrir fimm árum var Sigga í orlofsdvöl með Reykjavíkurkonum á sama tíma og ég var með Kópavogskonum og orti hún þá afskaplega skemmtilegan brag um dvölina og okkur konurnar sem hún flutti sjálf í hljóðnemann á sviðinu og höfðum við allar mjög gaman af.

Nú er hún Sigga farin í ferðina miklu og veit ég að Valdi og Eyjólfur taka á móti henni, ásamt svo mörgum öðrum ástvinum sem farnir eru og að henni líður örugglega vel. Ég mun sakna hennar og verður örugglega oft hugsað til hennar, við bakstur, kökuskreytingar eða sauma- og prjónaskap, hún gaf mér svo mikið.

Ég bið Guð að hugga syni hennar, þá Sölva, Val, Þorvald og Hauk og þeirra fjölskyldur. Minningin um góða og ástríka móður, tengdamóður, ömmu, systur og frænku mun lifa með okkur öllum um ókomin ár.

Birna Árnadóttir.