Ljósaskipti Kvikmyndin Twilight er væntanleg í kvikmyndahús fyrir jól og verður án efa vel sótt.
Ljósaskipti Kvikmyndin Twilight er væntanleg í kvikmyndahús fyrir jól og verður án efa vel sótt.
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is NETIÐ er örlagavaldur í dreifingu á tónlist og hefur einnig breytt ýmsu í kvikmyndaheiminum.

Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

NETIÐ er örlagavaldur í dreifingu á tónlist og hefur einnig breytt ýmsu í kvikmyndaheiminum. Undanfarna mánuði og ár hefur það síðan skipt æ meira máli varðandi dreifingu á bókum og þá allajafna í óþökk höfunda og útgefenda. Málið er nefnilega að hægt er að sækja sér þúsundir bóka á netið og oft nánast um leið og þær koma út. Steininn tekur þó úr þegar hægt er að sækja á netið bækur sem ekki eru komnar út og jafnvel ekki tilbúnar eins og henti vinsælasta rithöfund Bandaríkjanna fyrir stuttu.

Vinsælasti rithöfundur Bandaríkjanna í dag er Stephenie Meyer, höfundur bókaraðar um unga stúlku sem verður ástfangin af vampíru. Það segir sitt um vinsældir hennar að sem stendur eru allar fjórar bækur hennar á lista yfir söluhæstu bækur Bandaríkjanna; Twilight í þriðja sæti, New Moon því fjórða, Eclipse í sjötta sæti og Breaking Dawn í sjöunda. Fyrir stuttu gerðist það svo að fimmta bók hennar sem tengist bókaröðinni lak á netið áður en hún kom út og varð til þess að hún hætti við útgáfuna.

Bókaröðin sem um ræðir segir frá unglingsstúlkunni Isabella „Bella“ Swan sem flyst til föður síns í smábæ á Ólympíuskaga í Washington-fylki. Þar fellur hún fyrir ungum pilti, Edward Cullen, sem er geysifagur, eiginlega yfirnáttúrlega fagur og hraustur, enda kemur í ljós að hann er yfirnáttúrleg vera – vampíra. Vinsældir bókanna eru mestar meðal unglingsstúlkna, enda hefur bókunum verið lýst sem eins konar stúlknaerótík – undirliggjandi spennan í samskiptum þeirra Bellu og Edwards er að þau mega ekki njótast því það gæti orðið hennar bani.

Meyer skrifaði fyrstu bókina á hendingsspretti, en gekk illa að finna útgefanda, en fyrsta bókin, Twilight, kom svo út 2005 og var gríðarvel tekið. Vinsældir hennar eru reyndar enn miklar eins og sést á því að hún er þriðja mest selda bók Bandaríkjanna nú um stundir og á enn eftir að seljast vel, ef að líkum lætur, því kvikmynd sem byggð er á sögunni, verður frumsýnd vestanhafs 21. nóvember næstkomandi.

Röð bókanna á títtnefndum metsölulista er sú sama og útgáfuröðin; Twilight kom út 2005, New Moon 2006, Eclipse 2007 og Breaking Dawn fyrr á þessu ári, en það er síðasta bókin í röðinni þar sem Bella er í aðalhlutverki.

Eins og getið er í upphafi var Meyer með í smíðum eina bók í röðinni til viðbótar, bók sem skrifuð var frá sjónarhorni Edwards. Midnight Sun átti sú bók að heita, en einn af þeim sem fengu nánast tilbúið handrit af henni til yfirlestrar í haust dreifði því á netinu. Fyrir vikið hætti Meyer við bókina og setti sjálf síðustu gerð handritsins á netið – hægt er að lesa það á vefsetri hennar. Sem stendur er ekki ljóst hvort bókin kemur nokkurn tíma út og þá í hvaða mynd.