Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@24stundir.is Fjármálaeftirlitið (FME) greindi frá því rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun að sérstök skilanefnd hefði tekið yfir stjórn Landsbanka Íslands.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@24stundir.is

Fjármálaeftirlitið (FME) greindi frá því rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun að sérstök skilanefnd hefði tekið yfir stjórn Landsbanka Íslands. Samkvæmt heimildum 24 stunda var það mat yfirvalda á mánudagskvöld að bankinn væri á leið í greiðsluþrot og á grundvelli nýsettra laga um yfirtöku banka var reksturinn yfirtekinn.

Heildareign hluthafa í Landsbankanum var metin á 218,8 milljarða klukkan 11:29 á mánudag, þegar viðskipti með bankann voru stöðvuð í kauphöllinni. Bankinn hefur ekki verið afskráður en hins vegar er búið að loka fyrir viðskipti með bréf í honum.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði í gær að eðlilegt væri að líta svo á að hluthafar hefðu afsalað sér bankanum til ríkisins og því þurfi þeir að taka á sig tap. Ekki hefur verið ákveðið hvort eða hvenær viðskipti með bréf í Landsbankanum hefjast að nýju.

Þrír lífeyrissjóðir áttu milljarða

Þrír lífeyrissjóðir voru meðal tuttugu stærstu hluthafa í Landsbankanum með 6,33 prósenta eignarhlut sem metinn var á fjórtán milljarða króna. Í yfirlýsingu frá Landssambandi lífeyrissjóða kemur fram að allt bendi til þess að grípa þurfi til skerðingar lífeyrisréttinda á fyrri hluta næsta árs.

Stærsti einstaki hluthafi Landsbankans var Samson eignarhaldsfélag með 41,85 prósenta eignarhlut sem var verðlagður á 93 milljarða króna. Samson er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Áður en bankinn var yfirtekinn hafði eignarhlutur þeirra þegar rýrnað um 77 milljarða króna það sem af er ári. Félagið óskaði í kjölfarið eftir heimild til greiðslustöðvunar.