Shogun Vernharður (gítar), Guðmundur (gítar), Ásgeir (söngur), Jóakim (bassi) og Martin (trommur, leysir Andra Þorgeirsson af hólmi).
Shogun Vernharður (gítar), Guðmundur (gítar), Ásgeir (söngur), Jóakim (bassi) og Martin (trommur, leysir Andra Þorgeirsson af hólmi). — Morgunblaðið/Eggert
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

SHOGUN vann Músíktilraunir árið 2007, fyrir rétt liðlega einu og hálfu ári, með níðþungu rokki sem skildi salinn eftir líkt og hann hefði fengið kjaftshögg eins og blaðamaður Morgunblaðsins komst að orði á sigurkvöldinu.

Sveitin hefur haldið uppi reglulegri spilamennsku síðan þá og síðasta árið eða svo hefur hún verið að að púsla saman plötu, hægt og bítandi, en hún leit dagsins ljós síðasta fimmtudag og kallast Charm City

Blanda

„Við spiluðum talsvert í kjölfar Músíktilrauna en drógum okkur svo í hlé til að geta einbeitt okkur að plötugerðinni,“ segir Jóakim Snær Sigurðarson bassaleikari.

„Við höfum verið að vinna í henni þrotlaust síðan og ákváðum að gefa okkur eins mikinn tíma og þyrfti. Hún er tekin upp hjá Einari Lúðvíkssyni í Stúdíó 6110, sem er svona bílskúrsstúdíó. Við vorum tiltölulega reynslulitlir en ég og Gummi (gítarleikari) höfðum reyndar unnið plötu með gömlu hljómsveitinni okkar, Love Taken Away.“

Í tónlist Shogun úir og grúir af stílum; menn hendast úr háskólarokki í grípandi keyrsluriff og svo í níðþunga hausaskakskafla í einu og sama laginu. Jóakim segir að sigurinn í Músíktilraunum hafi sannfært þá félaga um að þessi „blöndunarbraut“ væri sú rétta.

„Sigurinn var gríðarlega hvetjandi. Það er varlega farið í að blanda öllu svona saman og það getur komið bjánalega út. En við lögðumst yfir þetta af meiri nákvæmni eftir sigurinn.“ Í gegnum ofsafengna keyrslu Shogun má vel greina að hljóðfæraleikararnir kunna sitt fag og vel það. Var erfitt að stilla af rokkandi sveitt grúv og hreinar tækniæfingar?

„Það þurfti stundum að stoppa suma menn af,“ segir Jóakim og hlær. „Ég persónulega er t.a.m. mikið fyrir einfaldleikann en að mínu viti tókst okkur vel að feta milliveginn í þessum fræðum.“

Breytingar

Shogun er nýkomin úr stuttum túr um landið sem gekk vonum framar að sögn Jóakims og vel gekk að selja nýútkomna plötu eftir tónleika. Sveitin kemur fram á Airwaves í næstu viku og fleiri tónleikar eru framundan, hugsanlega einhverjir erlendis. Sú breyting hefur þá orðið á sveitinni að nýlega gekk trymbilinn Andri Freyr Þorgeirsson úr sveitinni. Það er Martin Davíð Jensen (Snafu, Finnegan, Shima) sem leysir hann af hólmi.

Hvað með sigurvegarana í ár?

SHOGUN sigruðu í fyrra en það var Agent Fresco, um margt áþekk sveit, sem sigraði í ár. Agent Fresco tekur melódíska djassspretti í bland við gallsúrt bylmingsrokk og er um þessar mundir að vinna að fimm laga stuttskífu. Kallast hún Lightbulb Universe og kemur út í nóvember. Samkvæmt Arnóri Dan Arnarsyni söngvara er allt hljóðritunarferlið í þeirra höndum.

„Platan verður mikið „unnin“ og lítið um hráan bílskúrshljóm,“ segir hann.

„Það er einfaldlega vegna þess að græjunum okkar er fyrirmunað að taka inn hráan hljóm!“

Agent Fresco treður upp í Listasmiðju FB í kvöld ásamt fleiri sveitum. Hún mun þá halda slatta af tónleikum í þessum mánuði og m.a. kemur hún fram á Airwaves.

Tóndæmi má nálgast á www.myspace.com/shogunice. Sveitin gefur sjálf út en kimi dreifir.