ALVARLEG vanskil einstaklinga jukust mjög hratt á fyrstu níu mánuðum ársins, þegar fjöldi nýskráðra á vanskilaskrá var nokkurn veginn sá sami og allt árið í fyrra.

ALVARLEG vanskil einstaklinga jukust mjög hratt á fyrstu níu mánuðum ársins, þegar fjöldi nýskráðra á vanskilaskrá var nokkurn veginn sá sami og allt árið í fyrra.

Þetta kemur fram í yfirliti Creditinfo Ísland um stöðuna það sem af er ári, en þar segir að fyrstu níu mánuði þessa árs hafi 3.316 einstaklingar 18 ára og eldri bæst á vanskilaskrá eða að meðaltali 368 á mánuði.

Til samanburðar bættust að meðaltali 279 einstaklingar við skrána á mánuði í fyrra og er því um ríflega 30% aukningu frá fyrra ári. Miðað við aukninguna það sem af er ári var heildarfjöldinn þann 4. október sl. orðinn jafn mikill og allt árið í fyrra.

Samtals eru 16.086 einstaklingar á vanskilaskrá á Íslandi, en alls eru um 285.966 einstaklingar 18 ára og eldri á Íslandi, samkvæmt upplýsingum Creditinfo Ísland.

Hyggst fyrirtækið leggja sérstaka áherslu á miðlun upplýsinga til félagsmálaráðuneytisins, jafnframt því að skila greiningarskýrslu um ástandið til stjórnvalda í vikunni.