Beygðar Íslensku landsliðskonurnar voru daprar í bragði í leikslok því gott tækifæri fór forgörðum. Þær fá hins vegar aðra tilraun til að komast á EM.
Beygðar Íslensku landsliðskonurnar voru daprar í bragði í leikslok því gott tækifæri fór forgörðum. Þær fá hins vegar aðra tilraun til að komast á EM. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HVAÐ er hægt að segja? Stúlkurnar ellefu sem leik hófu gegn Frökkum í La Roche í Frakklandi á laugardaginn var voru vissulega yfirspilaðar í tætlur í byrjun þess leiks.

HVAÐ er hægt að segja? Stúlkurnar ellefu sem leik hófu gegn Frökkum í La Roche í Frakklandi á laugardaginn var voru vissulega yfirspilaðar í tætlur í byrjun þess leiks. Svo mjög reyndar að franskir áhorfendur fóru fljótlega að búast við stórsigri eftir frábæra byrjun sinna stúlkna. En okkar stúlkur eru ekki íslenskar fyrir ekki neitt. Þær voru vissulega slegnar í gólfið af mun öflugri andstæðingi, en þær stóðu jafnharðan upp aftur og gátu borið höfuðið hátt í leikslok þrátt fyrir 2:1-ósigur.

Eftir Albert Örn Eyþórsson í Frakklandi

albert@mbl.is

Í grunninn þarf ekki að segja nein ósköp um leikinn sjálfan. Hann tapaðist og því verður leið Íslands á Evrópumótið í Finnlandi aðeins grýttari fyrir vikið en stig gegn Frökkunum hefði nægt til að íslenskt landslið tryggði farseðilinn þangað fyrst íslenskra landsliða. Ekki vantaði heldur metnaðinn í stelpurnar fyrir leikinn. Vildi hver og ein einasta þeirra átján leikmanna sem skipa landsliðið spila leikinn og leggja sitt af mörkum með mörkum og það segir mikið um kvennalandsliðið okkar.

Sprengja Frakka

Það þurfti þó ekki nema rúma mínútu af leiknum til að átta sig á að íslenska liðið mætti þar ofjörlum sínum. Franska liðið hóf leikinn af slíkum fítonskrafti að unun var á að horfa jafnvel þó um andstæðing Íslands væri að ræða. Að sama skapi virtist þessi ægilega byrjun Frakka koma stelpunum í opna skjöldu og vandræðagangurinn fyrstu mínúturnar svakalegur. Sendingar þeirra íslensku skiluðu sér annaðhvort beint til franskra leikmanna eða beint út af og lítið sem ekkert varð úr neinu spili. Og kraftur Frakka skilaði sér eftir aðeins sex mínútna leik þegar Sandrine Soubeyrand skoraði fyrsta mark Frakka með glæsiskoti fyrir utan teig eftir að boltinn barst út til hennar eftir harða atrennu þeirra frönsku. Var markið fyllilega verðskuldað.

Kalt vatn milli skinns og hörunds

Við markið fór verulega um íslenska stuðningsmenn því ljóst þótti að miðað við stórkostlega byrjun Frakka var hætta á að um slátrun gæti orðið að ræða. Þó þær frönsku vissulega héldu sóknum sínum áfram þá minnkaði broddurinn í þeim talsvert við markið. Áfram gekk íslenska liðinu illa þó pressan frá þeim frönsku væri minni, þær voru meira eða minna skrefi á eftir þeim frönsku og taugaveiklaður leikur þeirra virtist ekki batna. Skapaði íslenska liðið sér engin stórvægileg færi í öllum fyrri hálfleiknum.

Spark í rassinn

Hafi Frakkar hafið fyrri hálfleikinn af fítonskrafti féll það í skuggann af viðlíka frammistöðu íslenska liðsins í byrjun þess síðari. Í lok þess fyrri var fátt sem benti til að Ísland ætti mikið meira erindi gegn Frökkum, en annað kom í ljós. Var næstum sem nýtt íslenskt lið hefði gengið út á völlinn í seinni hálfleik því nú voru það þær frönsku sem vissu ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Sendingar íslenska liðsins fóru að rata rétta leið, stelpurnar fóru að spila sín á milli og það sem mest var um vert var að það hugmyndaleysi og taugaveiklun sem var aðalsmerki liðsins í fyrri hálfleik hvarf eins og dögg fyrir sólu. Lið Íslands í seinni hálfleik var lið sem allir Íslendingar geta verið stoltir af. Marki undir á útivelli þar sem fimm þúsund franskir áhorfendur æptu sig hása og púuðu gjarnan á íslensku leikmennina og hvað gerðu okkar stúlkur? Þær jöfnuðu leikinn.

Katrín hetjan

Jöfnunarmark Íslands kom mjög óvænt. Brotið var illa á Hólmfríði Magnúsdóttur á miðjum vallarhelmingi franska liðsins. Varð hún að fara út af vegna aðhlynningar en í millitíðinni tók Edda Garðarsdóttir fína aukaspyrnu inn í teig og rataði knötturinn beint á kollinn á Katrínu Jónsdóttur fyrirliða sem þar kom aðvífandi og skallaði boltann í stöng og mark, 1:1. Því miður fyrir íslenska liðið voru þær vart hættar að fagna þegar Frakkland skoraði aftur, að þessu sinni tómt grísamark eftir talsverðan vandræðagang í íslenska teignum. Það mark Candie Herbert gerði útslagið þegar upp var staðið. Það sem eftir lifði leiks sóttu liðin á báða bóga og Ísland fékk nokkur tækifæri til að skora án þess að það þó tækist.

Sannar hetjur

Íslensku stúlkurnar geta borið höfuðið hátt. Þær frönsku höfðu afar góðan stuðning af pöllunum og tvær leikmanna þeirra viðurkenndu eftir leikinn að hann hefði verið afar erfiður. Nú þarf Ísland að fara í umspil þar sem liðið mun líklega mæta lakari andstæðing en Frökkum og tækifærið er enn þeirra að komast á Evrópumótið í Finnlandi.

„Ég er pirruð því það féll ekkert með okkur“

Margrét Lára svekkt en samt ánægð með að liðið skyldi rífa sig upp eftir fyrra mark Frakka - Sigurður Ragnar telur að margt hafi gengið upp þrátt fyrir tap

Eftir Albert Örn Eyþórsson í Frakklandi

albert@mbl.is

Það er engum blöðum um það að fletta, ekki einu sinni Morgunblaðinu, að erfitt var fyrir Íslendinga að horfa á fyrstu mínútur þessa leiks á laugardaginn var. Fyrstu tuttugu mínúturnar var aðeins eitt lið á vellinum og ekki var það Ísland. Grætilegt en jafnframt heillandi. Grætilegt af því að „stelpurnar okkar“ voru teknar í kennslustund þær mínútur en heillandi af því að kennarinn er eitt besta kvennalið heims og auðvelt var að sjá hvers vegna í fyrsta kafla leiksins. Þarna mættust liðin í sjöunda og átjánda sæti heimslista FIFA og munurinn var auðsjáanlegur.

En að sama skapi er alveg óhætt að taka hattinn vel ofan fyrir íslenska liðinu því þrátt fyrir hörmulega byrjun og að vera marki undir á útivelli gegn stórliði Frakka hysjuðu þær vel upp um sig buxurnar þegar líða tók á leikinn og voru kannski nett óheppnar að ná ekki stigi þegar upp var staðið.

Gerðum okkar besta

Markahrókurinn Margrét Lára Viðarsdóttir var einna svekktust eftir leikinn og sagði sárt að tapa leiknum. „Við vorum á kafla nálægt því að ná yfirhöndinni og þá skora þær aftur hálfgert slysamark og já, ég er nokkuð pirruð líka því það féll ekkert með okkur og það hefðum við þurft gegn svona sterku liði. Dómar voru okkur í óhag og þær grimmari við okkur en við gegn þeim. Auðvitað vantaði kannski aðeins upp á sjálfstraustið í upphafi leiksins en það kom þegar á leið og þegar það gerðist vorum við engu minni aðili á vellinum. Ég fyrir mína parta er afar stolt af stelpunum því það þarf mikinn karakter til að rísa aftur á fætur eftir það áfall sem fyrsta mark Frakka snemma í leiknum var og það gerðum við sannarlega.“

Þjálfarinn sáttur

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari var að sama skapi nokkuð sáttur að leik loknum.

„Annað er bara ekki hægt. Mjög öflugur andstæðingur en stelpurnar gerðu allt það sem lagt var upp með og margt af því gekk upp. Auðvitað var fát og fum í byrjun og við áttum erfitt uppdráttar en við náðum okkur upp úr því með hörkunni.“

Áberandi munur var á leik íslenska liðsins í fyrri hálfleik og þeim síðari en Sigurður vill ekki skrifa alveg upp á það. „Það voru andartök í fyrri hálfleik sem gengu vel og við áttum nokkur sæmileg færi. En síðari hálfleikur var vissulega betri af okkar hálfu og við gáfum þeim frönsku ekkert eftir þann hluta. En það var dálítið óheppilegt að fá annað markið svo skömmu eftir að við skorum. Það slökkti aftur aðeins þann neista sem þá kom í liðið og þær frönsku bökkuðu aftur á völlinn eftir það. En ég ætla ekki að taka það af liðinu að þær lögðu sig allar fram og reyndu sitt besta og ég fer ekkert fram á neitt meira en það. Þetta er fyrsti leikurinn sem við töpum í langan tíma, við töpuðum naumlega og það á útivelli gegn sterku frönsku liði sem fékk frábæran stuðning af pöllunum. Þær gerðu bara vel heilt yfir þó vissulega væri stefnan að leggja Frakka að velli í upphafi.

Í hnotskurn
»Frakkland er búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM 2009 ásamt Svíþjóð, Þýskalandi og gestgjöfunum, Finnum.

»Ísland fer í umspilsleiki sem leiknir eru heima og heiman í lok október. Mótherjinn þar verður væntanlega eitthvert lið sem endar í 3. sæti síns riðils.

Líklegast að Ísland leiki gegn Tékklandi, Skotlandi eða Írlandi í umspilinu

EFTIR leiki helgarinnar í Evrópukeppni kvenna skýrðust línur talsvert. Frakkland bættist í hóp með Svíþjóð, Þýskalandi og gestgjöfum Finnlands sem eiga víst sæti í lokakeppni EM næsta sumar. Lokaleikir riðlanna eru leiknir á miðvikudag og fimmtudag og þá eru hreinir úrslitaleikir um EM sæti í þremur riðlum. Spánn mætir Englandi, Danmörk mætir Úkraínu og Rússland mætir Noregi. Þar eiga Rússar erfiðasta verkefnið og þurfa að leggja norska liðið með fjögurra marka mun til að skáka því og komast beint á EM.

Liðin þrjú sem ekki komast áfram eftir þessa leiki fara öll í umspilið ásamt Íslandi, Ítalíu, Hollandi, Tékklandi, Skotlandi og tveimur liðum í viðbót sem væntanlega verða Írland og Slóvenía. Reyndar á Sviss veika von en þarf til þess að ná stigi gegn Þýskalandi sem er afar hæpið.

Það skýrist ekki endanlega fyrr en að leikjunum loknum á miðvikudag og fimmtudag hverjir gætu orðið mótherjar Íslands. Málin geta þróast á tvo vegu:

* Ísland verður mjög líklega í hópi þeirra fjögurra liða sem verða með bestan árangur í 2. sæti í riðlunum sex. Þá verður mótherjinn í umspilinu úr hópi þeirra fjögurra liða sem komust áfram úr 3. sæti en það eru Tékkland, Skotland og væntanlega Írland og Slóvenía. Þar sem Ísland og Slóvenía voru saman í riðli geta þau ekki mæst og þá yrði mótherjinn Tékkland, Skotland eða Írland – hugsanlega Sviss.

*Ísland gæti mögulega endað með fimmta besta árangur í 2. sæti en til þess þarf Ítalía að vinna tíu marka sigur á Ungverjalandi, Spánn að vinna England og Rússland að fá stig gegn Noregi. Ef þannig fer, leikur Ísland gegn þeirri þjóð sem var með lakastan árangur í 2. sæti riðils. Það er Holland, hugsanlega Sviss, sem þá þyrfti að sigra Þýskaland.

Þann 6. október verður síðan dregið í umspilinu og þá skýrist endanlega hverjir mótherjar Íslands verða dagana 25. og 29. október. Þá verður leikið heima og heiman um sæti á EM í Finnlandi. vs@mbl.is

Hólmfríður var lögð í einelti

ÞÓ allar væru stúlkurnar í kvennalandsliðinu meira eða minna miður sín að leik loknum á laugardaginn voru þó nokkrar sérstaklega sem tóku tapið nærri sér. Hólmfríður Magnúsdóttir var ein þeirra en hún var næsta greinilega lögð í einelti í leiknum gegn Frökkum og ítrekað brotið á henni án þess að á væri dæmt. Lá hún þrívegis eftir óvíg í stundarkorn í leiknum og þurfti tvívegis að fara út af til aðhlynningar.

„Þetta er með því versta sem ég man eftir og ég undrast mikið hvað þær sluppu með skrekkinn af hálfu dómarans. Ég veit ekki hvort þær vissu af því að ég meiddist á æfingu á fimmtudaginn fyrir leikinn og reyndu að koma mér út en þær fóru langt yfir strikið. Fyrsta brotið var olnbogi beint í andlitið á mér, í því næsta er bara hoppað yfir mig og svo tækluðu þær mig mjög illa minnst einu sinni. Svo furðulegt sem það nú er þá fann ég hins vegar ekki fyrir þessum meiðslum frá fimmtudeginum fyrr en komið var í blálok leiksins. Þá fann ég aðeins til en það þarf bara góða hvíld og ætti að verða í lagi.“ albert@mbl.is

Vona að við fáum stuðning áfram

FYRIRLIÐI Íslands og markaskorarinn gegn Frökkum, Katrín Jónsdóttir, sagði að stúlkurnar í hópnum hefðu ekki lagst í neitt þunglyndi að leik loknum á laugardag þó mikið svekkelsi hefði gert vart við sig. „Úrslitin urðu okkur í óhag og það voru okkur eðlilega mikil vonbrigði enda er draumurinn að komast á EM og þangað ætlum við að komast. En í staðinn tekur bara við annað og nýtt verkefni eftir mánuð og þetta breytir engu um að við erum staðráðnar í að ná þangað og við vorum farnar að hugsa um framhaldið strax daginn eftir leik. Það verkefni er engu síður erfitt en leikurinn gegn Frökkum og þó við vitum ekki hver andstæðingurinn verður þá eru flest liðin sem til greina koma afar sterk og nokkur ekki síður sterk en franska liðið. Nú einbeitum við okkur að þeim leikjum og viljum eins mikinn stuðning og hægt er í leiknum heima og ég vona að við fáum hann.“ albert@mbl.is

Frakkland 2 Ísland 1

Henri-Desgrange-leikvangurinn í La Roche-sur-Yon, Evrópukeppni kvenna, 3. riðill, laugardaginn 27. september 2008.

Mörk Frakklands : Sandrine Soubeyrand 6, Candie Herbert 49.

Mörk Íslands : Katrín Jónsdóttir 47.

Markskot

: Frakkland 17 (11) – Ísland 8 (4).

Horn : Frakkland 7 – Ísland 0.

Rangstöður : Frakkland 3 – Ísland 4.

Skilyrði : Fyrsta flokks. Sólskin og tuttugu stiga hiti.

Lið Frakklands : (4-4-2) Céline Deville – Sandrine Soubeyrand, Laura Georges, Sonia Bompastor, Corine Franco - Camille Abily, Elise Bussaglia (Delphine Blanc 86), Luisa Necib, Sabrina Viguer – Elodie Thomis, Candie Herbert (Sandrine Bretigny 69).

Gul spjöld : Laura Georges 65. (brot),

Rauð spjöld : Engin.

Lið Íslands : (4-5-1) Þóra Helgadóttir – Ásta Árnadóttir (Harpa Þorsteinsdóttir 86), Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir – Dóra María Lárusdóttir (Rakel Hönnudóttir 69), Edda Garðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir (Katrín Ómarsdóttir 75), Sara Björk Gunnarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir – Margrét Lára Viðarsdóttir.

Gul spjöld : Dóra Stefánsdóttir 60. (tækling).

Rauð spjöld: Engin.

Dómari : Dagmar Dagkova, Tékklandi, 2.

Aðstoðardómarar : Lucie Ratajova og Adriana Secova.

Áhorfendur : ca. 4.600.