Hrafn Magnússon Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Hrafn Magnússon Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Lífeyrissjóðir tóku vel í tilmæli ríkisstjórnar í fyrri viku um að taka þátt í umfangsmiklum aðgerðum í efnahags- og fjármálalífi með því að flytja allt að helming erlendra eigna sinna til landsins til að styrkja íslenska krónu.

Lífeyrissjóðir tóku vel í tilmæli ríkisstjórnar í fyrri viku um að taka þátt í umfangsmiklum aðgerðum í efnahags- og fjármálalífi með því að flytja allt að helming erlendra eigna sinna til landsins til að styrkja íslenska krónu. Engir samningar þar að lútandi hafa hins vegar átt sér stað, enda varð ljóst um helgina að umfang aðsteðjandi vanda væri slíkt að það kallaði á mun víðtækari og alvarlegri viðbrögð stjórnvalda en talað hafði verið um áður.

Engum dylst að íslensk þjóð glímir við mikinn vanda og lífeyrissjóðir, líkt og aðrir, taka þátt í aðgerðum sem miða að því að komast út úr þrengingunum. Landssamtök lífeyrissjóða hafa því beint þeim tilmælum til lífeyrissjóðanna að koma til móts við lántakendur eins og aðstæður leyfa hverju sinni.

Fyrir liggur að ástandið á fjármálamörkuðum og neyðarlögin frá Alþingi hafa áhrif á lífeyrissjóðina líkt og á öll heimili og fyrirtæki landsins. Ljóst er að eignir lífeyrissjóða rýrna við þessar aðstæður. Rétt er að halda því til haga að lífeyrissjóðir hafa aukið lífeyrisréttindi verulega á undanförnum árum. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skal vera jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og lífeyrisskuldbindingum sé yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár, ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ná jafnvægi milli eigna og skuldbindinga.

Í nýlegri úttekt Fjármálaeftirlitsins um fjárhagslega afkomu lífeyrissjóðanna kemur í ljós að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna var mjög sterk um síðustu áramót og þurfti enginn lífeyrissjóður í fyrra að grípa til lækkunar á lífeyrisgreiðslum vegna stöðunnar.

Allt bendir hins vegar til þess að aðstæður nú leiði til þess að grípa þurfi til einhverrar skerðingar lífeyrisréttinda sem kæmi þó ekki til framkvæmda fyrr en á fyrri hluta árs 2009. Hin trausta tryggingafræðilega staða sjóðanna um síðustu áramót hjálpar þó mikið til við þessar erfiðu aðstæður. Því er rétt að spyrja að leikslokum þegar árið verður gert upp.