— Morgunblaðið/ÞÖK
Innbrotum fer fjölgandi ef marka má fréttir að undanförnu og því er ekki úr vegi að huga að nokkrum einföldum atriðum sem spornað geta við innbrotum á heimili.

Innbrotum fer fjölgandi ef marka má fréttir að undanförnu og því er ekki úr vegi að huga að nokkrum einföldum atriðum sem spornað geta við innbrotum á heimili. Fyrir utan að læsa húsum sínum, slökkva á eldavél og skrúfa fyrir vatn er margt hægt er að gera til að vernda hagsmuni fjölskyldunnar án þess að kosta miklu til. Til að mynda getur útilýsing fælt þjófa frá en á heimasíðu Öryggismiðstöðvarinnar eru nokkur einföld atriði sem gott er að huga að:

*Verið með nýleg „þjófheld“ stormjárn í gluggum. Hægt er að fá þau í byggingavöruverslunum.

*Trjágróður má ekki skyggja sýn á húsið frá nágrönnum og götum.

*Læsið stiga og önnur tól sem hægt er að nota til innbrots inni.

*Ekki láta þá sem standa fyrir utan húsið sjá verðmæti eins og fartölvur, myndavélar og annað sem auðvelt er að koma í verð.

*Heppilegt er að koma dýrmætum hlutum eins og frímerkja- eða myntsafni, dýrum skartgripum o.þ.h. fyrir á öruggum stað, til dæmis í bankahólfi. Haldið skrá yfir hluti – myndir og raðnúmer af verðmætum hlutum..

Þegar farið er að heiman yfir daginn er gott að:

*Áframstilla heimasíma í vinnu eða farsíma. Innbrotsþjófar hringja oft á undan sér til að vita hvort einhver sé heima.

*Einnig er gott að skilja eftir útvarp í gangi, hæfilega hátt stillt og hafa ljós kveikt á sýnilegum stað í húsinu.