Landgræðsla Þroskað birkifræ.
Landgræðsla Þroskað birkifræ.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er máltæki hjá góðum vini okkar hjóna að við lifum á erfiðum tímum, já við lifum á hörmulegum tímum segir hann stundum og drepur brosandi tittlinga.

Það er máltæki hjá góðum vini okkar hjóna að við lifum á erfiðum tímum, já við lifum á hörmulegum tímum segir hann stundum og drepur brosandi tittlinga. Ef eitthvað er að marka fjölmiðlafréttir þá lifa fjármagnseigendur og lánþegar nú á hörmulegum tímum, bankamenn óttast gjaldþrot meir en nokkurn tíma fyrr og martröð þeirra snýst um vísitölur og fjöldaflótta viðskiptamanna. Síst skal ég gera lítið úr erfiðum fjármálatímum, en ég þekki þó einn bankastjóra, sem horfir brosandi mót vaxandi innlánum og hugsar með gleði til væntanlegra lántakenda í bankanum. Þetta er bankastjóri fræbanka GÍ. Margir félagar GÍ eru komnir á fleygiferð að safna fræi, þurrka það og hreinsa. Næstu vikur senda þeir „innlegg“ sín í fræbankann. Þá tekur við mikið flokkunarstarf starfsmanna „bankans“ og í febrúar birtist ef að líkum lætur listinn yfir það fræ sem félögum Garðyrkjufélagsins býðst síðvetrar. Undanfarin ár hafa u.þ.b. 1000 tegundir verið á frælistanum og félögum stendur til boða að panta 20 – 30 tegundir hvert ár og þurfa aðeins að greiða fyrir nokkurn veginn það sem nemur burðargjaldi fræsins. Það eru margir kostir fólgnir í því að vera félagsmaður. Fræsöfnun horfir fram á við, til næsta árs eða ársins þar á eftir og jafnvel getur fræsöfnun þessa hausts glatt einhvern eftir fimmtíu ár eða meir, ef vel tekst til með sáningu og uppeldi þeirra plantna, sem við erum að safna fræi af núna. Vert er að nefna að það eru fleiri fræbankar en banki GÍ sem taka fegins hendi á móti innleggi. Landgræðsla Íslands hefur kvatt landsmenn til að safna birkifræi sem aldrei fyrr og senda græðslunni. Ætlunin er að nota fræið til sáningar í Hekluskóga, mjög stórhuga uppgræðsluverkefni á áhrifasvæði Heklu. Vonast er eftir að takist að auka gróður á gróðurvana svæðum umhverfis Heklu þannig að landið þoli betur það öskufall sem kemur í eldgosum og minni hætta verði á uppblæstri. Sagnir um sandveturinn mikla 1882 eru ræktunarmönnum í fersku minni, en þá fóru tugir jarða í eyði og þúsundir hektara urðu sandinum að bráð. Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjustjóri OR og frv. formaður GÍ skrifaði fyrir nokkru góða grein um söfnun og meðhöndlun birkifræs. Með samþykki hans birti ég dálitla klausu úr þeirri grein: „Birkifræið er að jafnaði þroskað um mánaðarmótin sept. – okt. og hangir fræið á plöntunum fram yfir miðjan okt. jafnvel lengur allt eftir tíðarfari. Þegar birkifræi er safnað skal tekið af heilbrigðum trjám. Takið væna, heila rekla, ekki þá sem eru litlir eða afmyndaðir. Tínið frá blöð og stilka sem slæðast kunna með og þurrkið fræið við stofuhita, t.d. í þunnum flekk á dagblaði í 3 – 4 daga. Þegar heilir reklar hrynja í sundur við átöku er fræið þurrt. Það má síðan geyma í bréfpoka, helst á köldum stað en þurrum. Birkifræið er örsmá hneta með allbreiðum væng og er allt að ein og hálf milljón fræja í kílói. Algeng spírun er 20– 25% jafnvel minna. Fræið tapar spírunarhæfni í geymslu og líklega ætti ekki að nota fræ eldra en 2 – 3 ára. Spírunarhæfni má prófa.“

Núna er líka þroskað fræ fjölmargra blóma, trjáa og runna. Þeir sem vilja spreyta sig á fræsöfnun þurfa að hafa augun opin og fylgjast vel með. Körfublómaættkvíslin er mjög stór ættkvísl og innan hennar eru margar skemmtilegar garðplöntur. Þessar plöntur mynda fræ sem líkjast fræjum túnfífilsins, eru sem sagt hneta með „fallhlíf.“ Þegar vindurinn blæs nær hann oft að feykja fallhlífinni með sér og því er gott að fylgjast ekki aðeins með fræþroskanum heldur líka veðurspánni svo við verðum á undan Kára. Fræhirslur blómjurta eru ótrúlega fjölbreyttar, við höfum margskonar bauka, skálpa og hnetur svo nokkuð sé nefnt. Almennt talað eru fræin þroskuð þegar fræhirslan verður brún eða grá á litinn og byrjar að opna sig. Þá er um að gera að hafa hraðar hendur, hirða fræhirsluna, þurrka hana við stofuhita og hrista fræin úr henni. Svo þarf að merkja fræin vel og senda umframfræ í fræbanka GÍ. Ber margra trjáa og runna eru þroskuð núna. Best er að hreinsa aldinkjötið utan af fræjunum svo þau spíri fyrr. Í aldinkjötinu eru ensím, sem hindra spírun fyrr en það er rotnað. Það er mjög breytilegt hversu fljótt fræ spírar, margar tegundir spíra hálfum mánuði eftir sáningu, aðrar þurfa mánuði eða jafnvel ár til að spíra. Nokkrar þurfa kaldörvun, aðrar heitörvun. Ég er óþolinmóð að eðlisfari, reyni- og rósafræjum sái ég oft á haustin í lítið vel merkt ílát, set plastfilmu yfir svo ekki fjúki óvelkomin fræ í moldina og geymi ílátið úti á skjólgóðum stað yfir veturinn. Þá sér veðrið um hæfilega örfun fyrir fræið svo það spírar oftast að vori. Ég á stundum í dálitlum sálarháska. Margar fræhirslur eru svo skrautlegar að gaman er að nota þær í blómaskreytingar. Þannig skreytingar geta staðið allan veturinn, allt þar til unnt er að klippa fersk blóm í garðinum næsta sumar.