Eftir Sindra Sverrisson sindris@mbl.is PÉTUR Hafliði Marteinsson, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, hefur átt frábært sumar í hjarta KR-varnarinnar á sínu öðru ári hjá félaginu eftir að hann sneri heim úr atvinnumennsku.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

PÉTUR Hafliði Marteinsson, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, hefur átt frábært sumar í hjarta KR-varnarinnar á sínu öðru ári hjá félaginu eftir að hann sneri heim úr atvinnumennsku. Hann býst hins vegar við því að yfirstandandi leiktíð sé sín síðasta á löngum ferli.

„Ég veit það ekki en það er komin þreyta í kallinn og ég býst svona síður við því að halda áfram. Ég hugsa mig eitthvað um í vetur en ég á alveg von á því að þetta sé mitt síðasta tímabil. Vonandi klára ég það bara með dollu á laugardaginn,“ sagði þessi 35 ára gamli varnarjaxl í samtali við Morgunblaðið eftir sigurinn á Val, 1:0, á laugardaginn.

Pétur lék erlendis í ellefu ár, með Hammarby í Svíþjóð, Stabæk í Noregi og Stoke í Englandi. Þar af var hann í sex og hálft ár í röðum Hammarby.

Samtals á hann að baki 298 deildaleiki á ferlinum, 36 með Fram, 34 með Leiftri, 118 með Hammarby, 63 með Stabæk, 18 með Stoke og 29 með KR.

Þá lék Pétur 36 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og spilaði 19 leiki með 21-árs landsliðinu, þar sem hann er næst-leikjahæstur Íslendinga frá upphafi.

Hann getur orðið bikarmeistari með Vesturbæjarliðinu með sigri á Fjölni næstkomandi laugardag.