[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hagkvæmnin getur vel náð yfir allt heimilishaldið og þá er gott að sanka að sér góðum ráðum,“ segir Margrét, beðin um nokkur góð húsráð. „Ég held að sem flestir ættu að taka slátur. Það er ódýr matur og hann má frysta.

„Hagkvæmnin getur vel náð yfir allt heimilishaldið og þá er gott að sanka að sér góðum ráðum,“ segir Margrét, beðin um nokkur góð húsráð. „Ég held að sem flestir ættu að taka slátur. Það er ódýr matur og hann má frysta.“ Margrét leggur áherslu á að vanda til verka þegar sett er í frystinn. „Það er til fyrirmyndar að halda bókhald yfir það sem fer í frystinn. Skrifa í bók hvað fer inn og hvenær og merkja síðan við þegar tekið er úr frystinum. Mikilvægt er að loka umbúðum vel og merkja þær skilmerkilega. Í dag má líka sleppa öllu snarli og snakki, það er óhemjudýrt og við þurfum ekkert á því að halda. Poppum bara í staðinn fyrir börnin eða skerum niður gulrætur og höfum með þeim einfalda heimatilbúna ídýfu.“ Margrét leggur einnig áherslu á að fólk læri að baka brauð. Heimabökuð brauð eru holl og góð. Það má líka baka mikið af brauði úr einum 2 kg poka af hveiti. Á barnmörgum heimilum skiptir þetta máli.

„Þá á fólk ekki að þvo svona hryllilega mikið,“ segir Margrét. „Það er dýrt og tímafrekt. Gangið bara aðeins lengur í fötunum, hvað haldið þið að þau verði skítug eftir einn dag? Handklæðin þarf heldur ekki að þvo eftir hverja einustu baðferð. Því hversu skítugur er maður eftir eina slíka? Ég yrði alveg vitlaus af því að vera alltaf að þvo handklæði!“ Margrét segir að til að ná hvítum bómullarsokkum hvítum og hreinum megi nudda í þá sítrónu og setja þá svo í suðu, þannig náist betri árangur og ekki þurfi að margþvo þvottinn til að ná honum hreinum og hvítum. „Ég þvæ alltaf íþróttasokka á suðu með handklæðunum,“ bætir hún við.