Eftir Arnar Eggert Thoroddsen
arnart@mbl.is
Hljómsveitirnar Bloodgroup og Skátar leggja í hringferð um landið í kvöld ásamt fleiri sveitum. Fyrstu tónleikarnir eru á Egilsstöðum.
Tónleikarnir eru liður í Innrásarátaki styrktarsjóðsins Kraums sem miðar að því að byggja undir frekara tónleikahald úti á landi og hafa nokkur áhlaup verið gerð nú þegar á þessu ári.
Eldar Ástþórsson, framkvæmdastjóri Kraums, segir að hugmyndafræðin á bakvið innrásina felist í því að hjálpa sveitum að spila meira úti á landi.
„Það getur verið æði kostnaðarsamt og þar kemur Kraumur til,“ segir Eldar. „Það hefur líka sýnt sig að það er akkur í þessu fyrir listamennina. Að maður tali ekki um fyrir viðkomandi sveitarfélög, en dæmi eru um að heilu hljómsveitirnar hafi verið stofnaðar í kjölfar heimsókna af þessu tagi. Þá skiptir líka máli að rækta bakgarðinn, það er ekki endilega málið að fara rakleitt á einhverja klúbba í London eða Amsterdam. “
Aðrir bakhjarlar þessa tiltekna ferðalags eru Rás 2 og Ölgerðin.
Dagskráin
*8. október – Menntaskólinn á Egilsstöðum: Skátar, Bloodgroup, Mini-Skakkamanage.*9. október – Hraunsnef, Borgarfirði: Skátar, Bloodgroup , Dlx Atx.
*10. október – Edinborgarhúsið, Ísafirði: Skátar, Bloodgroup, Dlx Atx.
*11. október – Græni hatturinn, Akureyri: Skátar, Bloodgroup , Dlx Atx.
*14. október – Flensborg, Hafnarfirði: Skátar, Bloodgroup, Sykur, Dlx Atx.
*15. október – Paddy's, Keflavík:
Skátar, Bloodgroup,
Sykur, Dlx Atx.