Scott Ramsay
Scott Ramsay
FALL varð ekki hlutskipti Grindvíkinga í ár eins og flestir höfðu spáð. Á laugardaginn tókst þeim með 1:0 sigri á Þrótti í Laugardalnum að tryggja sér 7. sæti deildarinnar. Heimavöllurinn virðist hinsvegar ekki henta liðinu því af níu sigurleikjum vannst aðeins einn í Grindavík.

Eftir Stefán Stefánsson

ste@mbl.is

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað. Þróttarar voru sprækari og áttu fleiri færi en tvívegis hittu Grindvíkingar rammann – Aljosa Gluhovic skaut í stöng og Scott í netið.

„Þó við hefðum ekki fengið nema stigið,“ sagði Gunnar Oddsson þjálfari Þróttar dapur í bragði eftir leikinn. „Þetta var ógeðslega súrt, ef einhver hefði átt að vinna þennan hefðum það átt að vera við en þeir eru með Scotty og ef hann fær einhvern frið, gerir hann eins og honum er lagið.“

Gunnar ætlar að vera áfram í herbúðum Þróttar. „Ég á ár eftir af þriggja ára samningi og geri ráð fyrir að standa við hann. Við reiknuðum með að vera í neðri hlutanum en náðum stóra markmiðinu þó að við höfum ekki náð eins mörgum stigum og við ætluðum okkur. Við áttum nokkra dapra leiki í lokin. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að liðið var að koma upp úr fyrstu deildinni og síðustu tveir mánuðirnir voru mjög erfiðir en fram að því sýndum við góða leiki. Það vantaði aðeins uppá breiddina. Við lánuðum þó nokkuð af leikmönnum í lok júlí og eftir á að hyggja var það jafnvel of dýrt fyrir okkur.“

„Ég verð að segja að þetta var ótrúlegt, að vinna svona marga leiki á útivelli og ef við hefðum unnið nokkra á heimavelli hefðum við jafnvel komist í Evrópukeppni,“ sagði Milan Stefán Jankovic þjálfari Grindvíkinga.

Milan Stefán áfram

„Það spáðu allir okkur falli nema við þjálfarar, leikmenn og stjórn í Grindavík og svo eigum við þessa stuðningsmenn og ég get varla lýst því hve ég er ánægður með þá. Ég held að ég eigi ár eftir af samningi við Grindavík og ég ætla að klára það en sjá svo til. Við þurfum að skipta um leikmenn á hverju ári, sem er ekki nógu gott og við þurfum alltaf að byrja uppá nýtt. Nýir leikmenn þurfa að kynnast mér og mínum æfingum og hvernig ég vil spila en nú helst vonandi sami hópurinn, gott ef við fengjum einn til tvo til viðbótar. Þá gerum við betur.“

Þróttur R. 0 Grindavík 1

Valbjarnarvöllur, Landsbankadeild karla, laugardaginn 27. september 2008.

Mark Grindavíkur : Scott Ramsay 85.

Markskot : Þróttur 11 (6) – Grindavík 5 (2).

Horn : Þróttur 2 - Grindavík 2.

Rangstöður : Þróttur 3 – Grindavík 5.

Skilyrði : Suðvestan kaldi, rigning en stöku sólarglenna og um 9 stiga hiti. Völlur ágætur.

Lið Þróttar : (4-5-1) Sindri Snær Jensson – Hákon Andri Víkingsson, Eysteinn Pétur Lárusson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Kristján Ómar Björnsson – Andrés Vilhjálmsson (Brynjar Guðjónsson 79.), Hallur Hallsson, Rafn Andri Haraldsson, Magnús Már Lúðvíksson, Jesper Sneholm (Adolf Sveinsson 46.) – Hjörtur J. Hjartarson (Oddur Björnsson 85.).

Gul spjöld : Andrés Vihjálmsson 16. (brot).

Rauð spjöld : Engin.

Lið Grindavíkur : (4-4-2) Óskar Pétursson – Bogi Rafn Einarsson, Eysteinn Hauksson, Marinko Skaricic, Jósef Kristinn Jósefsson (Andri Steinn Birgisson 55.) – Aljosa Gluhovic, Orri Freyr Hjaltalín, Jóhann Helgason, Emil Daði Símonarson (Óli Baldur Bjarnason 61.) – Scott Ramsay, Tomasz Stolpa (Vilmundur Þór Jónasson 88.).

Gul spjöld : Jósef Kristinn Jósefsson 19. (brot), Andri Steinn Birgisson 90. (brot).

Rauð spjöld : Engin.

Dómari : Örvar Sær Gíslaon, Fram, 5.

Aðstoðardómarar : Frosti Viðar Gunnarsson og Smári Stefánsson.

Áhorfendur : Um 240.

0:1 85. Scott Ramsay fékk boltann nokkrum metrum utan við vítateig vinstra megin, lagði hann fyrir sig og þrumaði beint í hægra hornið.

Þróttur

M

Hallur Hallsson

Eysteinn Pétur Lárusson

Magnús Már Lúðvíksson

Rafn Andri Haraldsson

Þórður Steinar Hreiðarsson

Grindavík

M

Scott Ramsay

Jóhann Helgason

Eysteinn Hauksson

Orri Freyr Hjaltalín

Aljosa Gluhovic